15.12.1943
Efri deild: 66. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í C-deild Alþingistíðinda. (1845)

28. mál, kynnisferðir sveitafólks

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ég get sagt það sama og þeir, sem hafa tekið hér til máls á undan mér, að engin þörf er á að eyða löngum tíma í umr. Ég vil aðeins taka það fram, að eins og frv. kemur nú frá hv. Nd., er það í líku formi og það var, er það var lagt fyrir þessa d. fyrst. Nokkur breyt. hefur verið á því gerð, sem ég tel til bóta, en hún er í því fólgin, að það má nú taka fleiri vörutegundir undir þessi gjöld. Ég vil einnig geta þess nú, sem ég tók einnig fram við fyrri umr. málsins, að það var búnaðarþing, sem féllst á það, að kynnisferðir þessar skyldu vera með þessu sniði, sem þær nú eru, og þó að nokkru hafi nú verið bætt við framlög ríkissjóðs í þessum tilgangi, féllst ég á það, til þess að frv. yrði ekki fellt í d. Landbn. hv. Nd. hefur nú tekið málið upp eins og það var áður, og með því að í þeirri n. eiga sæti einn búnaðarþingsmaður og formaður Búnaðarfélags Íslands, sé ég ekki ástæðu til þess að halda því fram, að afstaða bænda sé nokkuð breytt frá því í fyrra, enda hefur formaður búnaðarþingsins kveðið upp úr um þetta. (BBen: Á Búnaðarfélagið að ráða lagasetningu?) Formaður Búnaðarfélagsins og formaður búnaðarþingsins, en maður er vanur að taka mark á orðum þeirra og tillögum, hafa fylgzt með þessu máli og verið því fylgjandi. Eins og málum er nú komið, finnst mér annaðhvort eigi að kolfella frv. eða samþ. það í þeirri mynd, sem það nú liggur fyrir í, þar sem formaður landbn. Nd. og búnaðarþingsins óskar eftir, að þessi leið verði farin. Hún verður ríkissjóði að kostnaðarlausu, og það er tryggt, að þessi gjöld koma ekki fram á neytendum. Ég legg því til, að frv. verði samþ. óbreytt.