25.11.1943
Efri deild: 56. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í C-deild Alþingistíðinda. (1967)

172. mál, verðlækkunarskattur

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég leyfði mér fyrir nokkrum dögum að beina þeirri spurningu til hæstv. ríkisstj., hvað liði ýmsum atriðum varðandi samkomulag sex manna n. Þessi hv. d. samþ. þáltill. um, að þessi athugun yrði framkvæmd, og að áliti okkar margra vantar grundvöll til að byggja á umr. um samkomulag sex manna n., á meðan niðurstöðurnar af hinni fyrirhuguðu athugun vantar — og þá um leið umr. um þá einu leið, sem fundin hefur verið til að leysa þessi mál. Hæstv. ráðh. var veikur, þegar ég bar þessa fyrirspurn fram, en nú er hann það ekki lengur, og þætti mér vænt um einmitt í sambandi við þessar umr. að fá hið umbeðna svar. Ég vildi leggja áherzlu á, að þessi atriði þurfa að liggja fyrir, svo að hægt sé að hafa hliðsjón af þeim við umr. málsins. Það er hvort tveggja, að þær geta verið til leiðbeiningar um það frv., sem hér liggur fyrir, og e. t. v. annað mál.

Þegar verðlækkunarskatturinn var samþ. s. 1. vor, leit ég og aðrir á hann sem bráðabirgðaskatt, sem ætti að gilda í það eina skipti, og var fallizt á þetta sem bráðabirgðaráðstöfun, en ekki sem gildandi l. í landi, og lágu til þess ýmsar ástæður. Það er varðandi þennan skattstofn, sem hér er um að ræða, að gengið er ákaflega freklega á skattstofn bæjar- og sveitarfélaga. Það er kunnugt, að frá fornu fari hefur tekjum verið skipt þannig, að bæjar- og sveitarfélögin hafa haft að mestu leyti beina skatta, en ríkið óbeina. Nú hefur ríkið smám saman fært sig upp á skaftið og tekið beina skatta til sín, og var gengið sérstaklega langt í þá átt með tekjuskattsl. 1935 og bæjar- og sveitarfélögunum þar með gert erfiðara um innheimtu, enda varð fjárhagur margra þeirra erfiður og þeim erfiðara að standa undir þeim gjöldum, sem í þeirra hlut féllu. En þótt svo væri, þá hefur aldrei verið gengið eins langt í þá átt að skerða tekjulindir bæjar- og sveitarfélaga og með verðlækkunarskattinum. Það má segja, að beinir skattar til ríkisins séu orðnir hærri en til sveitarfélaganna, og er það gerbylting frá því, sem verið hefur. Áður var það svo, að tekjuskatturinn var aðeins örlítið brot af sköttum manna, en nú er hann orðinn hærri en aðrir skattar. Þetta er gerbylting á skattheimtu landsins. Og þótt fallizt væri á, að þetta væri gert í eitt skipti til bráðabirgða, þá er ekki hægt að fallast á, að það standi. Enda er eftirtektarvert, að þegar ríkið setti stríðsrgróðaskattinn, þá var bæjar- og sveitarfélögum fenginn ákveðinn hluti hans, — helmingurinn var látinn renna til bæjar- og sveitarfélaga, og var þó minna en vera ætti, og nú sé ég, að komið er fram frv. í Nd. um, að bæjar- og sveitarfélögin fái 75% af þeim skatti. Varðandi þá skatta hefur löggjafarvaldið haft augun opin fyrir þessu sjónarmiði, en varðandi verðlækkunarskattinn ekki. Og ef hann á að verða áframhaldandi, þá er búið að kippa grundvellinum undan útsvarsálagningunni, og er þá ljóst, að aðstaða bæjar- og sveitarfélaga er að mörgu leyti verri en ríkisins til að afla tekna. Ríkið hefur fengið miklar tekjur af útflutningi og innflutningi, en bæjarfélögin hafa bara þetta og eiga nú að leggja gjöld sín bara á það, sem eftir er, og hæpið, að þau náist, þegar botninn dettur úr öllu saman.

Ég held því, að það sé frágangssök, jafnvel þó að fallizt sé á að halda áfram milligreiðslum til að halda niðri dýrtíðinni; — ég held það sé frágangssök, að þessi skattur verði til þess notaður.

