08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

27. mál, fjárlög 1944

Lárus Jóhannesson:

Ég ætla ekki að hafa þetta langt mál. — Ég á brtt., þar sem ég fer fram á, að tillagið til Fjarðarheiðarvegar verði hækkað upp í 250 þús. kr. Til þessa er hin mesta nauðsyn, eins og atvinnumöguleikum er nú háttað á Seyðisfirði. Þar sem ég hef átt tal um þetta mál við allflesta hv. þm. og fátt er nú orðið þm. á fundi, skal ég ekki fjölyrða um brtt. þessa, en vona, að hv. þm. greiði henni atkvæði.

En úr því að ég stóð upp, get ég ekki stillt mig um að minnast á, að fjárlögin og brtt. við þau sýna augljóslega, hversu forustu vantar nú hér á Alþingi. En hitt er þó verra, að ekki er ætlazt til, að fram komi í fjárlögum stórar upphæðir, sem vitað er, að gjalda þarf, og eru það uppbæturnar á landbúnaðarafurðir. Skilst mér, að á vanti um 20 milljónir króna til þess að jöfnuður náist á fjárlögum. Með slíkum niðurgreiðslum er farið út á mjög varhugaverða braut, og má með þeim að vísu fela dýrtíðina og draga lítils háttar úr henni í svip, en ráð til úrbótar eru þær ekki.

Ef rétt er, að 10–20 milljónir þurfi til að greiða með útfluttum afurðum landbúnaðarins, sýnir það, að framleiðsla á því sviði er of dýr og of mikil og að hjá oss eru 1000–2000 bændur, sem betur væru komnir að annarri arðbærari vinnu fyrir þjóðfélagið.