22.11.1943
Neðri deild: 51. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (1942)

65. mál, skipaafgreiðsla

Frsm. minni hl. (Þóroddur Guðmundsson) :

Það er mikil umhyggjusemi, sem frsm. meiri hl. sýnir skipafélögum og einstaklingum. Það er einkennilegt, að hans stóra hjarta skuli ekki líka ná til bæjarfélaga, sem hafa komið sér upp verðmiklum eignum. Er það ekki óréttlæti gagnvart þeim að fá ekki að hafa á hendi þá starfrækslu, sem fram fer í þeirra eigin húsum og á þeirra eigin bryggjum? Ég álít líka, að bæjarstjórnirnar séu alveg einfærar um að velja menn, sem eru þessum störfum vaxnir. Og ég vil endurtaka, að aðfinnslur frsm. meiri hl. eiga ekki lengur við, þegar minni hl. er búinn að ganga svo til móts við hann.