08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

27. mál, fjárlög 1944

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi út af brtt., sem hv. þm. Ísaf. hefur borið fram ásamt fleiri hv. þm. við þá brtt., sem hv. 6. landsk. þm. og tveir aðrir hv. þm. með honum hafa flutt á þskj. 609, leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. Ég vil gera þá aths. við þessa brtt. hv. þm. Ísaf. og þeirra, sem með honum flytja hana, að bæði sé hún mjög óákveðin og þar að auki ekki formleg, þar sem hún er borin fram við einn rómv. lið, en undir honum eru tveir liðir, 1. og 2., og liður 1. er brtt. við brtt., sem er komin fram áður, en liður 2. sjálfstæð brtt.

Ég skil, hvað fyrir hv. þm. Ísaf. og þeim, sem með honum flytja brtt., vakir, og álít þess vegna heppilegra, að það komi fram á þann hátt, að till. væri um, að bætt væri við þá liði, sem fyrir eru á brtt. 609, VIII, einum sérstökum lið, þar sem tillit væri tekið til verkamanna og þá á þann hátt, að þeim væru veittar til tryggingar gegn atvinnuleysi samkvæmt l., sem Alþ. setur, 4 millj. kr.

Brtt. á þskj. 609, VIII, 1 frá hv. 6. landsk. þm. (LJós) fer fram á, að breytt sé brtt. meiri hl. fjvn. á þann hátt, að í stað þeirrar brtt. hv. meiri hl. fjvn. komi ákvæði um, að 6 millj. kr. verði greiddar út samkv. l., sem Alþ. setur, til verðuppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir. Og í brtt. hv. 6. landsk. er til tekið, að þessar uppbætur takmarkist við það, að bændur, sem ekki hafa hærri árstekjur en sem svarar til meðalbúa, fái verð fyrir allar söluafurðir sínar samkv. niðurstöðu landbúnaðarvísitölunefndar. Þarna er því lagt til, að örugglegar sé frá þessu gengið en í till. hv. meiri hl. fjvn., þannig að ekki sé hrist af á einu einasta kvöldi, eftir svo að segja engar umr. í fjvn., 10 millj. kr. framlag til þessara uppbóta, án þess að það eigi einu sinni að taka kvittanir frá þeim, sem taka eiga á móti því fé, eins og praktiserað hefur verið, að slíkar kvittanir hafa ekki verið teknar.

Í brtt. 609, VIII, 2 er lagt til, að veittar verði til tryggingar á lágmarkslaunum fiskimanna, líka samkv. l., er Alþ. setur um það efni, 4 millj. kr. Og þá hef ég lagt til í brtt. á þskj. 623, að brtt. hv. þm. Ísaf. og þeirra, sem með honum flytja þá brtt.þskj. 622), skuli orða svo: „Við 16. gr. C. Nýr stafliður: Til tryggingar gegn atvinnuleysi, samkvæmt lögum, er Alþingi setur, 4000000 kr.“ Með þessu móti væri þegar skipt upp allríflegri upphæð á milli vinnandi stéttanna, og Alþ. mundi setja sérstök l. um hverja þessa greiðslu fyrir sig, þannig að það væri tryggt, að Alþ. meðhöndlaði þessi mál á þann hátt, sem virðingu þess er samboðin. Vil ég mælast til þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir þessari brtt.

Hv. þm. V.-Húnv. talaði hér áðan, og honum virðist ganga erfiðlega að skilja fyrri brtt. á þskj. 609 undir rómv. VIII, og er það undarlegt með svo greindan mann. Þar í þeirri till. er það alveg sérstaklega tekið fram, að þessar uppbætur eigi að takmarkast við það, að bændur, sem hafa árstekjur sem svarar til meðalbús, fái verð fyrir allar söluafurðir sínar samkv. niðurstöðu landbúnaðarvísitölunefndar. Þar er átt við tekjur handa bóndanum, sem hann hefur eftir, þegar búið er að borga öllum mönnum kaup, sem vinna við bú hans. Hv. þm. V.-Húnv. fór að tala um, að þetta mundi koma misjafnlega niður á sýslur og sveitir, þar sem ein sveit, sem seldi sitt kjöt innanlands, mundi verða betur úti en þær sveitir, þar sem svo væri háttað, að mikið af kjötframleiðslunni væri flutt út. En hefur þetta verið praktiserað þannig undanfarið? Ég veit ekki betur en kjötið sé verðjafnað þannig, að það sé borgað út ekki eftir því, hvaða kjöt það er, sem er selt á innlenda markaðinum, og hvaða kjöt það er, sem selt er úr landi. Ég held, að engum detti í hug að framkvæma þessar uppbætur og niðurborganir og annað slíkt á þann hátt, að bændum sé mismunað í verðinu eftir því, hvert kjötið er selt. Það næði ekki nokkurri átt, og ég held, að engum hafi dottið í hug að gera það.

