13.10.1943
Sameinað þing: 18. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (1916)

Skýrsla um olíumálið

Ólafur Thors:

Mér hefur fundizt sem nokkuð sé farið fram hjá aðalatriði þessa máls í þeim umr. og fyrirspurnum, sem hafa fárið fram hér af hendi annarra en hæstv. ríkisstjórnar, og á ég þar ekki sízt við hv. 2. þm. S.-M. Kjarni þessa máls hygg ég að sé sá, að í fyrra, ég held snemma á árinu 1942, urðu þær gerbreyt. á olíuflutningum til landsins, að í stað þess að félögin, sem hér hafa verzlað með olíu, fluttu hana áður hingað á skipum, sem þau leigðu, þá fengu þessi félög og íslenzk stjórnarvöld skilaboð um það, að Bandaríkjastjórn og Bretlandsstjórn hefðu gert með sér samninga um þessi mál og ákveðið, að frá vissum degi mundi Bandaríkjaflotinn taka að sér flutninga á olíu þeirri allri, sem Íslendingar þyrftu til sinna þarfa, og afhenda hana frá tönkum í Hvalfirði til Íslendinga. Þetta var gert að fornspurðum íslenzkum stjórnarvöldum. Og eftir því, sem okkur var tjáð síðar, einnig án þess að olíufélögin hefðu nokkuð atkvæði um það haft, og kannske ekki heldur neinar till. Samt sem áður var það svo, að áður en þetta komst í framkvæmd, þá fóru fram, eftir því sem íslenzku stjórnarvöldin seinna fengu skýrslur um, einhverjar umr. um þetta milli yfirmanna ameríska flotans á Íslandi og olíufélaganna; og er mér kunnugt um þau samtöl af skýrslugerð, sem seinna var óskað eftir, að gefnu tilefni, af hendi fyrrv. ríkisstjórnar, sem ég átti sæti í. Þróun málanna varð sú, að fyrst eftir að þessi skipti komust á, þá héldu olíufélögin, ef ég man rétt, óbreyttu olíuverðinu. En gengið var jafnframt af hálfu ríkisstj. eftir skilagrein af hendi flotastjórnarinnar fyrir þessari vöru um flutninga og annan kostnað. Þessu fór fram nokkra mánuði. Þegar svo loks reikningurinn eða skilagreinin kom, færði hann okkur þau óvæntu og fáheyrðu og mér alveg óskiljanlegu tíðindi, að ameríska flotastjórnin hefði hækkað flutningsgjöld þau, sem giltu um flutning á þeirri olíu, sem flutt var inn á vegum olíufélaganna í júní 1942, þannig að þessi farmgjöld hefðu hækkað um eða yfir það að fjórfaldast frá þeim tíma, og skipti hækkun þessi yfir 200 kr. á hverja smálest olíu, sem flutt var til landsins. Þegar olíufélögin fengu þessa tilkynningu, sneru þau sér til þáverandi ríkisstjórnar og tjáðu henni þessi óvæntu tíðindi og vandræði. Ég, sem þá var utanríkisráðh., tók þá þetta mál upp við sendiherra Bandaríkjanna og færði fram rök af hendi Íslendinga til að sanna, hversu fjarri — mér liggur við að segja viti — slík verðhækkun væri.

Í samráði við Morris sendiherra ákvað stj., án þess að snúa sér til sendiherra Íslendinga í Washington, að fjalla um þetta mál, og ríkisstj. lagði þá fram fyrir sendiherrann bréflega nokkur þeirra raka, sem helzt hnigu að íslenzka málstaðnum í þessu efni. Ég skal ekki fara langt út í að tíunda þau, þó að mér þyki rétt, að þau komi fram, vegna þess að þau eru í sínu gildi enn í dag, a. m. k. að verulegu leyti. Við sýndum fram á, þegar þessi breyt. kom, að af henni leiddi, að olían yrði flutt með miklu stærri skipum en áður, vegna þess að það geymapláss, sem flotinn réð yfir, væri miklu stærra en það pláss, sem olíufélögin réðu yfir, og því möguleikar til að taka móti miklu meira magni en áður, en þetta veigamikla málsatriði hnigi að því að færa sönnur á, að fragtin ætti ekki að hækka, heldur þvert á móti að lækka, því að það vita allir, sem við verzlun hafa fengizt, að fragtin er ævinlega miklu lægri með stórum skipum, svo að þegar af þessum ástæðum þurfti ákaflega sterk ný rök til að gera sennilega þörf Bandaríkjanna fyrir þessari geipilegu hækkun.

