24.09.1943
Neðri deild: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (1933)

65. mál, skipaafgreiðsla

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það eru nú aðeins nokkur orð út af ræðu hv. þm. Vestm. Hann vildi alveg sérstaklega biðja menn að gjalda varhuga við þessu frv., með þeim rökum, að með því væri verið að opna bæjarfélögunum sams konar tekjuöflunarleið og vörugjaldaleiðina. En eins og frv. ber glöggt með sér, þá á það alls ekki að vera tekjuöflunarleið, þar sem í því er sérstök grein til þess að hindra það, en það er ákvæðið um, að ráðherra skuli staðfesta gjaldskrárnar. En nú er þessu svo háttað, að afgreiðslumenn setja gjaldskrárnar sjálfir. Það er rétt, að ég og sá flokkur, sem ég fylgi, höfum talið það órétt að leggja á vörugjöld. Ég mun því ekki vera því mótfallinn, ef hv. þm. Vestm. getur bent á leið til þess að gera ákvæðin sterkari til þess að koma í veg fyrir það, að þetta verði notað sem tekjuöflunarleið. Nei, ég er viss um, að ef þetta frv. verður samþ. og gjaldskrárnar verða samþ. af ráðherra, þá munu þessi gjöld lækka til stórra muna, a. m. k. víða.

Þótt hv. þm. Vestm. benti á, að ráðherra hefði aldrei séð sér fært að neita að staðfesta hækkun á vörugjöldum, þá gegnir hér allt öðru máli, þar sem þetta á alls ekki að vera leið til tekjuöflunar, heldur á þetta að vera til hagsbóta fyrir íbúana og til þess að koma í veg fyrir það, að einstakir menn eða fyrirtæki hafi aðstöðu til þess að leggja skatt á íbúana, sem þurfa að fá vörur fluttar að og frá.

Ég hef ekkert á móti því, að sú n., sem mál þetta fær til meðferðar, leiti umsagna þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, sem eru skipafélögin og þá fyrst og fremst Skipaútgerð ríkisins, sem á hér stærstan hlut að máli. En ég álít alls ekki hægt að fara eingöngu eftir því, sem þessir aðilar óska eftir. Ég býst við, að skipafélögin vilji halda áfram að hafa sömu umboðsmenn fyrir sig við afgreiðslu skipanna úti um landið sem þau hafa nú. Það skiptir að vísu ekki mestu máli í þessu sambandi. Hitt skiptir mestu máli, hvort þessir umboðsmenn eiga að hafa vald til þess að skattleggja fólk óhæfilega eins og þeir nú hafa. Hitt er svo annað mál, hvort þessi skipafélög vilja hafa trúnaðarmenn á þessum stöðum til þess að gæta hagsmuna sinna í ýmsum efnum. Ég held, að þau geti komið því við án þess að annast uppskipun og útskipun varanna.