Svo var hv. þm. V.-Húnv. allmikið að ræða um það, að þarna væri verið að mismuna mönnum eftir efnahag og aðstöðu. En tilgangurinn með þeim l., sem sett voru um uppbótargreiðslur á landbúnaðarafurðum, var að tryggja bændum sambærileg kjör við aðrar vinnandi stéttir. Og nú er vitanlegt, að þar, sem mikið er framleitt og framleitt er í stórum stíl, þar er framleiðsla hvers kjötkg ódýrari en þar, sem framleitt er í smáum stíl. Og þegar verið er að tala um að tryggja mönnum sambærileg kjör við aðrar vinnandi stéttir, þá væri réttlátt að hugsa sér að borga þeim manni, sem hefur tiltölulega minni framleiðslukostnað, heldur minna verð fyrir afurðir sínar, og þeim, sem hefur meiri framleiðslukostnað, heldur meira verð, þ. e. ef við hugsum okkur að tryggja mönnum jafnt andvirði fyrir sitt vinnuafl, sem hver maður leggur fram til starfa fyrir þjóðfélagið. Það er þetta, sem er eftir dýrtíðarl., enda þótt það sé öfugt við allt annað, sem markast eftir framboði og eftirspurn. Hv. þm. V.-Húnv. minntist á það, að dönsku selstöðuverzlanirnar hefðu hér áður borgað þeim ríku bændum, sem við þær skiptu, hærra verð fyrir þeirra innlegg heldur en þeim fátækari. Og þetta er einmitt reglan, sem hv. meiri hl. fjvn. vill hafa við úthlutun á verðuppbótum til bænda, því að eftir því, sem hv. meiri hl. fjvn. leggur til, þá á að borga mestar uppbætur til þeirra bænda, sem mestar hafa árstekjurnar, og þess vegna hlutfallslega hæst verð til þeirra, sem minnstan hafa framleiðslukostnaðinn á hvert kg af framleiðsluvörunni. En aftur á móti hinum, sem minna framleiða og því hafa meiri framleiðslukostnað á hvert kg framleiðsluvörunnar, vill hv. meiri hl. fjvn. borga minni uppbætur tiltölulega. Það á sem sé eftir till. meiri hl. fjvn. að bæta þeim tekjumestu í þessu sambandi mest tiltölulega, en þeim fátækustu, sem minnst framleiða, tiltölulega minnst. Hv. þm. V.-Húnv. talaði um, að það væri aldeilis rétt þokkaleg skipting á þessu fé, sem ætti að framkvæma, ef Alþ. dytti önnur eins ósköp í hug eins og það, að það ætti að borga þeim mönnum minnstar uppbætur, sem hefðu mjög háar tekjur, — það væri svo hróplegt óréttlæti, sem ekki hefði þekkzt, — og ef farið væri að gera greinarmun á stórverkamönnum og smáverkamönnum og stórþingmönnum og smáþingmönnum —, og því sagði hann ekki stórembættismönnum og smáembættismönnum? Það eru nefnilega til l., sem Alþ. hefur samþ., sem eru um verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkis og ríkisstofnana. Og eftir orðum hv. þm. V.-Húnv. gæti maður þá haldið, að Framsfl. geti ekki dottið í hug annað eins óréttlæti eins og það, að það ætti að veita einum embættismanni, sem hefur 15 þús. kr. laun, minni uppbætur á laun sín en þeim vesalingi í sömu stétt, sem hefði aðeins 4 þús. kr. í laun. En 3. gr. laga um það efni hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Verðlagsuppbótin skal nema fullri hækkun vísitölunnar, miðað við grundvöllinn janúar–marz 1939 (=100). Uppbót greiðist þó ekki af þeim hluta launa, sem er fram yfir 650 kr. á mánuði.“

