24.09.1943
Neðri deild: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (1930)

65. mál, skipaafgreiðsla

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég sé að vísu ekki ástæðu til þess á þessu stigi að hefja kappræður um þetta mál, en ég vildi beina því til þeirrar hv. n., sem kemur til með að fjalla um þetta frv., að viðeigandi væri, að hún leitaði einnig álits þeirra aðila, sem hv. flm. gat ekki um í ræðu sinni, en bað eru skipafélögin, um það, hvernig þau líta á þá heimild, sem hér er lögð fram til samþykktar. Þótt hv. flm. líti aðeins á eina hlið málsins, þá er einnig til önnur hlið, en það er sú, sem snýr að skipafélögunum. Það eru ýmis viðskipti, sem félögin eiga við trúnaðarmenn sína úti á landi og þetta frv. fer fram á, að þau verði skylduð til að eiga við viðkomandi bæjarstjórnir eða hreppsnefndir.

Um hitt atriðið, sem virtist vera höfuðatriði hjá hv. flm., hverjir ráða yfir framskipun og uppskipun á vörum, er það að segja, að ég er ekki viss um, að almenningur væri víða sólginn í að skipta um afgreiðslumenn. Og ég veit ekki til þess, að það sé víða álitið, að þeir, sem fyrir þessu standa, geri sér það að sérstakri féþúfu, heldur hafi það aðeins eins og hverja aðra atvinnu, þannig að þeir hafi þóknun fyrir störf sín. Og það mun vera tekið tillit til þeirra tekna við niðurjöfnun eins og tekna af öðrum atvinnugreinum. Hitt, að þetta frv. feli í sér tryggingu fyrir því, að gjöldin fari ekki fram úr hófi, er ég ekki farinn að sjá. Ég held meira að segja, að það megi halda því fram með allsterkum rökum, að á meðan afgreiðslan er í höndum einstaklinga eða fyrirtækja, sem hafa ekki lögverndaðan rétt á henni, þá sé það miklu meira aðhald en ef bæjar- eða sveitarstjórnir ættu að fara að reka hana með einkarétti. Reynslan hefur líka sýnt, að ýmis gjöld, eins og t. d. vörugjöld til hafna, hafa þráfaldlega verið hækkuð af viðkomandi bæjar- eða sveitarstjórnum, blátt áfram af því að bæjar- eða sveitarfélögin hafa þurft teknanna með. Ég hef ekki séð, að ráðherra hafi talið sér fært að standa á móti slíkum hækkunum. Ég vildi aðeins benda á þetta í sambandi við þann öryggisauka, sem hv. flm. taldi að því, að ráðherra væri látinn staðfesta gjaldskrána. Ég hef séð margar breytingar á vörugjaldskrám, og allar hafa þær verið til hækkunar, til aukinna tekna fyrir bæjarfélögin, og ráðuneytið hefur aldrei séð sér fært annað en fallast á þær hækkanir í öllum aðalatriðum. Hv. flm. veit líka, að það er erfitt fyrir ráðuneytið að standa á móti öruggum tekjuöflunarleiðum fyrir bæjarfélögin, þegar þau geta sýnt fram á, að þau hafi sterka þörf fyrir tekjuauka. Hér er um að ræða nýja leið til tekjuöflunar fyrir sveitar- og bæjarfélögin, sem er sams konar leið og að leggja á vörugjöld, en það er tekjuöflunarleið, sem oft hefur sætt mótspyrnu hér á Alþ. og það einmitt af flokki hv. flm. og öðrum skyldum flokkum.

Þetta vildi ég taka fram og beina því til þeirrar hv. n., sem um málið fjallar, og auk þess vil ég sérstaklega beina því til hennar, að hún leiti álits skipafélaganna.