17.11.1943
Neðri deild: 48. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (1898)

70. mál, kvikmyndasýningar

Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson) :

Það voru aðeins örfá orð. Málið er ekki svo margbrotið, að ástæða sé til að lengja mjög mikið umr., því að við 2. umr. var það ýtarlega rætt.

Með hinni skrifl. brtt. hv. 2. þm. S.-M. tel ég bætt úr því atriði, sem athugaverðast var.

Ekki er hægt að ætlast til annars af ráðherra en að hann sé óvilhallur. Annars er hann ekki þeim vanda vaxinn, sem hann tekur að sér með sínu starfi.

Það er ráðin stór bót með hinni skrifl. brtt., þótt mér hefði þótt fara betur á því að fara þá leið, sem við leggjum til í allshn. Bæjar- og sveitarfélögum eru settar skorður við valdi þeirra, að því er snertir fjárnám. Það sæmir ekki, að ekki sé samræmi milli skyldna og réttinda þegnanna. Það veit ég, að hv. þm. Hafnf. viðurkennir fúslega, þegar hann athugar málið nánar.

Ég þarf ekki að svara hv. 4. þm. Reykv. Það er búið að svara honum áður. Honum þótti það óeðlilegt, að bæjarfélögin hefðu ekki óskorað vald í þessum efnum og ég held í öllum greinum. Hann ætti að hafa hliðsjón af stefnu flokksbræðra sinna í Danmörku og Svíþjóð. Held ég, að fullsæmandi væri að taka þessar mestu menningarþjóðir til fyrirmyndar. Þá færi efalaust margt betur hjá okkur en nú á sér stað. Hv. þm. Hafnf. virtist undrast, að ráðherra skyldi eiga að veita tímabundið leyfi til rekstrar kvikmyndahúsa. Hann þarf ekki að furða sig á því. Það er ekki ástæða til að veita leyfi um ótiltekinn tíma til þessarar starfrækslu. En við verðum að bera það mikið traust til þessa embættismanns, að við teljum málum okkar borgið undir hans umsjá. Hann hefur sína yfirboðara og á að svara til saka gagnvart sínum húsbændum. En það er eðlilegt, að úrskurðarvaldið sé einhvers staðar, — einhvers staðar verður það að vera, og ég tel því bezt borgið í höndum þess manns, sem á ekki að vera vilhallur í úrskurðum sínum. Hv. þm. veik að því, að ég hefði látið í ljós, að vafasamur væri réttur bæjar- og sveitarstjórna til sætagjaldaálagningar. Þetta er gömul venja. Þetta hefur verið leyft, og þess vegna er það orðið sem lög og því eðlilegt, að þetta standi. Um hitt atriðið, skattaálagninguna, gegnir öðru máli, það er annars eðlis, og þar eru strangar reglur eftir að fara. Hitt er annað mál, að aðilarnir geta samið þar um sín á milli. Þau ummæli mættu fylgja, að allt eigi að vera skynsamlegum takmörkunum háð. Ég lít ekki á það, hvað kann að henta í augnablikinu, heldur hef víðtækara sjónarmið fyrir augum.

Hv. þm. færði sínum ummælum til stuðnings, að ekkert væri í þessu frv., sem hindraði, að dómsmrh. gæti sett eins mörg bíó á laggirnar og honum þóknaðist. Hvers vegna gerir hv. þm. ráð fyrir þessu, jafn samvizkusamur, glöggskyggn og heilsteyptur maður? En engu er að kvíða í þessu efni. Mér finnst, að við verðum að gera ráð fyrir þeim mannkostum hjá þessum ráðherra, að slíkt geti ekki komið til mála. Þetta á við um öll okkar störf, og við verðum að gera ráð fyrir þeim mannkostum hjá þessum manni, að þeir skyldi hann til að gera óvéfengjanlega rétt.

Ég sé nú ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar. Það verður hver að hafa sína skoðun á þessu máli eins og öðrum. Menn verða að hafa sína skoðun á því, hversu frjálsmannlegt það er, að einstaklingurinn ráði engu, en hið opinbera öllu. Ég hef enga trú á þessu, og af því markast mitt sjónarmið.