M. ö. o., stórembættismenn með yfir 650 kr. laun á mánuði, þeir eiga bara enga verðlagsuppbót að fá á þann hluta launa sinna, sem fram yfir er 650 kr. á mánuði. Hvers konar réttlæti er þetta, eftir þeirri kenningu, sem hv. þm. V.-Húnv. er með? Ég veit ekki betur en hæstv. Alþ., þegar það hefur úthlutað fé til manna, hafi alltaf viljað taka tillit til þarfa þeirra fyrir fjárgreiðslur til uppbótar á þeirra kjör, þegar Alþ. hefur talið nauðsynlegt fyrir þjóðfélagið að taka í sínar hendur að ráðstafa svo og svo miklu af því fé, sem er á gangi manna á milli. Og Alþ. og þjóðarheildin gerir þetta út frá því sjónarmiði, sem réttlætir þetta, og það er sem sé þörf manna. Þegar á að veita verðlagsuppbót af því að dýrtíð er í landi, þá segir Alþ.: Ef menn hafa haft 650 kr. í grunnlaun á mánuði eða meira, þá verða þeir að sætta sig við það, þó að þeirra laun og aðstaða fari hlutfallslega versnandi miðað við aðra, sem minna hafa borið en þeir úr býtum áður. Hæstv. Alþ. hefur ákvarðað þessa reglu. Og ég man ekki betur en að hver einasti af þm. Framsfl. væri með þessu, þegar þessi ákvæði voru sett í l. á Alþ., og samt var þó nokkur togstreita um það á Alþ., hvort ætti að setja þarna nokkurt réttlætisprinsip inn í eða hvort ætti bara að bæta verðlagsuppbót við öll laun embættismanna, hvort sem það var mikið eða lítið, sem þeir menn höfðu áður í laun. Sú regla sigraði, að tekið skyldi nokkurt tillit til þarfa manna, þannig að þeir menn, sem hefðu haft minnstar tekjur áður, þyrftu að fá fulla verðlagsuppbót á sín laun samkv. vísitölu, en hinir, sem höfðu haft laun yfir ákveðnu marki, skyldu fá minni uppbót, — þar skyldi sagt stopp, því að það mundi duga þeim til sæmilegrar afkomu, þó að þeir fengju ekki uppbætur á laun yfir því marki. — Þetta hefur nú hæstv. Alþ. látið gilda um alla sína embættismenn og starfsmenn ríkis og ríkisstofnana. Og Framsfl. hefur staðið sig vel í þeirri baráttu að koma þessu í gegn. En nú er spursmálið, hvort menn, sem fá í árstekjur yfir 14500 kr., eiga að fá uppbætur á þær framleiðsluvörur sínar, sem eru fram yfir framleiðslu meðalbús, eða hvort á að gilda um þá sama reglan og um starfsmenn og embættismenn ríkisins. Spursmálið er, hvort nú á að búa til nýja reglu á þessa leið: Sá, sem hefur mjög háar árstekjur, hann skal fá laun, sem gera miklu meira en að tryggja honum góða afkomu, þannig að það fari hlutfallslega batnandi hans afkoma móts við það, sem hann hefur áður haft. Það, sem við sósíalistar leggjum til í þessu sambandi, er, að Alþ. hafi sömu reglu, þegar það úthlutar milljónum króna til uppbótargreiðslna til bændanna í landinu, eins og það hefur, þegar það greiðir verðlagsuppbætur til sinna embættismanna, og taki þar tillit til þarfa manna í því sambandi, en ekki, að það fari bara í blindni eftir þeim hlutföllum á lífskjörum manna, sem fyrir voru, og segi: Sá, sem hefur haft litlar tekjur, skal fá litlar uppbætur, en sá, sem hefur fengið mikið, skal fá mjög mikið. Það er þetta, sem á að greiða atkv. um, hvort það eigi að gilda svipuð lög um þá menn í bændastétt, sem hafa yfir 14500 kr. í árstekjur, og um þá embættismenn og starfsmenn ríkisins, sem mest hafa úr býtum borið í þessu landi.