Alveg það sama mátti segja um vátryggingargjöldin, sem voru verulegur liður í þessum kostnaði. Bandaríkin flytja þessar vörur á eigin ábyrgð, en tryggja þær ekki hjá öðrum, og miðast vátryggingargjaldið raunverulega við slysin, sem verða. Aftur á móti miða vátryggingarfélögin við þau óhöpp, sem líklegt er talið, að verði, og ætla sér auk þess nokkurn ágóða. Allt þetta átti að miða að því, að verðið ætti að lækka, en ekki hækka.

Þetta út frá mínu sjónarmiði var nægilegt til að rökstyðja þá ósk og kröfu, að engin verðhækkun færi fram, ekki sízt þegar það er athugað, að stjórnir tveggja ríkja, sem eru vinveittar Íslendingum, taka ákvörðun án þess að tala við Íslendinga um svona mikið hagsmunamál Íslendinga, því að þegar af þeirri ástæðu einni, að slíkt fór fram án vitundar Íslendinga, skapaðist krafa á hendur þessum ríkjum, að Íslendingar bíði ekki skaða af breytingunni. Í viðbót við þetta upplýstist svo, að í samtölum, sem höfðu farið fram milli olíufélaganna og flotastjórnarinnar, var beinlínis tekið fram af þáverandi umboðsmanni flotastjórnarinnar á Íslandi, að hann teldi ekki koma til mála, að af þessu leiddi hækkun á olíuverðinu á Íslandi. Hér má svo bæta því við, að Íslendingar höfðu selt þessum þjóðum fiskafurðir sinar heilt ár fram í tímann og gátu ekki breytt því verði, og var það gert í fullu trausti þess, að a. m. k. ensk og amerísk stjórnarvöld ættu engan hlut að því að hækka þessa höfuðnauðsynjavöru fiskframleiðslunnar.

Þegar þessi rök voru flutt fram við sendiherra Bandaríkjanna, sagði hann strax, að hann teldi, að við hefðum lög að mæla. Ég vil ekki í einstökum atriðum segja slíkt, það er kannske frekt að farið að segja, að hann hafi sagt, að við hefðum lög að mæla, en þessi maður, fyrir utan það, að hann er gagnmenntaður maður, virtist einstaklega sanngjarn, reyndi ekki að færa fram gagnrök.

Núverandi stjórn tók málið sömu tökum og fyrrverandi stjórn og færði málið auk þess í hendur okkar sendiherra, og málinu lauk með því, að þessi mjög eðlilega og afar sterka málefnaaðstaða Íslendinga var viðurkennd.

Þegar ég heyrði, að olíufélögin teldu, að ný verðhækkun væri í aðsigi, datt mér fyrst í hug, að málið væri komið úr höndum flotastjórnarinnar og í hendur olíufélaganna. En nú upplýsir hæstv. utanrh. og kannske líka hæstv. viðskmrh., að það eru ekki olíufélögin, heldur flotastjórn Breta, sem er á bak við þessi mál. Og þá vil ég leyfa mér að halda fram, að það sé frá íslenzku sjónarmiði óskiljanlegt, hvers vegna flotastjórn Breta þurfi að reikna okkur hærri kostnað af sínum skipum en þeim, sem hún notar til að flytja olíu frá sömu höfnum og hún hefur verið flutt undir handleiðslu flotastjórnar Bandaríkjanna en flotastjórn Bandaríkjanna hefur gert. Ég heyri hæstv. ráðh. segja, að þeir hafi þegar talað við umboðsmenn Breta- og Bandaríkjastjórnar hér á Íslandi, og þeir telji óeðlilegt, að af þessu leiði nokkra hækkun fyrir Íslendinga.

