26.10.1943
Efri deild: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (1801)

28. mál, kynnisferðir sveitafólks

Frsm. minni hl. (Eiríkur Einarsson):

Það var misskilningur hjá hv. 2. þm. N.-M., að orð mín væru ekki í alvöru töluð, þótt ég minntist á útreiðartúra. Ég var búinn að taka fram, að ýmsir gætu haft talsvert gagn af þessu, þótt það færi mjög eftir aðstöðu manna, hvort þeir gætu það, og þeir færu þess helzt á mis, sem ríkasta hefðu þörfina, þar sem þeir eiga helzt aldrei heimangengt. Þeir, sem hafa uppkomin börn eða nokkuð margt fólk og stærra bú, geta notið þessa, einyrkjarnir sjaldan. En ráðin til þess, að allir geti notið þessa, eru ekki fundin, og að því leyti er útfærsla þessarar hugmyndar í frv. meira til að sýnast en vera.

Þegar hv. þm. Dal. (ÞÞ) talar um að vísa málinu til athugunar, m. a. í sóknarnefndum, er ég á öðru máli, þær hafa annað verksvið. (ÞÞ: Ég skaut því fram aðeins). Það er vafasamt, hvernig til tekst, þegar búnaðarfélög eiga að fara að útdeila þessu. Málið er svo vaxið, að varla er unnt að finna hið fyllsta réttlæti í skiptingu. Það getur vel verið, að suma menn langi til að hafa þetta eins og lummur í klút til útdeilingar. Eftir er að vita, hvort fólki er nokkuð um það gefið, að dregið sé af framleiðsluarði þess til að kosta ferðir þeirra, sem e. t. v. eru ekki mest þurfandi, eða hvort það vildi heldur nota þá peninga til annarra nýtra hluta.