08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

27. mál, fjárlög 1944

Sigurður Kristjánsson:

Ég var ekki viðstaddur, þegar hv. frsm. fjvn. hóf mál sitt, hafði ekki búizt við, að sérstök ástæða væri til fyrir mig að hlusta á hann, en nú hefur mér verið sagt, að þessi hv. þm. hafi sem frsm. n. andmælt till. minni og hv. þm. V.-Ísf. um brottfellingu útflutningsgjaldsins og einnig brottfellingu framlagsins til fiskveiðasjóðs, sem er ekki annað en mistök hjá hæstv. ríkisstj. að hafa sett í fjárlagafrv. og er viðurkennt af skrifstofustjóra fjmrn., að tekið hafi verið í frv. af misgáningi, af því að það var á fjárl. árið áður. Við hv. þm. V.-Ísf. vildum láta taka þetta burt, af því að þetta eru l., sem samþ. voru á síðasta þ., þar sem þessar tekjur voru teknar af ríkissjóði og fengnar öðrum sjóði. Nú hefur hv. frsm. fjvn. rökstutt þetta með því einu, að eins væri farið með stríðsgróðaskattinn, hann væri talinn til ríkistekna, þó að 45% af honum rynni til sveitarfélaga. En þar er ekki líku saman að jafna. Yfirleitt er það ekki venja að taka slík gjöld eins og útflutningsgjaldið og framlagið til fiskveiðasjóðs í fjárlög. Hér voru eitt sinn sett l. um happdrætti fyrir ríkissjóð, en það var síðan tekið af og ánafnað háskólanum, og hefur hann það enn, og þetta hefur aldrei verið talið ríkissjóði til tekna, enda væri það ekki rétt. Það, sem hv. þm. heldur fram, er því helber hugsunarvilla og ekki annað en ein sleif af þeim vatnsgraut, sem hann hefur hellt yfir okkur hér.

Þá hefur hv. þm. mótmælt till. minni um heimild fyrir ríkisstj. á 22. gr. fjárl. til að fella niður 30% af gjöldum ríkissjóðs, sem ekki eru ákveðin í öðrum gr. fjárl., ef ríkisstj. þykir sýnt, að tekjur ríkissjóðs muni ekki hrökkva fyrir þeim útgjöldum, sem til er ætlazt. Hv. þm. hafði, — og ég tel, að hann geri það sem einstakur þingfulltrúi, en ekki frsm. n. —, rökstutt þetta með því, að ég hafi við 2. umr. fjárl. greitt atkv. með 10 millj. kr. útgjöldum. Þetta eru svipuð rök og í sambandi við fyrri till. mína. Það er vitað, að hv. fjvn. hefur tekið sér eins konar fjármálaeimræði hér, og það er hún, sem gerir fjárl. úr garði. Þegar svo ber undir, að nm. eru ekki sammála, þá greiðum við aðrir þm. atkv. til að sýna, hvaða prinsipi við viljum fylgja, og verð ég að segja, að þegar hugleitt er, að sjávarútvegurinn er undirstaða allra þessara tekna og eins hitt, að í 16. gr. fjárlagafrv. um framlag til atvinnumála eru ætlaðar rúmlega 7¼ millj. kr. til landbúnaðarmála, en ekki nema 540 þús. kr. til sjávarútvegsins, þá er sannarlega ekki vanþörf á því, að menn láti það í ljós með atkv. sínu, að þeir telji ekki skynsamlega að farið með því að ætla sjávarútveginum ekki meiri stuðning en þetta, enda kemur það í ljós, að hv. sjútvn. er á sama máli og ég um þetta, því að hún kemur með till. um það, að sjávarútvegurinn fái 5 millj. kr. úr framkvæmdasjóði ríkisins. Ég vil þess vegna segja, að það er seilzt um hurð til lokunnar, þegar hv. þm. áfellist mig fyrir að hafa greitt atkv. með þessari till., og kemur mér þetta raunar ekki á óvart, því að bersýnilegt er, að hér er á ferðum nýgræðingur í fjvn., sem er ekki um það fær að vera formælandi n., og þó að mér hafi sýnzt margt mistakast hjá n., held ég, að val frsm. hafa mistekizt einna mest.