13.10.1943
Sameinað þing: 18. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (1923)

Skýrsla um olíumálið

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Það er engin hætta á, að ég taki mikinn tíma frá hæstv. forseta eða hv. þm., en mér fannst skylt að taka til máls, af því að hv. þm. Borgf. vitnaði til mín í ræðu sinni. Ég get borið um það, að hann mælti hvergi um of, nema þar sem hann hrósaði mér fyrir stofnun og stj. olíufélags Vestmannaeyinga, en ég hef ekki gert annað en vera erindreki þeirra og standa með málum þeirra, eins og skylt er.

Eins og hv. þm. G.-K. sagði, er höfuðkjarni þessa máls sá, að innkaupsverð á olíu hækki ekki, og það er grundvöllurinn fyrir því, að útgerðarmenn geti fengið hana við skaplegu verði fyrir milligöngu olíufélaganna. Kjarni málsins er, að hæstv. ríkisstj. takist nú ekki verr en fyrrv. stj. og þessari hæstv. stj. tókst að mörgu leyti, þegar skipt var yfir og Bandaríkin tóku við olíuflutningi til landsins í stað Breta. Nú er í ráði, að Bretar taki að sér þennan flutning, og ég sé ekki, að það sé meira vandamál, fyrir þessa hæstv. ríkisstj. en hina fyrri að fá bægt frá þeirri hættu, að olíuverðið hækki. Og án þess að brýna nokkuð hæstv. ríkisstj., þykist ég vita, að hún muni gera það, sem hægt er, til að ná þeim árangri, sem æskilegur er. En náist hann ekki, tel ég það illa farið, og kæmi það í bág við þau fyrirheit, sem okkur voru gefin um hagkvæma verzlunarsamninga, þegar við báðum um hervernd Bandaríkjanna. Ég treysti hæstv. ríkisstj. til að halda fast á þessum málum, og ég vil taka undir með þeim hv. þdm., sem treysta því, að hér standi hver einasti þm. með henni til djarfra átaka.

Svo er innanhússspursmálið, með dreifinguna innan lands, en hagkvæm lausn þess byggist á þessum grundvelli, sem ég nefndi. Það er rétt tekið fram hjá hv. 6. landsk., að olíufélögin eru búin að bíða lengi eftir ákvörðun ríkisstj., og vil ég vona eins og hann, að hún láti eitthvað frá sér fara um þetta mál, áður en umskiptin eiga sér stað. Það væri líka æskilegt, að hæstv. ríkisstj. vildi, þó að ekki væri í dag eða á þessum fundi, marka sér ákveðna stefnu í þessu máli. Ríkisstj. vonaðist til þess lengi vel að geta leyst þessi mál án þess að það væri rætt fyrir opnum dyrum Alþ., en nú hefur út af því brugðið, og hæstv. ríkisstj. verður að gera sér ljóst, að hún verður að taka upp hreina stefnu í þessu máli.

Ég skal svo ekki þreyta hæstv. forseta lengur, þó að full ástæða hefði verið til að minnast nokkrum orðum á ræðu hv. 2. þm. Reykv., en ég ætla að láta það hjá líða. En mér finnst eins og honum, að málið hafi gefið nokkurt yfirlit um það, hvernig farið er með það vald, sem við höfum afsalað okkur af frjálsum vilja, og ég álít, að það sé alvarlegri hlutur en það, þó að Bretar taki að sér olíuflutninga í stað Bandaríkjanna.

Það er sannarlega þörf á því fyrir hæstv. ríkisstj. og ekki síður fyrir Alþ. að athuga, hvaða réttur það er, sem þetta frjálsa land á við að búa, þegar stórríkin tvö, sem hér hafa haft aðsetur og hafa, leika sitt hagsmunatafl. Hver er aðstaða okkar? Hvað er sjálfstæðið mikils virt? Hvernig halda þau þau loforð, sem gefin voru, þegar Ísland var fengið til að biðja um vernd?

En þar sem þetta kemur ekki þeim málum við, sem liggja fyrir þessum fundi, mun ég geyma það, sem ég hef um það að segja, þangað til það er rætt hér á Alþ., eins og ég vona að það verði.