22.11.1943
Neðri deild: 51. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í C-deild Alþingistíðinda. (1939)

65. mál, skipaafgreiðsla

Frsm. minni hl. (Þóroddur Guðmundsson):

Hv. frsm. meiri hl. hefur gert grein fyrir afstöðu meiri hl. n. til frv., en hann minntist ekki á till. minni hl. Eins og þdm. sjá, er mikill munur á frv. og till. minni hl. Í frv. er gert ráð fyrir, að bæjarstjórnum og hreppsn. verði heimilað að taka í sínar hendur skipaafgreiðslu. En eins og frsm. meiri hl. gat um, hefur þetta verið borið undir skipafélög hér, sem leggja á móti frv. með þeirri aðalforsendu, að afgreiðslumennirnir séu trúnaðarmenn á hverjum stað, og vilji félögin því velja þá sjálf. Við í minni hl. höfum tekið tillit til þessa í afstöðu okkar og leggjum ekki til, að bæjarfélögin fái skilyrðislausa heimild til að taka afgreiðsluna í sínar hendur, heldur aðeins þar, sem bryggjur og vörugeymsluhús eru eign bæjarins. Það er mikill munur á þessu og því, sem upphaflega var í frv.

Þegar það er athugað, að víða hagar svo til, að byggð hafa verið dýr og vönduð mannvirki, sem eru leigð einstaklingum lágu verði, en þeir taka aftur gífurlega há gjöld af almenningi, þó að þeir sjálfir njóti lágrar leigu, kannske ekki nema tíunda hluta þess, sem er í Rvík, sjá menn, hvað það er óeðlilegt, að hreppsfélög byggi slík mannvirki, en einstaklingar geti rakað saman fé á þeim. Það er ekki um að ræða annað en að bæjarfélögin fái heimild til að starfrækja sín eigin mannvirki.

Stundum eiga afgreiðslumennirnir bryggjurnar, og það var á það bent af formanni n., að það væri hart að taka þær af þeim. Minni hl. viðurkenndi rök hans.

Það er eitt enn í þessu máli. Þar, sem eru til ófullkomin mannvirki og tæki til þessarar starfrækslu, en einstaklingarnir hafa ekki kraft eða vilja til að koma sér upp nýjum, hamlar það því hreppsfélögum eða bæjarfélögum til að koma sér upp tækjum. Þetta getur orðið til þess, að ekki verði úr framkvæmdum á viðkomandi stað, en ef bæjarstjórnirnar fá þessa heimild, verður það til að ýta undir hreppinn eða bæjarfélagið.

Ég held, að að athuguðu máli ættu jafnvel þeir, sem gátu ekki fallizt á frv., að geta samþ. miðlunartill. minni hl. Þeir hljóta að sjá, að búið er að sníða af frv. alla þá vankanta, sem þeir settu fyrir sig.