13.10.1943
Sameinað þing: 18. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

Skýrsla um olíumálið

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Það hefur komið fram í þessum umr., að hv. þm. hafa beinlínis gert ráð fyrir, að ríkisstj. kæmi með till. í málunum, jafnvel á þessum fundi. Ég vil benda á það, að ríkisstj. gaf út þessa skýrslu nú í dag og því ekki að vænta, að frá henni komi önnur rök í málinu á þessum fundi.

Um þau orð hv. 6. landsk., að stj. hefði velt þessu máli fyrir sér of lengi, vil ég benda honum á það, að á málinu eru ýmsar hliðar, og ég tel heillavænlegast að fara að öllu með skynsemd og stillingu. Þeirri fyrirspurn hans, hvort nokkrir staðir, sem hann nefndi, gætu fengið olíu, get ég ekki svarað í dag, en tek hana til athugunar. En ég vil benda honum á, að lausn þessara mála er ekki eins einföld og hv. þm. virðist halda. Og þó að hv. þm. beri fyrir brjósti einn eða tvo staði á landinu, sem gætu notið þessa hagkvæma verðs, verður ríkisstj. að miða aðgerðir sínar við það, að allur útvegur landsins geti notið hins hagkvæma verðs.