08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

27. mál, fjárlög 1944

Frsm. (Skúli Guðmundson.):

Ég skal ekki eyða löngum tíma að þessu sinni. Hv. þm. Barð. lýsti því yfir, að hann væri fús til að taka aftur allar brtt. sínar við fjárlfrv., ef allir aðrir gerðu slíkt hið sama. Nú hefur mér skilizt, að hann teldi nauðsyn að greiða uppbætur á landbúnaðarvörur, og þykir mér einkennilegt, ef hann vill láta niður falla þær brtt. fjvn., sem um það mál fjalla.

Hv. þm. Ísaf. talaði nokkuð um verðuppbætur á landbúnaðarafurðir og hneykslaðist á því, að till. um þær skyldi hafa verið lögð fram 7. des., þegar n. hafði gengið frá flestum öðrum till. sínum. Hv. þm. veit þó, að fyrir löngu var búið að skýra frá því í fjvn., að sú till. yrði lögð fram. (FJ: Ekki svona till.). Hann heldur áfram að tala um, að það sé engin trygging fyrir því, að féð verði lagt í ræktun og annað þess háttar. Það er ástæðulaust að endurtaka það, sem ég áður hef um þetta sagt. Ég held ekki, að því fé, sem fer til bænda, sé verr varið en því, sem fer til annarra stétta. Hv. þm. spyr, hvaða réttlæti sé í því að tryggja einni stétt manna full laun, hvernig sem fer um aðrar. Nú veit hann, að till. 6 manna n. eru byggðar á þeim launum, sem aðrar stéttir hafa á þessu ári. Það er ekki vitað um neitt atvinnuleysi á þessu ári. Hér er ekki verið að tryggja bændum neitt fremur öðrum stéttum fyrir komandi ár.

Hv. þm. Ísaf. og flokksbræður hans hafa hér lagt fram brtt. við brtt. fjvn. Ég hef áður bent á, hve fáráðleg till. Sósfl. er, en ég tel ekki stefnt til betra, þó að þessi væri samþ. Það er ekki gott að átta sig á, hvor till. er vitlausari. Samkv. till. hv. þm. Ísaf. á að taka af bændum þessa upphæð, sem þeim ber, og skipta henni í þrennt, 1/3 til verkamanna, 1/3 til sjómanna og svo 1/3 til bænda. M. ö. o., eftir að búið er að finna út, hvað bændur þurfa að fá á þessu ári, svo að tekjur þeirra séu sambærilegar við tekjur annarra vinnandi stétta, þá á að taka af þeim allstóran hluta þeirra handa öðrum. Og þannig er gengið frá till., að þetta á að gera 1944, eða svo að þeir, sem minnst gera á því ári, geta átt von á mestu af þessum uppbótum. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð.

Hv. 2. þm. Reykv. heldur því fram, að við í meiri hl. fjvn. viljum taka upp reglu gömlu selstöðuverzlananna og borga mönnum misjafnlega hátt verð fyrir vöruna. En það er öfugt. Við viljum borga öllum jafnt fyrir hvert kíló af kjöti og ull, — ef varan er jöfn að gæðum. Það er það, sem hann má ekki heyra nefnt. Ég sýndi honum fram á, hvernig þetta mundi verða, ef það væri fært yfir á verkamenn. Ég minntist ekki á embættismenn vegna þess, að í dýrtíðarl. er ákveðið, að afurðaverð til bænda skuli miðast við það, að þeir hafi sambærilegar tekjur við aðrar „vinnandi“ stéttir. Þar er alls ekki minnzt á embættismenn. Allt tal hv. þm. um þá er því út í hött. Hann átti þátt í að samþ. l. um, að bændur skyldu njóta sambærilegra kjara við aðrar vinnandi stéttir. Sex manna n. tók til samanburðar, eins og lögin mæla fyrir, tekjur verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna (ekki embættismanna). Annars veit ég ekki betur en að ýmsir embættismenn fái fulla uppbót á sín laun án tillits til árstekna þeirra í heild. Þannig er það einnig undantekningarlaust um sjómenn og verkamenn. Uppbótargreiðslur eru ekki miðaðar við það, að árstekjur þeirra fari ekki fram úr vissu hámarki. Það eru þessar stéttir, sem á að bera saman, þegar verið er að gera ráðstafanir til að framfylgja dýrtíðarl. Bændum eru ekki ætluð sömu laun og embættismönnum.

Þá er það annað, sem ber að taka tillit til, en það er, að bændur, sem hafa stór bú, verða að borga svo og svo mikið í vinnulaun, en aðrir hafa ekki tekjur nema af eigin vinnu, þótt hjá sumum verði þær e. t. v. hærri en það, sem miðað er við í till. 6 manna n.

Hv. 7. þm. Reykv. segir, að það sé öðru máli að gegna með útflutningsgjaldið en stríðsgróðaskatt, því að það sé ekki ákveðið að skipta því í tvennt. Þetta er vitanlega rökvilla, því að það er eins vel hægt að telja fram hálfan stríðsgróðask. eins og að færa inn alla upphæðina.

Hv. þm. N.-Ísf. taldi, að ég hefði átt frumkvæðið að því, að kirkjubyggingastyrkur var settur inn í fjárl. í fyrra. Eins og vitað er, voru sérstakar ástæður fyrir hendi þá. Kirkjan, sem þar var um að ræða, hafði fokið. En ef hann telur, að þar hafi verið farið inn á hættulega braut, þá er ástæða til að forðast að halda áfram að skapa fordæmi með því að samþ. ýmsa nýja fjárveitingaliði, t. d. launagreiðslur handa hjúkrunarkonum úti um land allt.

Hv. 3. landsk. var að tala um verðlagsuppbætur. Ég sé ekki, að ástæða sé til að segja meira um það en ég hef gert. Ég hef bent á það áður, að hér á ekki að bera saman laun bænda og embættismanna. Laun embættismanna eru yfirleitt miklu hærri en þær tekjur, sem ætlaðar eru bændum. En t. d. má nefna það, að verðlagsuppbót á þingmannakaup er ekki takmörkuð, þó að laun þeirra frá öðrum ríkisstofnunum séu hærri en 650 kr. grunnlaun. En þetta kemur málinu ekki við, vegna þess að samkv. l. frá í fyrra eiga tekjur bænda að vera sambærilegar við tekjur annarra vinnandi stétta, en ekki embættismanna.

Það er vitanlega rétt hjá hv. 3. landsk., að það er mikil þörf fyrir að reisa hæli fyrir berklasjúklinga sem fyrst, en eins og nú horfir með útkomu á fjárl., telur fjvn. ekki hægt að mæla með fjárveitingu til þess.

Það er villandi hjá hv. 3. landsk., að milli 20 –25 millj. kr. verði greiddar í uppbætur á landbúnaðarvörur á næsta ári. Við vonum, að það verði ekki nálægt því svo mikið. Það kemur ekki því máli við, þó að varið verði fé til að borga niður dýrtíðina. Það er ekki eingöngu gert fyrir bændur. Síður en svo. Það er ráðstöfun, sem hægt er að segja, að komi ekki síður, heldur jafnvel fremur, öðrum til hagsbóta.

Út af því, sem hann segir, að afgreiðslu fjárl. sé frestað, þá er ég ekki með því. Eftir því, sem lengur er frestað að afgreiða þau, er hættara við, að bætt verði við útgjaldatill. Ég tel nóg komið, og ég heyrði ekki betur en hv. 3. landsk. væri á sama máli.