08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

27. mál, fjárlög 1944

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þótt ég sé ekki að öllu leyti samþykkur ummælum hæstv. fjmrh., eins og þau féllu hér í síðustu ræðu hans, m. a. ekki þeim að þakka hv. 7. þm. Reykv. fyrir till. hans um niðurskurð á fé til verklegra framkvæmda, þá sé ég samt sem áður ástæðu til að þakka hæstv. ráðh. fyrir sumt af því, sem hann mælti hér þá, og einkum ef það er gert í nafni allrar hæstv. ríkisstjórnarinnar. Það kann að bregða ofurlitlu ljósi yfir það ástand, sem afgreiðsla fjárl. er að komast í, og væri vert að taka það til íhugunar, og ekki síður af. hæstv. ríkisstjórn heldur en hv. þm. Hæstv. fjmrh. mælti svo um, að ríkisstjórnin mundi ekki verða neitt ginnkeypt til að taka við fjárl. til að framkvæma þau, ef þau yrðu framkvæmd á þann hátt, sem horfur eru nú á. Spurði hann, hvernig stjórnin ætti að laga dýrtíðina nema þingið gerði henni það mögulegt. En ríkisstjórnin leit svo á fyrir tæpu ári síðan, að þetta væri henni mögulegt. Það er bezt, að þetta komi fram, að hún finnur til þess, að það þarf fullt samkomulag og fulla samvinnu við Alþ. til þess að málin fari ekki í það ófremdarástand, sem þau nú eru komin í undir þessari stjórn og í þeim skorti á samvinnu við þingið, sem verið hefur. Hæstv. ráðh. sagði, að ríkisstjórnin sæti ekki sín vegna og ekki vegna þingmanna, heldur til þess að forða þjóðinni frá enn meira öngþveiti. Þessi siðaskipti, sem urðu við það, að ríkisstjórnin gerði innrás í Alþ. á þann hátt, sem gert var fyrir ári síðan, þau minna mig á önnur siðaskipti, sem urðu í landinu í mínu ungdæmi. Það þótti þá sjálfsagt að lesa sjóferðabæn, þegar róið var á haf út. En undireins og mótorbátarnir komu til skjalanna, þá þóttust þessir karlar nógu öruggir og lásu ekki bænina, eftir að vélin var komin í bátinn. — Sama hefur skeð hér. Það hefur hingað til þótt nauðsynlegt til öryggis, að sú stjórn, sem sæti að völdum, hefði meiri hl. Alþ. að baki sér. En þessi ríkisstjórn hefur ekki talið sig þurfa að lesa sjóferðabænina. Hún geti gert þetta allt upp á eigin spýtur. En mér virðist hæstv. fjmrh. nú vera að komast á aðra skoðun. Annaðhvort hefur mótorinn bilað eða það þarf að lesa sjóferðabænina nú, eins og áður hefur þurft á Alþ. Og ég óska, að það verði svo, að aldrei verði hægt að mynda neina ríkisstjórn hér á landi, sem ekki hafi meiri hluta Alþ. að baki sér, til þess að hægt sé að forða þjóðinni frá því öngþveiti, sem hún nú er komin í. Og þá gerði hæstv. ríkisstjórn afglöp, þegar hún kom fyrst í þingsalinn, að leita ekki strax trausts hjá þinginu. Hún hefði fengið það traust þann dag. Og ég er viss um, að það hefði styrkt ríkisstj. mikið, ef hún hefði aldrei tekið við völdum nema með því sjálfsagða skilyrði að krefjast trausts af þinginu. Hún notaði ekki annað tækifæri til þess að fá traust þingsins, nefnilega þegar hún lýsti því yfir fyrir nokkrum dögum, að hún mundi tvímælalaust framkvæma vilja Alþ. fyrir þjóðfélagið. Mér hefði þótt gaman að sjá þá menn, sem ekki hefðu viljað styðja þá stjórn, aðra en Alþfl.menn. Og þá hefði margt farið öðruvísi um afgreiðslu fjárl., ef ríkisstj. hefði notað þetta tækifæri.

