15.12.1943
Neðri deild: 64. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í B-deild Alþingistíðinda. (1830)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Mig langar til að bera hér fram fyrirspurn til utanrrh., og vona ég, að hæstv. ráðh. sjái sér fært að svara henni undirbúningslítið. En fyrirspurn mín er á þessa leið:

Telur hæstv. ráðherra, að ríkisstjórnin hafi gert allt, sem unnt er að gera, til þess að greiða fyrir og hraða innflutningi á mótorvélum í fiskibáta?

Vill hæstv. ráðh. ekki beita sér fyrir því, að allt verði gert, sem hugsanlegt er, að liði muni koma til þess að fá úr þessu bætt?

Mér er kunnugt um það, að ágætir fiskibátar hafa legið aðgerðalausir, af því að engar vélar hafa fengizt, og get ég nefnt dæmi þess. Svo er ástatt hjá okkur á Norðfirði, að 2 stórir vélbátar eru vélarlausir. Enn fremur eitt 90 tonna skip, sem flytur fisk til Englands. Auk þessa eru nokkrir smærri bátar, og þætti mér líklegt, að víðar væri svipað ástatt.

Er illt til þess að vita, að slíkt skuli eiga sér stað. Ekki nóg með, að vélar séu óhóflega dýrar, heldur hefur nú árum saman reynzt ókleift að ná í vélar. Nú þykir mér ótrúlegt, að ríkisstjórnin geti ekki bætt úr þessu, ef hún leggur sig alla fram, og vænti ég, að hún veiti máli þessu allt sitt liðsinni.