24.09.1943
Neðri deild: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (1934)

65. mál, skipaafgreiðsla

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Eins og ég sagði áðan, ætla ég ekki að kappræða um þetta mál við hv. flm., þó að margt gefi tilefni til fyrirspurna, og er það ekki vegna ræðu hans, heldur vegna þess, sem er í kringum þetta, taka báta o. s. frv., sem vert væri að minnast á. Ég efast ekki um þann góða tilgang, sem hv. flm. hefur með flutningi þessa máls. En ég býst við, að fleirum sé farið eins og mér, að þeir standi dálítið framandi gagnvart því, er haldið er fram, að þessi grein atvinnulífsins sé svo misnotuð hér á landi eins og ræða hv. flm. gaf tilefni til að álíta. En þó að tilgangur hans sé þessi að fá eitthvað ódýrari fram- og uppskipun fyrir umbjóðendur sína, þá er reynslan sú, að allir slíkir skattar, sem eru miðaðir við álagningu á vörur, hafa verið ákaflega illa séðir hér á Alþ., og það sækir alltaf í það horf, þegar bæjarstjórnir og sveitaryfirvöld hafa aðgang að þessum skattaálögum, að þessir aðilar verða að nota þær sér til tekjuauka. Og gleggst dæmi um það, hvernig þingið lítur á þetta, er það, að það litla vörugjald, sem ég hafði fengið samþ. hér á Alþ. fyrir Vestmannaeyjar og átti í mesta basli með að halda við, — ég fékk því aldrei framgengt á kreppuárunum nema fyrir eitt og eitt ár í senn, — það var alveg fellt úr gildi. Svo mótfallið hefur hæstv. Alþ. verið þessari tekjuöflunarleið, að þetta gjald á sér ekki stað lengur á þennan hátt. Og þó að tilgangur þessa hv. þm. með frv. sé góður, þá er hætt við, að 99% af líkum mæli með því, að í framkvæmdinni yrði að grípa til þessa sem tekjuöflunarleiðar, þegar færi kannske að minnka útsvarsgjaldþol þegnanna. Það kann að vera, að það verði ekki í dag og jafnvel ekki á morgun, en það gæti orðið hinn daginn. Og þá er hægurinn nærri fyrir bæjarfélög að hækka dálítið þessi fram- og uppskipunargjöld til þess að ná í tekjur og mjög eðlilegt, að til þess yrði gripið.

Við erum svo báðir sammála um það, hv. flm. og ég, að það sé sjálfsagt að leita til þeirra aðila til umsagnar, sem þurfa á afgreiðslu og fyrirgreiðslu vara að halda úti á landi. Eru það þá fyrst og fremst Ríkisskip og þá einnig Eimskipafélag Íslands. Og þar sem hv. flm. taldi Skipaútgerð ríkisins helzta aðilann, sem þetta kæmi við, þá vil ég segja, að Eimskipafélag Íslands sé engu síður stór aðili í þessu sambandi. Við skulum gera báða þessa aðila réttháa og koma okkur saman um, að rétt sé að leita umsagnar þeirra beggja.