17.11.1943
Neðri deild: 48. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (1895)

70. mál, kvikmyndasýningar

Frsm. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti. Af því að brtt. þær, sem komið hafa fram um þetta mál á þskj. 405 og 391, voru teknar til athugunar í allshn., og þar sem meiri hl. n. hefur borið fram nýjar brtt., þá finnst mér rétt, að af hálfu minni hl. komi fram það sjónarmið, sem skiptir máli milli okkar og meiri hl. Að vísu veit ég ekki, hvort hv. 1. þm. Árn og hv. 2. þm. Eyf. hafa borið þessa nýju brtt. undir hv. þm. Snæf., en hann var ekki við í n., þegar málið var þar rætt, en geri þó ráð fyrir, að svo hafi verið og að hann sé þeirra málstað fylgjandi. Þar sem nú hv. 1. þm. Árn. hefur talað hér af miklum áhuga fyrir málstað kvikmyndahúseigenda, þá finnst mér rétt að geta þess, að þessi skoðun hans, sem hann flytur hér, er ekki einróma álit allshn. Annars þarf ég ekki orðum í það að eyða, því að það var gert af hv. þm. Hafnf., að frv. því, er ég flutti hér ásamt hv. 8. þm. Reykv., var svo gersamlega umturnað, að þar stendur ekki steinn yfir steini, og í stað þess að auka rétt bæjar- eða sveitarstjórna yfir þessum atvinnurekstri hefur verið gerð tilraun til þess að minnka þann íhlutunarrétt, sem þær töldu sig hafa haft í þessum málum. Um almenn atriði þessa máls ætla ég ekki nú að fara út í, því að það mun hafa verið gert við 1. og 2. umr. þessa máls, en ég vil þó segja það, og anæli ég þar fyrir minni hl. allshn., sem er hv. 2. landsk. og ég, að við mælum eindregið með því, að brtt. á þskj. 391 og 405, en þær eru frá hv. þm. Hafnf. og hv. 2. þm. S.-.M., verði samþ. Fyrir þessum brtt. þarf ég ekki að færa rök, þar sem flm. hafa þegar gert það sjálfir, og hef ég því fáu við að bæta. Ég vil þó aðeins geta þess, vegna þess að frsm. meiri hl. talaði mjög ákveðið gegn b-lið fyrri brtt. á þskj. 391, þar sem gert er ráð fyrir því, að leyfi til starfrækslu ákveðins kvikmyndahúss sé jafnan bundið við ákveðinn tíma, þó ekki lengra en 10 ár í senn, að þessi sami hv. þm. hefur sjálfur flutt brtt. við frv. um það, að ráðh., sem á að ákveða þetta leyfi, megi binda það við tiltekinn tíma, og er ekkert ákveðið, hvað sá tími má vera langur, og má sjá það á frv., eins og það var afgr. héðan eftir 2. umr., svo að samkvæmt því hefur ráðh. vald til þess að ákveða þennan tíma jafnvel skemur en 10 ár, ef til kemur. Ég álít því, að það sé ekki svo stórkostlegur eðlismunur á þessu og því, sem lagt er til af hálfu hv. þm. Hafnf., og eftir því sem ég veit bezt til, þá hefur það reynzt þannig erlendis, einmitt á þeim stöðum, sem hv. 1. þm. Árn. vísaði til, þar sem leyfi til kvikmyndahúsrekstrar eru bundin við ákveðið tímabil, að engin óþægindi hafa af hlotizt og að einstakir kvikmyndahúseigendur hafa ekki þurft undan að kvarta.

Ég mun svo ekki hafa þessi orð mín öllu fleiri, en vildi aðeins, að það kæmi greinilega fram, að minni hl. allshn. mælir með brtt. hv. þm. Hafnf. og hv. 2. þm. S.-M., sem báðir hafa gert grein fyrir af sinni hálfu. Ég mun ekki eyða mörgum orðum í brtt. hv. 2. þm. S.-M., en tel hana ekki til skaða og læt mér því í léttu rúmi liggja, hvort sú brtt. verður samþ. eða ekki. Aðalatriðið í þeirri brtt. er það, að bæjar- og sveitarfélög verði ekki svipt réttinum til þess að leggja á sætagjaldið, en það hefur tíðkazt í Reykjavík, höfuðborg Íslands, og bæjarstjórn hefur lagt slík gjöld á, án þess að hafa nokkra hönd í bagga um, hverjir rækju kvikmyndahúsin í borginni. Nokkur lagfæring mun þó fást á þessu, þar sem meiri hl. hefur fallizt á, að leyfi til kvikmyndahúsrekstrar sé bundið því skilyrði, að það sé í höndum hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarstjórnar. Um höfuðatriði málsins hirði ég ekki að ræða, en ég er fylgjandi því, að bæjar- og sveitarfélögin hafi þessa starfrækslu með höndum eftir því, sem þau kæra sig um, og eftir því, hvort þau eru þeirrar skoðunar, að rétt sé að reka þessa starfsemi. Og ef svo er, ættu þessi félög að geta haft hana með höndum, ef meiri hl. bæjar- eða sveitarfélaganna vill svo vera láta. Annars er þetta engin nýjung, því að eins og bent hefur verið á áður, var þetta þannig í Noregi, þar til landið var lagt undir erlent stórveldi, og hefur borið hinn ágætasta árangur, svo að engum hefur dottið í hug að amast við því. Ég vænti því, að leiðréttingar þessara tveggja hv. þm., sem þeir hafa gert tilraun til að gera á þessu frv., nái fram að ganga, og vil einnig vænta þess, að brtt. meiri hl. allshn., þó sérstaklega tvær þeirra, sem hann gerði við frv., verði felldar, því að það er mjög óeðlilegt að taka úr höndum bæjar- og sveitarstjórna öll völd um ákvarðanir sætagjalda, en fá það vald í hendur ráðherra, og er það áreiðanlegt, að þetta vald er engu tryggara í höndum ráðh. en hjá 15 manna bæjarstjórn hins íslenzka ríkis.