26.10.1943
Efri deild: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í C-deild Alþingistíðinda. (1799)

28. mál, kynnisferðir sveitafólks

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Ég vil segja hér aðeins nokkur orð út af ræðu hv. 2. þm. Árn., en hann mun ekki vera hér inni nú. Hann gat um það í ræðu sinni, að sveitafólki væri enginn greiði gerður með þessum styrk til ferðalaga, eins og frv. fer fram á. En hann er ekki kunnugri því en ég, að sveitafólki er gerður mikill greiði með því að skipuleggja greiðslu til ferða þess, sem það langar mjög til þess að fara. Ég hef verið með í einni slíkri ferð af búnaðarsambandssvæði því, sem ég bý á, og ég vil segja það, að það hefur ekki verið farin skemmtilegri og tilkomulegri ferð af því svæði en sú ferð var. Það var þá af sérstökum ástæðum, að við gátum fengið styrk til fararinnar, en mundi ekki nægja nú, eins og ástæður eru. Því er það mjög nauðsynlegt að styðja þetta með ekki litlum fjárframlögum einmitt á þennan hátt, eins og hér er um að ræða.

Þá var það annað atriði, sem ég vildi minnast á. Það er, hvernig hin rökstudda dagskrá er orðuð, sem við eigum nú að greiða atkv. um. Þar er m. a. tekið fram, að ríkisstj. eigi að leita umsagna um þetta í sveitum landsins. Þetta er ákaflega óákveðið og erfitt að átta sig á þessu í dagskránni. En svo kemur hv. þm. með skýringar nú í ræðu sinni, hvernig ætti að leita þessa álits. Hann lýsti yfir, að það ætti að fara til búnaðarsambandanna, búnaðarfélaga, sýslunefnda, og svo bætti hann við: hreppsn. og skattanefnda og svo hinna svo kölluðu hundahreinsunarn., sem enginn kannast við í neinu héraði, nema ef vera skyldi í héraði hv. 2. þm. Árn. En þó að dregin sé frá síðasta n., þá verður þetta svo umfangsmikil athugun á vilja sveitafólksins, að það er vafasamt, hvort fé yrði þá fyrir hendi, þegar slíkri athugun væri lokið. En þar sem engin skýring kemur frekar fram en leita eigi þessa álits með þessari rökstuddu dagskrá, þá finnst mér betra að fella frv. en samþ. dagskrána.