02.12.1943
Neðri deild: 57. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (1816)

28. mál, kynnisferðir sveitafólks

Frsm. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Eins og kunnugt er, er þetta mál þannig til komið, að í fyrra var flutt till. í Ed. um að leggja fram fé til kynnisferða sveitafólks, og skyldi það nema um 10 krónum á heimili.

Í þeirri mynd kom frv. frá Ed. og fór til landbn. Sú nefnd sneri því í það horf, að í stað framlags úr ríkissjóði skyldi leggja ákveðinn skatt á framleiðsluvörur landbúnaðarins, og skyldi sú upphæð nema ½%. Þannig var frv. samþykkt hér og sent Ed., og skal ég ekki fara út í það, af hvaða orsökum það dagaði uppi.

Í byrjun þessa þings var þetta frv. lagt fram af ríkisstj. í sömu mynd og það var samþykkt hér í d. á síðasta þingi.

Í meðferð Ed. var gerð sú breyt., að ríkissjóður skyldi leggja í ferðasjóð sveitafólks fjárhæð, sem næmi helmingi tekna sjóðsins annars staðar að næsta ár á undan.

Landbn. gat ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins, en meiri hl. vill færa það í sama horf og áður og leggur til, að 5. gr. á þskj. 267 falli niður. Hv. þm. Mýr. leggur til, að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það kom frá Ed. Ég er þannig sinnaður, að mér er það ekki mikið kappsmál, hvort frv. nær fram að ganga eða ekki, en tel þó, að setja ætti lög um þetta efni.

Það eru sannarlega miklu meiri örðugleikar á því fyrir sveitafólk að komast heiman en bera kostnaðinn, enda hafa ýmis félög myndað samtök til stuðnings við kynnisferðir sveitafólks, bæði kaupfélög og búnaðarfélög.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um málið og vænti þess, að d. geti fallizt á að afgreiða það á þann hátt, sem meiri hl. landbn. leggur til, að fella 5. gr. frv. niður.