13.10.1943
Sameinað þing: 18. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (1919)

Skýrsla um olíumálið

Haraldur Guðmundsson:

Skýrsla sú, sem tveir hæstv. ráðh. hafa flutt hér um viðskipti ríkisstj. við olíufélögin, er að minni hyggju harla fróðleg, og ég fagna því, að hún er komin fram. Ég hygg, að hún sé alveg óræk sönnun þess, að það fyrirkomulag, sem nú er í þessum efnum, getur ekki og má ekki standa til frambúðar. Og það er von mín, að það, sem upp hefur komið nú þegar í þessu máli — að ekki þurfi meira til — , það verði nægilegt til þess, að hér verði gerð gerbreyt. á. Mér virðist af því, sem fram hefur komið, bæði í skýrslum ríkisstj. og í umr., það vera augljóst, að verðlagseftirlitið upp á síðkastið gagnvart olíufélögunum hefur verið gagnslítið eða gagnslaust að því leyti til, að allt bendir í þá átt, að þær upplýsingar, sem verðlagseftirlitið hefur fengið, hafi ekki verið réttar. Byggi ég þetta á þeim ummælum hæstv. ráðh., sem eru óvéfengjanleg, að samkvæmt þeim útreikningum, sem félögin lögðu fram 1. ágúst s. l. til verðlagseftirlitsins, telja þau og sýna fram á með tölum, að verðið á olíunni þurfi að vera eins og ráðh. greindi, en örskömmum tíma síðar, án þess að nokkur breyt. hafi orðið á aðstöðu á neinn hátt, sjá þau sér fært að bjóða ríkisstj. verðlækkun á olíunni, sem nemur svo miklu, að mér er sagt af þeim, sem hafa athugað þetta mál, að allur tekjuafgangur s. l. árs mundi ekki svipað því hrökkva til þess að mæta afslættinum einum, sem nú er fram boðinn. Ég hika ekki við að segja, að þetta sé sönnun þess, að upplýsingar félaganna um tilkostnað og annað slíkt, sem verðlagseftirlitið hefur fengið, geti ekki verið réttar. Ég vil því mjög eindregið ítreka þau tilmæli, sem hér hafa komið fram til hæstv. ríkisstj., um að hún láti nú tafarlaust fram fara athugun á öllum gögnum, sem fyrir liggja um verðlag og tilkostnað hjá þessum félögum, með hliðsjón af því, sem nú hefur fram komið, og undirbúning, sem slík rök liggja til, til frekari rannsókna og aðgerða í málinu, sem mér þykir sennilegt, að þurfi einnig til að koma. Öllum er það í fersku minni, að á s. l. hausti fóru olíufélögin fram á stórkostlega verðhækkun á olíunni, vegna þess að þá hefði sú breyt. á orðið, að Bandaríkjastjórn hefði tekið flutning hennar í sínar hendur. Nú er verðhækkun þessi rökstudd með því, að nú sé skipt um aðstöðu, því að nú sé það flotastjórn Breta, sem ætli að taka að sér að flytja olíuna. Það lánaðist að mestu leyti að afstýra þeirri verðhækkun, sem félögin ætluðu að fá fram um síðustu áramót, og ég vona,, að þetta takist einnig nú.

Mætti beina þeirri fyrirspurn til hæstv. utanrrh., hvenær hann gerir sér von um að fá svör frá sendiherra Bandaríkjanna viðvíkjandi þeim atriðum, sem ráðh. skýrði frá, að hann hefði spurzt fyrir um hjá honum, og þeim kröfum, sem hann hefði sett fram. Ef hæstv. ráðh. gæti gefið svör um þetta, væri það mjög æskilegt.

Í sambandi við olíuflutningana áður vil ég, út af ummælum hv. þm. G.-K. segja, að það er ekki alls kostar rétt, sem hann sagði um flutningana áður en Bandaríkjastjórnin tók við þeim, að olíufélögin sjálf hefðu séð um flutningana hingað til landsins. Ég held, að alllangan tíma þar á undan hafi þeir flutningar ekki farið fram á annan hátt en þann, að skip til þess hafi verið leigð eftir samningum milli brezka siglingaráðuneytisins í London og ríkisstj., og munu um þau skip sem önnur, sem önnuðust flutninga milli landa, hafa gilt ákvæði um grunnfrakt, sem miðað var við í okkar till. og að miklu leyti voru tekin upp í samningunum við flotastjórn Bandaríkjanna á s. l. hausti (1942). Ég hygg, að skip til flutninga hingað — hafi ekki verið leigð til annarra aðila en ríkisstjórnarinnar.

Þá er eitt atriði í þessu sambandi, sem kemur mér ákaflega einkennilega fyrir. Mér skilst á skýrslum hæstv. viðskmrh., að um það bil viku fyrr en tilkynning berst ríkisstj. frá brezku ríkisstjórninni, gegnum sendiherra hennar hér, um þá fyrirhuguðu breyt., að flotastjórnin brezka taki flutningana í sínar hendur, þá hafi forráðamenn olíufélaganna hér tilkynnt íslenzku ríkisstj., að verðhækkun væri í vændum á olíunni. Mér kemur þetta ákaflega einkennilega fyrir sjónir, og ég verð að telja, að það sé fullkomið rannsóknarefni, hversu þetta geti verið, að ákvörðun erlendra stórvelda sé svo miklu fyrr komin í hendur íslenzkra borgara annarra en ríkisstj. heldur en ríkisstj. sjálfrar, þegar um jafnmikilsvert mál er að ræða eins og hér er um að ræða, og þegar þetta er komið til vitundar þeirra óbreyttu borgara á þann hátt, að þeir telja sig þess umkomna að skýra íslenzku ríkisstj. frá því viku áður en hlutaðeigandi aðili erlendrar ríkisstjórnar tilkynnti ríkisstj. hér um þetta. Ég vil ekki draga dul á það, að slíkt getur vakið grunsemd, sem væri ástæða til að rannsaka, hvort væri á rökum byggð. — Ég tel, að sú skýrsla, sem hæstv. ríkisstjórn hefur gefið um þetta efni, sé mjög fróðleg, og ég vil mega vænta þess að hæstv. ríkisstj. haldi á málinu fast og skörulega og hafi hið fyllsta samráð við Alþ. um aðgerðir í því efni.

Ég sagði fyrr í minni ræðu, að ég teldi upplýst, eftir því sem hér liggur fyrir, að verðlagseftirlitið mundi ekki hafa fengið réttar upplýsingar frá þessum félögum. Ég álít rétt að rannsaka þetta fullkomlega og láta ábyrgð koma fram í því efni eftir því sem l. standa til. Og ég álít ástæðu til þessa einnig vegna þess, að mér er ekki grunlaust um, að fleiri reyni gagnvart verðlagseftirlitinu að nota slíka aðferð, og það gæti verið þeim tímabær aðvörun í því, ef það mætti sýna og sanna, hvers sá mætti vænta, er slíkt reyndi.