06.12.1943
Neðri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (1820)

28. mál, kynnisferðir sveitafólks

Skúli Guðmundsson:

Ég hef athugað þetta frv. og fæ ekki séð, hverjum væri gagn að því, að það verði að l., eins og það er nú orðið. Frv. er um það, að greiða skuli gjald, ½% af verði kjöts og innveginnar mjólkur til mjólkurbúa, og mynda af því „ferðasjóð sveitafólks“. Í 3. gr. er ákvæði, sem sett var í frv. í Ed., að gjöld þessi sé óheimilt að telja til framleiðslu-, sölu- eða dreifingarkostnaðar, þegar útsöluverð vara þessara er ákveðið, svo að það verða eingöngu framleiðendur, sem þá byrði bera. Sýnist mér þó, að ekki hefði verið ósanngjarnt, að þessu gjaldi hefði verið bætt við útsöluverð. Það væri nokkuð í samræmi við það, að þeir, sem kaupa vinnu, verða að greiða orlofsfé. Önnur breyt. Ed. var sú að bæta inn í frv. nýrri 5. gr., þess efnis, að ríkissjóður legði árlega í ferðasjóðinn fjárhæð, sem næmi helmingi tekna sjóðsins annars staðar að næsta ár á undan. Þessi gr. var felld hér brott við 2. umr., svo að ekki hafa bændur þar fyrir neinu að gangast. Frv. er því nú aðeins um það að skylda þá til framlaga í sjóðinn. Þeir gætu sjálfir lagt þá byrði á sig, ef þeir vilja, en flestum öðrum stéttum þætti víst hart að þola slík afskipti ríkisvalds af því, hvað þær geri við tekjur sínar. Fyrst meiri hl. Alþ. vill ekki leggja fram nokkra upphæð í þessu skyni, þrátt fyrir þau stóru útgjöld, sem ríkissjóður ber af ferðalögum annarra stétta, sé ég ekki, að Alþ. sæmi að beita bændur nauðung í þessu máli. Ég legg til, að frv. verði fellt.