08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

27. mál, fjárlög 1944

Haraldur Guðmundsson:

Hv. 2. þm. Reykv. taldi vafa leika á um það, hvort unnt væri að bera fram þá skrifl. brtt., sem lýst var hér á undan, sem brtt. við þá till., er hún var stíluð við. En ég tel ástæðulaust að vera í vafa um þetta og hygg, að það samræmist fullkomlega þingsköpum.

Hv. þm. viðurkenndi með ræðu sinni, að þörf væri að ætla einhverja upphæð til að tryggja verkamönnum þær meðaltekjur, sem sex manna n. gerði ráð fyrir, og hann fann úrræðið, að bæta við nýjum milljónalið, og er það raunar í samræmi við annað, sem er að gerast hér á þ. þessa síðustu daga. Annars vil ég taka undir við hann um það, sem hann sagði um verðlagsuppbætur. Ég tók svo eftir, að þessar 10 millj. væru verðlagsuppbætur til bænda hliðstætt við verðlagsuppbætur til annarra stétta, og ætti þá að binda þær sömu takmörkunum og verðlagsuppbætur til annarra stétta. Ég vil aðeins vekja athygli á þessu.

Ég á enn eina brtt. á þskj. 517, IV, um að veittar séu til vinnuhælis berklasjúklinga 600 þús. kr., þó ekki yfir 2/3 kostnaðar. Eins og hv. þm. er kunnugt, hefur S.Í.B. haft fjársöfnun undanfarin ár, og mun fjárhæðin, sem safnazt hefur, vera komin upp í 300 þús. kr. Sérstök n. hefur til athugunar allan undirbúning að stofnun slíks hælis. Er að því stefnt, að það taki 40–50 sjúklinga, og gert ráð fyrir, að þeir gætu unnið þar ýmislegt sér og öðrum til gagns. En telja má víst, að helmingur þessara manna mundi vera krónískir berklasjúklingar, sem mundu að öðrum kosti verða að dveljast á hælum ríkisins með greiðslu úr ríkissjóði. En um hinn helminginn má gera ráð fyrir því, að þar séu menn, sem þurfi að búa sig undir það að geta tekið upp almenn störf að nýju. Þessir 2/3 hlutar, sem gert er ráð fyrir, að ríkissjóður greiði, svara til 600 þús. kr. á móti þeim 300 þús., sem til eru í sjóðnum nú þegar. Ég skal geta þess, að fyrir Ed. liggur nú frv. um það, að gjafir til vinnuheimilisins frá einstökum mönnum skuli undanþegnar skatti. Ég vildi afstýra því, að þetta frv. næði fram að ganga, með því að fá þessa fjárveitingu samþ. Ég álít, að farið sé út á háskalega braut með því að veita slíkt skattfrelsi mönnum með háar tekjur, sem ráðstafa mundu á þennan hátt verulegum hluta af tekjum sínum, sem annars mundu renna til ríkis og bæja og ganga þannig til þess að greiða hæliskostnaðinn, yrði þessi till. mín samþ. En þörfin á að koma upp þessu hæli er brýn, eins og hv. þm. er kunnugt, þar sem lögð hafa verið niður tvö berklasjúklingahæli, en það eru hælin í Ölfusi og Kópavogi. Ástæða er til að minna á það í þessu sambandi, að sú lækkun á manndauðatölunni, að því er berklasjúklinga snertir, sem átti sér stað allt fram til ársins 1940, virðist nú stöðvuð, og ég tel, að það eitt ætti að vera mönnum umhugsunarefni, áður en þeir greiða atkv. í máli þessu.

Ég hef ekki lagt orð í belg í fjárlumr. fyrr en nú á síðustu stundu, þegar flestir hv. þm. eru farnir af fundi og hæstv. ríkisstj. vikin af hólmi. En ég get ekki stillt mig um að fara nokkrum orðum um fjárlfrv. og þær till. í heild, sem hér liggja fyrir. Samkv. frv., eins og það kom frá 2. umr., er gert ráð fyrir, að útgjöldin nemi 86 millj. kr., og eru þar af 80 millj. kr. rekstrarútgjöld ríkissjóðs. Eftir að hv. fjvn. afgr. frv. til 3. umr. og eldhússumr. hafa farið fram, kemur meiri hl. n. og bætir við 10 millj. kr. auk annarra till. frá einstökum þm. og n. Mér virðist því bersýnilegt, að fjárl. verði afgr. þannig, að útgjöldin muni nema rúml. 100 millj. kr. og það þó að allar till., sem ég er með, verði kolfelldar. Auk þess er heimild í 22. gr. um rúml. 6 millj.kr. greiðslur, og ennfremur liggur fyrir till. frá hæstv. ríkisstj. um 10 millj. kr. tekjuöflun til að borga niður dýrtíðina. Það er fundið upp það snjallræði að lækka dýrtíðina með því að leggja á innflutningstoll. Það er því sýnilegt, að útgjöld þau, sem gert er ráð fyrir, verða ekki minni en 120 millj. kr., og ætlazt er til, að af þessu verði 20–25 millj.kr. greiddar til uppbótar á landbúnaðarafurðum. Það hlýtur því að vera bert ölum þm. og líka þeim, sem að þessum till. standa, að því er ég geri ráð fyrir, að áframhald þessara hluta er gersamlega óhugsandi. Ég tel mig ekki svartsýnni en aðra menn, en þetta tel ég meiri bjartsýni en hægt er að réttlæta, að hægt sé að greiða 120 millj. kr. á næsta ári með hallalausum ríkisbúskap.

Ég held ég muni rétt, að allur ísfiskútflutningur okkar, fram í nóvember, muni losa um 100 millj. króna. Þetta er í raun og veru það, sem okkar búskapur byggist á, en útgjöld fjárlaganna verða bersýnilega hærri en þessi upphæð. Bændum eru tvímælalaust tryggðar kr. 6.80 fyrir hvert kg kjöts. Það, sem selt var út í fyrra, seldist fyrir kr. 5.20 kg. Ég veit ekki, hvaða verð fæst nú, en það mun vera líkt og í fyrra. Geri maður ráð fyrir, að hlutföllin verði 1:l, svarar það því, að meðalverðið verði kr. 6.00 hvert kíló. Árið fyrir stríð mun það hafa verið 90 aurar. Þetta 6 króna verð er því næstum sjöfalt á við það, sem bændur fengu 1939. En það er ekki nóg. Það á að verja 7 milljónum til að borga uppbætur ofan á allt saman.

Ég skal ekki mála fleiri myndir af ástandinu, en ég gat ekki látið hjá líða að benda á þessa mynd.

En ég vil skjóta því fram, hvort fjvn. teldi ekki ástæðu til að fresta þessari umr. og reyna að fá skaplegri afgreiðslu á fjárl. en hér er stefnt til, — en ég álít að samkomulag um afgreiðslu fjárl. sé ekki hægt að fá með því að taka svo geipilega úr ríkissjóði til landbúnaðarins, án þess að taka tillit til nauðsynja annarra stétta.