Ég vildi, að ein rödd heyrðist á Alþingi um, að mergurinn málsins hlýtur að vera sá, að Íslendingar telja sig þeirrar skoðunar, að engin rök, sem enn hafa komið okkur fyrir augu, hnigi að því, að þessi breyting á eðli málsins eigi að leggjast með nýjum þunga á íslenzka framleiðendur. En ef sú yrði raunin, hlýtur það að leiða af sér þá sjálfsögðu kröfu, ef sanngirni er í ferðinni, að þegar nú bráðlega verður gengið frá nýjum samningum um sölu á íslenzkum fiski, þá verði fiskverðið hækkað um það, sem olíuverðið kann að hækka, þannig að þegar fisksölusamningarnir verða gerðir, þá skuldbindi brezka stjórnin sig til að bæta okkur þann halla, sem við kynnum að verða fyrir af olíuhækkun á samningstímabilinu. Hér liggja fyrir upplýsingar um, að þegar á að semja um fiskverðið, þá getum við búizt við allra handa kerfum um olíuflutningana hjá þessum tveimur aðilum, þar sem annar kaupir fiskinn af okkur og selur hinum upp á láns- og leigukjör, og annar segir: „Við skiptum um, og í staðinn fyrir Ameríkumenn flytja Englendingar olíuna“. Og af þessu leiðir stóra hækkun á efnivörum til þeirrar framleiðslu, sem við eigum að selja fram í tímann. Það hlýtur því að vera ófrávíkjanleg sanngirniskrafa frá okkar hendi, að okkur sé tryggt, að við verðum skaðlausir af slíkum hugsanlegum verðhækkunum, og það er siðferðisréttur þessarar kröfu, sem við eigum að nota sem rök fyrir því, að brezka flotamálaráðuneytið falli frá öllum hugleiðingum um, að það eigi að bitna á okkur Íslendingum, að það ráðuneyti eigi að taka að sér þessa flutninga í staðinn fyrir annað ráðuneyti í Bandaríkjunum, sem við fáum ekki að vita um fyrr en á eftir og ekkert um að segja.

Hér er meginkjarni málsins, að hæstv. stj. haldi á málunum með sömu festu og fyrrv. stj. gerði og núverandi stj. hefur gert með sigurvænlegum árangri. Þetta er mál, sem verður að taka á með fullri alvöru og festu, að Íslendingar þurfi ekki að kaupa þessa nauðsynjavöru dýrara en frekast er þörf á, og ég efast ekki um, að stj., sem hefur sérstaklega valið sér það verkefni að berjast við dýrtíðina og gert í því efni margar farsællegar ráðstafanir, sem hafa komið að liði, og aðrar, sem hafa komið að engu gagni, en flestar orðið fyrir allharðri gagnrýni, rökstuddri og órökstuddri, frá þeim, sem við þær eiga að búa, — mér dettur ekki í hug að efast um, að stj., sem íhugar mörg kvöld, hvernig eigi að koma í veg fyrir óþarfa álagningu, geri allt, sem unnt er, til að þessi meginnauðsynjavara sjávarútvegsins verði ekki gerð að óeðlilegum tekjustofni fyrir tvö félög í landinu. Þetta er sjónarmið út af fyrir sig, hitt er sjónarmið Íslendinga gagnvart útlendingum, sem ég skildi rétt, að hæstv. stj. hefur í huga að taka föstum tökum, en það er ekki minnst, heldur mest áríðandi, því að náttúrlega er það svo, að þó að þessir olíuhringir eigi ekki að hagnast á sjávarútveginum á Íslandi, þá er það þó bót í máli, að ef þeir græða milljónir, þá fer meginhluti af þeim gróða, 2/3–¾, í opinber gjöld. En allt um það er nauðsynlegt, að hæstv. stj. geri sem unnt er til þess, að hvorki einn né annar leggi á þessa nauðsynjavöru meira en brýn nauðsyn krefur.