04.10.1943
Sameinað þing: 16. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (1894)

Varamaður tekur þingsæti

forseti (GSv) :

Frá hæstv. forseta Nd. hefur mér borizt svohljóðandi bréf:

„Reykjavík, 2. okt. 1943.

Stefán Jóhann Stefánsson, 4. þm. Reykv., hefur í dag ritað forseta neðri deildar á þessa leið: „Með því að ákveðið er, að ég fari utan í erindum ríkisins og verði í þeirri för næstu vikur, þá leyfi ég mér, með skírskotun til 3. mgr. 144. gr. laga nr. 80 1942, um kosningar til Alþingis, að óska eftir því, að varamaður minn, Sigurjón Á. Ólafsson, taki sæti í minn stað á Alþingi, á meðan ég verð fjarvistum, og að hann taki einnig á sama tímabili sæti í þeim nefndum deildarinnar, er ég hef verið kosinn í.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt, með ósk um, að þér boðið sem skjótast til fundar í sameinuðu þingi til þess að rannsaka og bera upp til samþykktar kjörbréf varamanns.

Jörundur Brynjólfsson.

Forseti sameinaðs þings.“

Samkvæmt þessu hefur hv. kjörbréfanefnd verið aðvöruð um að athuga kjörbréf varamanns hv. 4. þm. Reykv., og er hún nú væntanlega reiðubúin að skila áliti.