Ég er sammála, því, að þessi fjárl. séu engan veginn heppileg, eins og þau eru nú. En helzta ástæðan til þess, að þau eru orðin eins og þau eru nú, er það, að ekki hefur verið nauðsynlegt samstarf á milli hæstv. ríkisstj. og Alþ. Og þetta verður aldrei lagað fyrr en það samstarf tekst. Ég mæli þetta ekki persónulega til neins þeirra hæstv. ráðh., sem í ríkisstjórn sitja. Það er annað atriði. En samvinna milli þessara tveggja stofnana er nauðsynleg til þess að ekki fari allt í það öngþveiti eins og þjóðmálin nú eru komin í.

Ég skal ekki deila við hæstv. ráðh. um það, fyrir hvað hæstv. ríkisstj. situr. En þegar hún kemst að þeirri niðurstöðu, að hún geti ekki af eigin rammleik komið málunum út úr öngþveitinu, þá er betra fyrir hana að vita, hvort ekki geta aðrir gert það, heldur en sitja í því botnlausa feni, sem hæstv. ráðh. lýsti hér, að væri mjög skammt fram undan, ef þessari stefnu væri haldið áfram.

Ég vil, út af þakklæti hæstv. fjmrh. til hv. 7. þm. Reykv., minna á það, að ég teldi það bein svík við þá aðila, sem lofað hefur verið hér fé til verklegra framkvæmda, ef aftan við þær till. væri bundinn sá baggi, að hæstv. ríkisstjórn, sem ekki hefur þingfylgi á bak við sig, hefði leyfi til að skera þær niður um 25 eða 30%. Og meðan ástæða þykir til þess að afla allt að 20 millj. kr. til þess að halda uppi verðlagsgreiðslum til einnar ákveðinnar stéttar í landinu, sem ég mæli ekki á móti, síður en svo, þá hefur engin ríkisstjórn siðferðilegan rétt til þess að skera niður verklégar framkvæmdir. Ég mótmæli þeirri skoðun hæstv. fjmrh., að hann telur, að hver ríkisstjórn hafi heimild til þess að gera þetta, þó að það sé ekki heimilað í fjárl. Með því væri alvarlega misboðið virðingu og valdi þingsins, ef nokkur ráðh. gerði slíkt. Ef hæstv. fjmrh. kemst ekki að samkomulagi við þingið um að fá þá peninga, sem honum er gert að borga út eftir fjárl., þá á hann fyrst og fremst að segja af sér. Og ég er ekki að meina það, að þessi hæstv. ríkisstjórn geri það. En það er bara venjuleg og sjálfsögð þingræðisregla. Og það hafa gert menn, sem hafa verið lengur ráðh. en þessi hæstv. ríkisstjórn hefur setið, ef þeir hafa ekki getað leyst hnútana í stjórnmálunum.

