25.11.1943
Efri deild: 56. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í C-deild Alþingistíðinda. (1964)

172. mál, verðlækkunarskattur

Flm. (Bernharð Stefánsson) :

Herra forseti. Þó að grg. þessa frv. sé stutt, þá lít ég svo á, að hún segi í raun og veru það, sem segja þarf um þetta mál á þessu fyrsta stigi. Menn muna það, að þetta mál, verðlækkunarskatturinn, var rætt hér á síðasta þingi og um hann fjallað af tveimur þingnefndum eins og önnur ákvæði þáverandi dýrtíðarfrv. Málið er því hv. þm. mjög kunnugt. Þrátt fyrir þetta skal ég með örfáum orðum gera grein fyrir því, hvers vegna ég hef gerzt flm. þessa frv., og geri ég ráð fyrir, að eitthvað svipaðar ástæður hafi valdið um hv. meðflm. minn að frv., þó að hann geti að vísu sjálfur sagt til þess

Eins og allir vita, hefur þingið nú setið í nærri þrjá mánuði, og á þessu tímabili hefur ekkert verið aðhafzt í hinu svo kallaða dýrtíðarmáli. Þingið hefur engar nýjar ráðstafanir gert til þess að standa á móti dýrtíðinni eða reyna að fá hana lækkaða. Hæstv. ríkisstj. hefur að vísu skipað nýja samninganefnd eða réttara sagt fengið framleiðendur og neytendur til þess að nefna til menn í þá n. Og hugsanlegt er, að eitthvað það komi upp úr starfi þeirrar n., sem beinlínis verði til þess að lækka dýrtíðina í landinu. En enn er það ekki orðið. Dýrtíðarl. frá síðasta þingi hefur ekki verið breytt, að því er ráðstafanir gegn sjálfri dýrtíðinni varðar. Og eina ráðstöfun þeirra l., sem hægt er að segja, að sé gegn dýrtíðinni í landinu, eru heimildir þeirra laga til þess að greiða niður verðlag með fjárframlögum úr ríkissjóði. Það er að vísu annað mjög þýðingarmikið atriði í þeim l. um ákveðið hlutfall milli kaupgjalds og verðlags innan lands, ef samkomulag fengist milli stéttanna, samkomulag, sem hefur nú náðst, sem betur fer. En þó að það væri gott að ná því samkomulagi, er ekki hægt að sjá, að það hafi orðið beinlínis til þess að lækka verðlagið í landinu. Það er því alveg auðsætt, að verja þarf til þess fé úr ríkissjóði, ef halda á áfram að verjast því, að nýtt dýrtíðarflóð flæði yfir landið, — því að það er alveg sýnt, að a. m. k. þingið gerir ekki nú aðrar raunhæfar ráðstafanir í því efni.

Nú hefur mér virzt það, að fjárl. mundu verða fullhlaðin af útgjöldum. Og svo kemur fleira til greina. Ég nefndi það atriði, sem er í dýrtíðarl. frá í fyrra, um samkomulagið milli framleiðenda og neytenda og að það hefur náðst. Ef standa á við þetta samkomulag, þá kostar það líka fé og það töluvert fé. Að þessa samkomulags var leitað, var fyrir atbeina ríkisvaldsins samkvæmt l. Og ég lít svo á, að það sé tvímælalaus skylda ríkisins að sjá um það, að þetta samkomulag geti haldizt, m. ö. o., að bændur landsins fái það verð fyrir afurðir sínar yfirleitt, sem ákveðið er í samkomulagi sex manna n. En ef þetta á að geta orðið, þá kostar það án efa töluvert mikið fé. Ég álít því, að þrátt fyrir það að búizt væri við eftir 2. umr. fjárl., að nokkur tekjuafgangur yrði á fjárl. og að setja mætti inn á fjárl. nýjar tekjur, — sem raunar hafa verið samþ. í l. frá Alþ., en voru ekki áætlaðar í fjárl., — þá muni samt sem áður vanta fé, ef gera á þetta hvort tveggja, sem ég hef talað um, að halda dýrtíðinni í skefjum á svipaðan hátt og gert hefur verið, — og það virðist vera það eina, sem hægt er að gera í því efni, því að ef gera á eitthvað raunhæft í málinu, þá eru það alltaf heilir hópar manna og heilar stéttir, sem rísa upp og mótmæla, enn sem komið er, — og ef að hinu leytinu á að standa við það samkomulag, er ég hef áður talað um. Ég álít því, að þingið geti ekki skilizt svo við þessi mál, að það gefi ekki stj. meiri möguleika til ráðstafana í þessum efnum en hún hefur nú, — ekki sízt sökum þess, að það virðist standa til að taka hina almennu heimild dýrtíðarl. fyrir , stj. að greiða niður verðlagið burt úr l. Af þessum ástæðum er það, að ég hef gerzt flm. þessa frv. Ég áleit það vera skyldu einhverra þm. að gerast til þess. Og það, sem ég álít almenna þingmannsskyldu, get ég alveg eins tekið á mig eins og að ætla einhverjum öðrum það.

