25.11.1943
Efri deild: 56. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í C-deild Alþingistíðinda. (1966)

172. mál, verðlækkunarskattur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil strax á þessu stigi málsins lýsa yfir því, að ég get ekki fylgt þessu frv. Ég var á móti því í fyrra, en Ed. gafst þá ekki tækifæri til að ræða málið. Það var þvingað hér í gegn, án þess að fjhn. gæfist tækifæri til að gera á því nauðsynlegar breyt. Í sambandi við það má benda flm. á, að ég bar þá fram brtt. við frv., og hann viðurkenndi, að það væri það eina raunverulega „pósitíva“, sem komið hefði fram í þá átt, en vegna þess, hve áliðið var þings, var ekki hægt að koma þeim breyt. við þá, annars var hætt við, að frv. mundi daga uppi, en ríkisstj. var áhugamál að fá það afgreitt. Ég veit, að hv. frsm. man eftir þessu. Og þegar þetta frv. fer í hv. fjhn., sem ég geri ráð fyrir, að verði, þá vil ég mælast til, að hún afli sér allra upplýsinga og athugi, hvort ekki er hægt að breyta því, ef það er nauðsynlegt, eins og haldið er fram, að afla nýrra tekna.

Ég get ekki fylgt þessu frv., vegna þess að ég tel ekki rétt að hafa þann hátt á að bregðast jafnan þeim loforðum, sem þjóðinni eru gefin. Það var sagt í fyrra, að verðlækkunarskatturinn ætti aðeins að gilda til eins árs. Ég efast um, að það hefði gengið í gegn þá, ef þá hefði verið sagt, að hann ætti að standa í tvö ár eða til stríðsloka. Það eru því engin rök, þegar frsm. heldur því fram, að það sé sjálfsagt að samþ. þetta frv. nú, af því að sams konar frv. var samþ. í fyrra. Þm. voru samþykkir því með því loforði, að það skyldi aðeins standa eitt ár, svo að ríkisstj. gæfist tækifæri til að undirbúa nýjar „pósitívar“ till. Nú er ekki hægt að sjá að þær muni ætla að koma, meðan látið er í té fé til að valsa og galsa með. Ég veit ekki nema ráðlegast sé að setja hæstv. ríkisstj. stólinn fyrir dyrnar og neyða hana til að hugsa eitthvað um dýrtíðarmálin. Ég vil líka benda á, að ríkisstj. var veitt heimild til að afla þessa fjár. Hún fékk leyfi til að hækka verð á tóbaki og brennivíni. Ég gerði þá fyrirspurn til hæstv. fjmrh. þá, hvort þetta ætti að vera aukagjald á þjóðinni og skatturinn haldast áfram. Svar hans var að vísu loðið, en ég gat þó ekki skilið það á þann veg, að þetta ætti að haldast. Ef svo hefði verið, þá efast ég um, að stj. hefði fengið heimild til að hækka tóbak og vín.

Ef þjóðin á öll að bera dýrtíðargjaldið, eins og látið hefur verið í veðri vaka, þá er engin meining að leggja það á lítinn hluta þjóðarinnar. En það er gert með þessu frv. Fjórir af hverjum fimm gjaldendum samkv. því eru í Reykjavík og langmestur hluti þeirra útgerðarmenn. Það er vert að athuga af þeim, sem eiga að skipta byrðinni jafnt á milli allra þegna þjóðfélagsins.

Þá vil ég benda á, að ekkert er gert upp um það, hvers vegna dýrtíðin er í landinu. Ég hlustaði hér á útvarpsumr. í gær, m. a. á hv. þm. Str., og fór fjarri því, að þar væri farið með rétt mál. Það er ekkert aukaatriði, hvort erlend þjóð rekur hér starf, sem veitir milljónir dagsverka í atvinnu. Það er ekkert aukaatriði hvort hún greiðir 30 eða 55 milljónir af úrlendu fé. Hv. þm. sýnist hafa skotizt yfir, að mikið af dýrtíðinni er greitt af erlendum þjóðum og að innstæður erlendis vaxa með degi hverjum. Vegna þess að svo mikið er greitt í leyndum greiðslum, er ekki sama, hvort það er greitt 80%–100% meira eða minna fé. Svo lengi sem þessar greiðslur vega ekki upp á móti innflutningnum er þetta vandamál. Þetta hefði hæstv. fjmrh. átt að geta gert sér ljóst, en það lítur út fyrir, að hann hafi ekki hugsað um annað en greiða dýrtíðina niður. Það er mikið rætt um, að þetta sé gert fyrir útgerðina. Ég sé ekki, hvað vinnst við þann skollaleik að taka mikið til að gefa minna. Ég veit ekki, hvort heppilegt er að búa árum saman við þetta án þess að athuga, hvort ekki sé hægt að finna traustari grundvöll. Og ef það, sem ég hef sagt, yrði til þess, að þessi heimild yrði felld, þá væri vel farið.

Ég vil játa, að þó að ég sé á móti þeim greiðslum, sem frv. gerir ráð fyrir, þá er ég ekki á móti því, að greiddar séu uppbætur til bænda. Það ætti ekki að blanda þeim málum saman. Ég lít svo á, að það þyrfti ekki neinar undirskriftir eða loforð. Því var lofað hér í fyrra, að bændum skyldi greitt fyrir afurðir sínar það, sem sex manna n. kæmist að niðurstöðu um, að þeir þyrftu að fá. (LJóh: Það er herfilegur misskilningur.) Hitt er annað mál, hvernig á að afla fjár til að standa undir þeim greiðslum. Og eins og ég sagði áðan, þá hef ég sett fram „pósitívar“ till. og get ekki sætt mig við aðrar ósanngjarnari og miklu verri. Verzlunarstéttin í landinu hefur þénað mest á dýrtíðinni. Hún á að bera byrðina af henni. Á hennar herðar á að leggja þá skatta, sem á eru lagðir til að halda dýrtíðinni niðri. Það er kannske ekki hægt að taka það allt á einu ári. Það má láta ríkissjóð taka dýrtíðarlán, sem svo sé greitt á vissu árabili, en setja svo skatt á verzlunarmenn í landinu til að greiða það með. Það er ekki bara, að þetta sé réttlátasta leiðin, heldur er hún auðveldasta leiðin til að leysa dýrtíðarmálin.

Ég mun því greiða atkv. á móti þessu frv., en ég mun fylgja því til n., og vænti ég, að hv. n. athugi þá till. mína, sem kom fram í fyrra, en þá vannst ekki tími til að athuga.