Þá vil ég lítils háttar mæla til hv. frsm. fjvn. Hann kom ekki mikið inn á mína ræðu, og tek ég það svo, að hann hafi ekki treyst sér til að færa fram mikil rök gegn því, sem ég hélt hér fram um framlögin til Barðastrandarsýslu. Hann talaði eins og ég hefði lýst því yfir, að það vantaði 30 millj. kr. til þess, að tekjur fjárl. vægju upp á móti útgjöldunum. En hann sleit allt úr samhengi, sem ég sagði, og er það ekki sæmilegt fyrir frsm. fjvn., til þess að inn í það komi allt önnur meining. Hann spurði, hvort þessi tekjuhalli mundi batna við það, þó að mínar brtt. yrðu samþ. En ég sagði, að sjálfstæðismenn í Ed. væru tilbúnir til að skaffa þessar tekjur til þess að afgreiða hallalaus fjárl., með sérstökum skilyrðum, sem ég þá tók fram. En því gekk hv. frsm. alveg fram hjá. Hitt er allt annað atriði, að fjárl. hækki um nokkuð mikið, ef mínar brtt. væru teknar til greina og samþ. En ætlast hv. frsm. fjvn. til þess, að ég taki þessar till. mínar til baka, meðan allar hinar brtt. einstakra hv. þm. leika lausum hala? Og aðeins ein brtt. t. d., sem hv. 1. þm. Árn. er með, er um tvöfalt hærra framlag en þær brtt. allar, sem ég er með. Og sannarlega vildi ég fylgja þessari brtt. hv. 1. þm. Árn. Og ef það væri ekki þannig, að hv. fjvn. sér sér ekki fært að taka þetta inn á fjárl. — ekki aðeins nú, heldur aldrei —, þá mundi ég fylgja henni. En ég skal draga allar mínar brtt. til baka, ef allar aðrar brtt. eru dregnar til baka einnig, þar með taldar brtt. frá hv. fjvn. En meðan aðrir hv. þm. þykjast hafa rétt til þess að setja fram hlutfallslega miklu hærri brtt. en mínar, þá sé ég ekki, með hvaða rétti hv. frsm. fjvn. leyfir sér að fara fram á, að ég taki mínar brtt. til baka fyrir það kjördæmi, sem ég er fyrir.

Hv. frsm. talaði um það, að það ætti ekki að veita neitt fé til vega í Barðastrandarsýslu, af því að ég hefði lýst þeirri sök á hendur vegamálastjóra, að hann hefði ekki látið leggja Rauðasandsveg rétt. Og ég gaf ástæðu fyrir því, hvers vegna það var. Þegar vegarriálastjóri kom þarna vestur — og það var í fyrsta skiptið og eina skiptið, sem hann hefur komið í Barðastrandarsýslu alla hans tíð — , þá sá hann, að þar sem svo lítið fé var lagt fram til vega þar, — því að til Rauðasandsvegar voru árið 1938 lagðar fram aðeins 2700 kr. —, þá væri mjög erfitt að senda þangað dýran verkfræðing, sem mundi afkasta miklu meira verki á öðrum stað. Og það var alveg rétt athugað hjá vegamálastjóra. Þetta er ástæðan til þess, að hann hefur ekki látið undirbyggja vegina í Barðastrandarsýslu eins og í öðrum sýslum landsins, að aldrei hefur verið lagt neitt að ráði fram til vega þar vestra. Þetta vildi ég, að hv. frsm. fjvn. skildi, en væri ekki með útúrsnúninga um þetta mál.