Þó að ég fullyrði það og haldi því ákveðið fram, að það sé ekki forsvaranlegt fyrir þingið að skiljast svo við þessi mál, að það gefi ekki ríkisstj. meiri möguleika en nú er til þess að inna skyldur ríkisins af hendi í þessu efni, þá vitanlega fullyrði ég ekkert um það út af fyrir sig, að þetta verði bezt og heppilegast gert með því að framlengja þennan verðlækkunarskatt, sem hér er lagt til. Það kann vel að vera, að aðrar leiðir gætu verið til í þessu efni. En þessi verðlækkunarskattur var nú í dýrtíðarl., sem samþ. voru á síðasta þingi og áttu þá að vísu ekki að gilda nema fyrir eitt ár. Og hann var samþ. að heita mátti af öllu Alþ., ef ég man rétt. Nú mun það vera sagt, að því hafi verið lofað, að þessi skattur skyldi ekki verða framlengdur, eins og svo margir bráðabirgðaskattar hafa verið. Og þetta mun rétt vera, að það mun hafa verið talið, að hann yrði ekki framlengdur. En á hinn bóginn er á það að líta, að það er í dýrtíðarmálunum nú alveg nákvæmlega sama ástand og var, þegar skatturinn var í fyrstu samþ. Og þar af leiðandi virðist mér, að hafi það verið rétt að samþ. þennan skatt á síðasta þingi, þá sé rétt að framlengja hann nú um eitt ár. Ég hygg, að flestir hv. þm. hafi litið svo á í vor, þegar gengið var frá dýrtíðarl., að það væri með því ekki gert annað en það að ganga frá bráðabirgðaskipulagi. Menn gerðu yfirleitt ráð fyrir því, að þessi mál öll yrðu tekin til endurskoðunar á því þingi, sem nú stendur yfir. Og þá var það náttúrlega mjög eðlilegt, að þessi veðlækkunarskattur væri ekki látinn gilda nema um eitt ár. En nú hefur engin slík endurskoðun farið fram, sem allir töldu víst, að gerð yrði, og eins og ég sagði áðan, sama ástand er nú í þessum efnum og þá var. Sé ég því ekki annað en það sé einmitt mjög eðlileg ráðstöfun að framlengja þessa tekjuöflunarleið um eitt ár enn, og finn ég ekki, að það komi í bága við það, sem talað hefur verið um, að þetta ætti að vera bráðabirgðaskattur. Ég er aftur á hinu, að það væri brigðmælgi, ef að stríðinu loknu eða þegar ástandið breyttist og ekki þykir lengur þörf þeirra ráðstafana, sem nú eru gerðar, þá væri farið að framlengja þennan skatt til almennra þarfa ríkisins. En hér er ekki um það að ræða að framlengja þennan skatt til almennra þarfa, heldur eingöngu til dýrtíðarráðstafana, m. ö. o. í sama skyni og hann var á lagður í fyrra. Og auðvitað er þessi skattur töluvert annars eðlis en aðrir skattar, þar sem hann gengur beinlínis til þess að lækka útgjöld þeirra manna m. a., sem greiða hann, að vísu einnig til þess að lækka útgjöld þeirra manna, sem hafa lægri tekjur en svo, að þeir greiði nokkuð af þessum skatti, en jafnframt allra landsmanna.

Á venjulegum tímum eða ef venjulega hefði verið ástatt, mundi það hafa verið talið sjálfsagt að vísa þessu máli til n. og þá að sjálfsögðu fjhn. En nú er svo ástatt, eins og hv. þdm. vita, að hv. formaður fjhn. er veikur, hv. 8. landsk. (PM), og eftir því sem mér hefur verið tjáð, er ekki von til þess, að hann verði fær til starfa nú fljótlega. En hins vegar er svo ástatt, að það er eða ætti a. m. k. að vera komið nálægt þinglokum, og því dugar ekki að tefja mál með því, að n., sem fær mál til meðferðar, geti ekki starfað. Ég hef nú sem skrifari þessarar n. gert tilraun til þess að fá n. á fund í gær og líka í morgun, en það hefur ekki lánazt. Ég tel því, þar sem svo mikilsverðu máli verður sennilega vísað til þessarar hv. n., fjhn., að nauðsyn sé á að gera ráðstafanir út af þessu, að formaðurinn er veikur. Ég vil skjóta því til Sjálfstfl. og bið hv. 1. þm. Reykv. að taka það til athugunar og flytja það, hvort flokknum sýnist ekki að setja mann í fjhn. í staðinn fyrir hv. 8. landsk., og yrði það þá annaðhvort þannig, að sá maður tæki við formannsstarfinu í n. til bráðabirgða, eða þá, að n. kysi sér formann til bráðabirgða. Að sjálfsögðu væri hægt að vinna nefndarstörf í fjhn., þó að ekki væru nema 4 menn í n., en vitanlega þarf að vera formaður í n., sem geti kallað n. saman og stýrt fundum.