26.10.1943
Efri deild: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í C-deild Alþingistíðinda. (1797)

28. mál, kynnisferðir sveitafólks

Frsm. minni hl. (Eiríkur Einarsson) :

Ég get tekið undir það með hv. form. landbn., sem hér talaði síðast, að það sé mikilsvert að mæta sveitafólkinu í því að skilja þarfir þess í þessum efnum. En ég dreg í efa, að það sé gert fyrst og fremst með samþ. þessa frv. eins og það liggur fyrir. Ég held, að það skipti meira máli fyrir sveitafólkið, ef hv. alþm. bæru á hvaða tíma sem er gæfu til þess að þekkja þarfir þess og koma þar vel á móti, og þá verður að greina sundur höfuðþarfirnar og aukaatriðin. Það skiptir meira, hvenær sem er, að þess sé vandlega gætt og skipað þann veg málum, að sveitabóndinn fái vinnu sína borgaða með sannvirði, þ. e. a. s. afurðir sínar. Ef þarna er aldrei látið undan hvika, — ég á ekki við það, að það sé gert með offorsi, heldur með skilningi og athugað í mesta máta, — þá verð ég að bera það traust til sveitamanna, að þeir séu menn til þess að skreppa bæjarleið, ef þá langar til, á eigin kostnað. En þó að ég segi þetta, þá er ég ekki alls kostar á móti þeirri hugmynd, sem kemur fram í frv. að ýmsu leyti. Nei, það á sinn rétt á sér, en það er sótt eiginlega með offylgi. Það er afkvæmi orlofsl., þannig að eitthvað komi hliðstætt handa sveitafólkinu, og þá var fundið upp á þessu.

Því hefur verið mótmælt, að ég hafi haft á réttu að standa, þegar ég sagði, að þetta eigi ekki rætur meðal sveitafólksins sjálfs, en það er óbreytt skoðun mín enn. Það er sjálfsagt skírskotað til þess, að það var búnaðarþing með fulltrúa utan af landi og þá stj. Búnaðarfélags Íslands, sem náttúrlega starfa á búnaðarþinginu sem fulltrúar sveitafólksins, sem komu þessu af stað. En þó að þeir samþ. þetta, þegar á samkomu þeirra var komið, og á stjórnarfundum Búnaðarfélags Íslands, þá er hins vegar ekki sagt, að þeir hafi verið svo fundvísir á vilja sveitafólksins. Ég veit, að þetta er flutt af góðum vilja, en ég segi það enn: það á ekki rætur sínar hjá sveitafólki almennt. Ég er ekki svo kunnugur, hvort það metur svo mikið að fá þennan styrk til kynnisferða, og allra sízt, þegar þess er gætt, að allur eða a. m. k. mestur þessi styrkur er tekinn úr öðrum vasa þess og borgaður í hinn, eða ef við segjum svo við sveitamanninn, þegar búið er að færa til þennan pening: Þarna er peningurinn þinn, og þú átt að ríða út fyrir hann. — Ég býst ekki við, að þeir verði neitt sérlega hrifnir, þegar við kæmum svo heim til þeirra og segðum þeim, að við hefðum heldur en ekki gert þeim greiða, en þegar betur væri að gætt, væri hann þá aðeins þetta. Það getur verið, að ég sé svo blindur, að ég sjái ekki það víðsýni, sem vakir fyrir flm. frv., með öllum þeim brtt. og útflúri, sem komið er á það frá því í fyrra og til þessarar stundar, en það allt sýnir glögglega, hvað hv. Alþ. er reikandi í þessu máli. Ég ætla þó ekki að rekja sögu þess á fyrra þingi, og nú rekur hver brtt. aðra frá hv. þm. Fyrst átti gjaldið að vera einungis tekið af framleiðendum. Hv. þm. N.-M., formaður landbn., sagði, að ég hefði talið það hálfgerðan orðaleik, hvernig gjaldið ætti að taka, hvort það ætti að vera frá framleiðendum eða neytendum. En nú, þegar búið er að koma með brtt. einmitt um þetta, þá er fyrst tekið af skarið og sagt, að það skuli taka af framleiðendum. Svo að ég hafði ástæðu til þess að segja i þessum efnum það, sem ég sagði.

Það er gott og blessað, að fólki gefist kostur á að fara að heiman og geti séð, hvað fram fer í næstu héruðum og aflað sér víðsýnis, og er öðru nær en ég sé á móti því, en mér finnst, að hlutaðeigandi búnaðarfélög í sveitunum eigi að styðja slík ferðalög. En að lögskrá þetta með skylduframlögum frá bændum sjálfum og aðeins varið til þessa, finnst mér ekki réttlátt. Ef á að lögfesta skylduframlög af afurðaverðinu, þá finnst mér það ekki gerlegt á annan hátt en gera búnaðarsamböndunum sem frjálsast, til hvaða menningarbóta þeir verðu fénu, og eins og kemur fram í þeirri rökstuddu dagskrá, sem ég ber fram, að þar sé leitað umsagna sýslunefnda, aðalfunda búnaðarsambanda og kannske hreppsnefnda, til hvers fénu skuli varið. (ÞÞ: Og sóknarnefnda). Þó að það vilji nú oft svo til, að þeir, sem eru í sýslunefnd og búnaðarfélagsstj., eru einnig í skattan. og kannske í sóknarnefnd. Kannske hv. þm. Dal. sé þetta allt og líklega þá í hundahreinsunarnefnd. Mér finnst sanngjarnt að lofa fólkinu sjálfu að segja til um það, til hvers það vilji verja fénu, og er það þá nokkur fjarstæða að láta það ákveða, hvort á að verja þessu fé, sem ég álít, að eigi að koma beint frá ríkissjóði, til menningar ungu fólki eða til einhvers annars. En ég álít, að það eigi að vísa þessu máli heim til frekari athugunar og undirbúnings, áður en öll lögbinding um slíkt á sér stað.