26.10.1943
Efri deild: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (1798)

28. mál, kynnisferðir sveitafólks

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki eyða miklum tíma til þess að ræða við hv. 2. þm. Árn. og hans þrönga sjónarmið í þessu máli. Hann hefur aldrei séð út fyrir það, sem hestur getur hlaupið harðast á brokki, og alltaf fært rök fyrir sínu máli með því, að þessu fé ætti að verja til útreiðartúra.

Ég lít svo á, að hér sé um mjög mikið menningarmál að ræða, ef réttilega er stjórnað. Að málið fékk ekki strax fylgi meginþorra þm., stafar af því, að hér var deilt um það, hvort hér væri verið að styrkja framleiðendur eða launþega. Margir hv. þm. héldu því fram, að hér væri verið að styrkja framleiðendur. En við hv. þm. S.-M. álitum, að hér væri ekki um að ræða aðra en þá, sem tækju laun sín eftir að heita má lægsta mælikvarða í launagreiðslu, hvort sem þeir væru í hópi framleiðenda eða ekki. Ég vil þakka landbn. fyrir þá vinnu, sem hún hefur lagt í það að reyna að samræma þær brtt., sem fram hafa komið, til þess að hægt sé að bjarga frv. í gegnum þessa hv. d. Ég mun gera mitt til þess að rjúfa ekki það samkomulag. Og ég get lýst yfir því, að þótt ég sé ekki ánægður með þá afgr. málsins, þá get ég tekið aftur mínar till. á þskj. 165, ef brtt. á þskj. 253 verður samþ. Verði hún aftur á móti felld, sé ég mér ekki annað fært en greiða atkv. á móti frv. í heild. Í brtt. á þskj. 245 hefur verið tekið töluvert mikið upp af því, sem er í brtt. minni, þó að það sé nokkuð í öðru formi. Og ég get vel fellt mig við, að þetta komi fram í reglugerðinni. Það má þá sveigja þetta nokkuð til, eftir því sem reynslan kennir mönnum, og mun ég ekki gera ágreining út af því. En mér skilst, að fyrir því fáist ekki fylgi, og mun ég ekki gera það að deiluatriði, ef frv. nær framgangi í því formi, sem það er í nú, með brtt. á þskj. 253.

Ég get ekki stillt mig um að minnast dálítið á ræðu hv. 1. þm. N.-M., þar sem hann hélt því fram, að það væri ekki eðlilegt að taka þetta gjald af útfluttu vörunni, því að það væri vitað og mikið rætt um og viðurkennt líka, að landssjóður styrkti mikið útflutning landbúnaðarins. Ég hefði nú getað hlustað á þetta frá annaðhvort þm. sósíalista eða einhverjum kaupstaðarþm., en ég á erfitt með að láta því ómótmælt, þegar slík ummæli koma frá formanni landbn. Og ég fullyrði, að hér sé ekki verið að greiða neinar uppbætur til þess að styrkja bændur, heldur eru þessar uppbætur greiddar til þess að halda niðri verðlaginu og dýrtíðinni í landinu. Þetta er augljóst mál, ef menn vilja nokkuð kynna sér það. Ég vil í sambandi við það, sem hv. þm. N.-M. sagði, að það væri alltaf verið að styrkja bændur, leyfa mér að benda á, að það var andstæðingum bænda hér á Alþ. að kenna, að búnaðarfélögin fóru inn á þessa braut. Það var búið að núa þeim því um nasir, að það væri verið að styrkja bændur með öllu móti. En hvað er hægt að benda á sambærilegt um styrk til annarra stétta? Ríkissjóður greiðir nú stórar fjárhæðir til að vátryggja sjómenn, og það er nauðsyn, sem ég tel ekki eftir. Og á s. l. ári hafa verið greiddar á 5. hundrað þús. kr. til þess að styrkja þessa menn, af því að þeir hafa ekki sjálfir verið færir um að bera þær tryggingar, ef um miklar upphæðir væri að ræða til þess að veita fjölskyldum þeirra öryggi. Hvaða fjárhæðir eru sambærilegar til bænda? Nýlega var verið að ræða um nokkurs konar fjárgreiðslur úr ríkissjóði til þess að skapa barnakennurum og embættismönnum ríkisins lífeyri og veita þeim meira öryggi. Þá hafa og verið veittir miklir styrkir til verkamannabústaða. Og ég get haldið þannig áfram. Og að síðustu vil ég bæta því við, að það hefur ekki litlu fé verið varið til þess að gera fjallvegi færa að sumarlagi bara til þess að ferðamenn, m. a. Reykvíkingar, gætu farið þar sínar nauðsynlegu skemmtiferðir upp um öll fjöll, m. a. til Hvítárvatns og upp um alla jökla. Og það hefur þótt nauðsynlegt að verja fé til þessa, og ég sé ekki eftir því. En hvernig geta menn haldið því fram, að það sé fjarstæða að verja einhverju fé til styrktar ferðasjóði? (PM: Kannske sveitafólkið megi ekki fara eftir þessum vegum líka?) Jú, en þeir hafa langmest verið lagðir fyrir kaupstaðafólkið, sem býr við þau skilyrði að verða að vera inni að kalla allt árið, og er það mest þörf fyrir þetta fólk að nota þessa vegi, eins og það er þörf fyrir sveitafólkið að nota aðra vegi í skemmtiferðum sínum sér til uppbyggingar.

Ég held, að búnaðarfélögin hafi aldrei þurft að svigna fyrir því, þó að haldið væri fram, að það væri búið að styrkja þessa stétt svo mikið, að það væri ekki sambærilegt við aðrar stéttir.

Ég mun svo ljúka máli mínu, og ég treysti mér ekki til að fylgja frv. úr hv. d. með atkv. mínu, nema samþ. verði brtt. á þskj. 253.