13.10.1943
Sameinað þing: 18. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (1912)

Skýrsla um olíumálið

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Í framhaldi af skýrslu þeirri, sem viðskmrh. hefur nú gefið háttv. Alþingi, þykir mér rétt að upplýsa eftirfarandi frá utanríkismálaráðuneytinu:

Hinn 29. sept. fékk ég frá viðskmrh. afrit af bréfum olíufélaganna h/f Shell á Íslandi og Olíuverzlunar Íslands h/f, þar sem þau upplýsa, að þeim hafi borizt tilkynning um, að miklar breytingar séu að verða á olíuflutningi til landsins og að kostnaðarverð félaganna muni stórhækka vegna hækkunar flutningsgjalda.

Hinn 4. okt. s. l. tilkynnti sendiráð Breta mér hins vegar í formlegu erindi, að brezka flotastjórnin muni hér eftir hafa hönd í bagga með aðalolíubirgðasölunni hér á landi, og að hún hafi tilnefnt brezka olíufélagið Asiatic Petroleum Company umboðsmann sinn, til þess að fara með umráðin yfir birgðastöðum, meðan brezk yfirvöld hafa umráðaréttinn. Þá tilkynnir sendiherrann og um leið, að Bretar muni taka að sér að sjá fyrir þörfum Íslendinga á brennsluolíum, sennilega frá því snemma í n. k. nóvembermánuði.

Þessi tilkynning hefur að sjálfsögðu gefið ríkisstjórninni tilefni til að leiða athygli sendiherra Bandaríkjanna og Bretlands að því, um hversu mikilvægar ráðstafanir væri að ræða.

Hef ég fyrir hönd ríkisstjórnarinnar meðal annars gert báðum sendiherrunum ljóst, að ríkisstjórnin legði mikla áherzlu á, að hvaða breytingar, sem gerðar kynnu að verða á olíuflutningum til landsins, þá yrðu brennsluolíur látnar í té landsmönnum með ekki lakara verði eða óhagstæðari skilyrðum en nú giltu.