Ég vil, í sambandi við aðeins eina brtt., sem hv. frsm. minntist hér á áðan og hv. fjvn. hefur á aukafundi samþ. að fella a. n. l., sem er till. um styrkveitingu til að byggja báta fyrir Dýrafjörð, spyrja, hvort þeir fjvn-menn hafi munað eftir breyt. á l. um fiskimálasjóð frá síðasta þingi? Þar er ákveðið, að lána megi með mjög vægum kjörum 60% kostnaðarverðs til þess að byggja báta fyrir, og þar að auki megi lána 25% af andvirði skipsins sem áhættufé til 10 ára, í 5 ár afborgunarlaust og í 10 ár alveg vaxtalaust. Það stóð um þetta mjög mikill styrr í fyrra, hvort yfirleitt ætti að veita þetta sem styrk eða sem lán. Og m. a. ég, einn af þeim fáu sjálfstæðismönnum, var samþykkur Framsfl. í því, að þetta ætti ekki að veita sem styrki, heldur sem lán. Og þá vildi ég vita, hvort í þessu efni, um að veita styrki til báta, hafi átt sér stað einhver stefnubreyt. hjá Framsfl. Ég mæli ekki á móti því, að þessi staður verði aðstoðaður til þess að eignast bát, en vildi vita, hvort hér er um stefnubreyt. að ræða. Því að þegar búið er að gefa fordæmi á Alþ. fyrir því að veita þessa aðstoð sem styrki, þá má búast við, að kröfur komi um það, að fleiri staðir njótí þess. En það varð annar hreppur fyrir mjög miklu slysi í fyrra, sem var Bíldudalur. Og þá létu sumir hv. þm. sér sæma að gera nokkuð þungar árásir á þá, sem voru töluvert riðnir við þau mál, og það áður en nokkuð af því var gróið, sem særði menn út af því slysi, m. a. með mjög illkvittnislegri opinberri rannsókn, sem haldið hefur verið áfram af ríkisstj. í nærri heilt ár, og hefur enn ekki verið birt niðurstaðan af til þess að binda enda á það, hver væri sökudólgurinn. Væri æskilegt, að hæstv. ráðh. léti það koma fram, hver á sök á Þormóðsslysinu eftir niðurstöðu þeirrar rannsóknar. Það er búið að hafa það mál gangandi utan þings og innan. Og ég vil persónulega óska þess, að því verði ekki haldið lengur í þeirri óvissu, sem það er og er búið að vera. — Ég er ekki á móti þessari brtt. undir neinum kringumstæðum, og getur verið, að ég greiði henni atkv. En ég vildi vita, hvort farið hefur verið inn á þetta af því, að hv. fjvn.-menn hafi ekki vitað um l., sem ég gat um, eins og þeim var breytt í fyrra, eða hvort hér er farið inn á nýja stefnu, sem vænta má, að aðrir aðilar geti fengið styrk eftir síðar meir. Og ég vil leyfa mér að benda á, að ég tel breyt. hv. fjvn. á brtt. til mjög mikilla skemmda, og mundi ég eiga miklu erfiðara með að fylgja henni eins og hún er orðuð hjá hv. fjvn. heldur en eins og hún var upphaflega orðuð. Og það er ekki bent á í till., hvernig á að verja þessu fé, heldur á að láta það vera í höndum hæstv. ríkisstj., hvort hún vill veita það einstaklingum eða hreppnum eða á hvern annan hátt, sem henni sýnist. Það væri annað mál, ef eitthvert ákvæði væri um þetta eins og t. d., að hreppurinn yrði aðnjótandi þessa fjár. (LJós: Það er ekki till. um þetta frá fjvn.). Hún er frá meiri hl. fjvn.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða við hv. 1. þm. Árn. um þetta. En ég vil benda honum á það, í sambandi við hans sterku rök um brúargerð á Iðu, að það er þó hægt að aka þessa 150 km., sem hann taldi, að þyrfti að fara til þess að ná í lækni, ef ekki væri hægt að komast yfir ána á ferju. Hann ætti að hugsa um þá sterku þörf, sem er á að leggja veginn yfir Kleifarheiði og brúa þær ár, sem eru á þeirri leið. Það hefur oft komið fyrir, að Barðstrendingar, sem hafa verið að sækja lækni yfir þessa heiði, hafa annaðhvort orðið að snúa við eða jafnvel að grafa sig í fönn, svo að ég vil segja, að það sé enn meiri þörf á að gera þessa samgöngubót heldur en hjá Iðu, en vil annars ekki fara í neinn samanburð á samgönguþörf í þessum tveim sýslum.

Ég vil segja, að það er mjög varhugaverð stefna, sem mörkuð er, ef samþ. á brtt. frá hv. þm. N.-Ísf. (SB) um að taka fé til bryggjugerðar af fjárveitingu, sem ætluð er til vega. Ég held, að þetta eigi ekki að setja inn í vegal. og að ekki sé rétt að smeygja þannig inn till. á allt öðrum grundvelli en henni er ætlað að vera. Ég vil aðeins benda á þetta og mun, ef till. verður samþ., ekki sjá mér annað fært en bera fram brtt. við vegal., þar sem aðrir staðir mundu njóta sömu kjarabóta.