25.11.1943
Efri deild: 56. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (1965)

172. mál, verðlækkunarskattur

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Hv. 1. flm. að þessu frv., sem hér liggur fyrir, hefur fært fram grg. fyrir því, hvers vegna við flm. flytjum þetta mál fram nú. Og ég get sagt, að þar er ég í flestu honum samdóma, er hann sagði um það efni. Ég er ekki að flytja þetta fyrir það að ég hafi svo mikinn áhuga á því að leggja að nauðsynjalausu nýja skatta á þjóðina yfirleitt, en eins og hv. 1. flm. tók fram, er aðstaða öll þannig nú, að ég tel ekki forsvaranlegt að hreyfa ekki þessu máli hér í þinginu. Það er nú búið í þessari hv. d. að fella heimildina fyrir ríkisstj. til fjárgreiðslna til dýrtíðarráðstafana, og það má segja, að sú heimild sé komin á grafarbakkann í hv. Nd., þar sem búið er að samþ. við 2. umr. niðurfelling hennar. Og nú lítur svo út, að það er mjög vafasamt, hvort árangur verður af starfi landbúnaðarvísitölun., sem vann að samkomulagi um vinnukaup og verðlag. Og vegna þess að nú er farið að nálgast þinglok, er það alveg nauðsynlegt að fara að athuga þessi mál, því að það hlýtur að taka nokkurn tíma að greiða þar úr, svo að vel megi fara, enda eru hér meðal hv. þm. ýmsar skoðanir um það, hvernig snúast eigi við í þessu dýrtíðarmáli. Sumir vilja framlengja verðlækkunarskattinn, aðrir vilja taka lán til þess að þurfa ekki að skattleggja þjóðina. Sumir vilja borga úr ríkissjóði til þess að reyna að halda dýrtíðinni í skefjum, aðrir eru, sem ekkert vilja gera í málinu, svo að það getur náttúrlega komið til mála, að hver höndin verði upp á móti annarri í þessu máli. Þess vegna er það, að það er mjög ábyrgðarlaust að hreyfa ekki einhverju viðkomandi þessu máli, þannig að það verði farið að vinna að því nú í þinginu og það rækilega. Við flm. þessa frv. kusum þann kostinn að koma þessu áleiðis þannig að leggja til að hafa þá sömu aðferð, sem höfð hefur verið til þessa á þessu ári, að taka einmitt upp verðlækkunarskattinn óbreyttan eins og hann hefur verið. Og hann virtist vera með fullkomnum vilja þingsins á lagður á síðasta þingi. Var þá sjálfsagt að kanna, hvort sama hugarfar væri nú hér á þinginu og var þá.

Ef sýnt er, að breyta þurfi þessu frv., er ég tilbúinn að athuga og vera með breyt. á því, sem nauðsynlegar reynast. T. d. finnst mér hugsanlegt, að rétt væri að láta skattinn ná lengra niður á tekjunum en verið hefur og einnig gætu kannske komið til greina breyt. á skattstiganum. Auðvitað fylgir maður því, sem maður telur sannast og réttast í málinu, því að eitthvað verður að gera. Það er ekki hægt að hafa fullkomna óvissu í þessum málum eða eitthvað, sem verið væri að flaustra við. Þess vegna var það, sem við hv. 1. þm. Eyf. fluttum þetta frv.