En hér renna fleiri stoðir undir, eins og hv. þm. Barð. hefur vikið að, — m. a. sú, að ein höfuðástæðan fyrir því að halda greiðslunni áfram er, að sjávarútvegurinn mundi stöðvast ella. En nú eru það einmitt þeir, sem verða að greiða bróðurpartinn af þessum skatti. Þær upplýsingar liggja frammi fyrir þá, sem vilja kynna sér þær. Og það getur hv. d. séð, hvað það er fráleitt, að ríkið sé að verja fé til að hjálpa einum atvinnurekstri, en taka það fé síðan aftur af sama aðila. Það verður hæpinn gróði fyrir þá, sem góðs eiga að njóta af slíkum ráðstöfunum.

Hitt verð ég að viðurkenna, að það er úr vöndu að ráða með aðgerðir í verðlækkunarmálunum, og þá álít ég, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að það vanti gögn til þess, að menn geti áttað sig á, hvaða leiðir séu vænlegastar út úr þessum vanda. En það liggur í augum uppi, að samkomulagi verður að ná um niðurfærslu verðlags í landinu, eins og gleggst kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. í gær. Allt annað er í raun og veru aðeins bráðabirgðaráðstafanir til þess að koma í veg fyrir ástand, sem enginn trúir öðru en vandræði og illt hljótist af. Það var ljóst, að hæstv. ráðh. gerði sér grein fyrir því, að kominn er tími til að athuga, hvort ríkissjóður hefur efni á að halda áfram svo stórum greiðslum í þessu skyni, nema öruggt sé, að tilganginum verði náð. En það er skynsamlegt að koma í veg fyrir vanda með því að borga, ef ríkið hefur efni á því. En nú skilst mér, að komið sé að því, að það sé ekki hægt. Ef ríkið á að standa undir jafnstórkostlegum milligreiðslum og undanfarið ár, þá munu það verða um 20 millj. kr. árlega. Þá er spurningin, hvort ríkið hefur efni á að taka á sig 20 millj. króna halla, því að ljóst er, að ekki eru til peningar fyrir þessari upphæð. Það yrði þá að fara inn á þá leið að hækka skattana, og er það hæpið. Það er a. m. k. víst, að sé ekki hægt að finna aðra tekjustofna en nú eru kunnugir, þá er ekki hægt að fara þessa leið, því að með því móti væri ríkið að seilast inn á þá sjóði, sveitar- og bæjarsjóði, sem samkvæmt gildandi l. og landsrétti hafa verið ætlaðir til annarra og ákveðinna útgjalda. Og fari ríkið ekki aðrar fjáröflunarleiðir ár eftir ár, þá eykst vandinn stöðugt, og er þá komið út fyrir þau mörk, er setja verður.

Ég ásaka ríkisstj. engan veginn fyrir að reyna að borga niður dýrtíðina, því að ekki hefur verið bent á önnur happasælli bráðabirgðaúrræði. En þótt ég gæti fallizt á þetta, meðan nógar tekjur og sjóðir voru fyrir hendi, þá er það skilyrði ekki lengur fyrir hendi, um það ber þetta frv. öruggasta vitnið. Ríkið getur ekki lengur undir þessum greiðslum staðið og þarf að taka fé þaðan, er sízt skyldi. Auk þess kemur það til greina, sem hv. fjmrh. benti á í sinni ágætu ræðu í gærkvöld, að við mundum þegar vera komnir yfir öldutopp góðæranna. Þótt ríkið nái þessu fé enn þá inn í bili með því að taka fé af þeim, sem á að styrkja, sveitir og bæi, þá kemur sá tími, ef spádómur hv. fjmrh. reynist réttur, að þetta verður ekki heldur hægt eftir þessari leið, — því að þegar kreppan kemur, sem hann minntist á, þá verður það fyrsta afleiðing hennar, að hætta verður þessum milligreiðslum, og um leið rýkur vísitalan upp um hver veit hvað. Þetta verður þá undirbúningur okkar undir kreppuna.

Og ef við játum nú, að farið sé að halla undan fæti og nú þegar skorti fé til þessara fjárgreiðslna, verðum við þó að horfast í augu við, hve dýrtíðin er enn raunverulega há. Það er með mig eins og ríkisstj., að ég mundi hika við að telja rétt og fært að fella niður þessar milligreiðslur, þar sem ég m. a. ber ábyrgð á fjárhag Reykjavíkurbæjar og veit, að hver vísitöluhækkun þýðir aukin útgjöld fyrir bæinn, og ég hefði ástæðu til að horfa í það. En er ekki að því komið, að reynslan sýni, að ríkið hafi ekki handbært fé í þessu skyni og ekki sé hægt að ná í það nema ganga um leið svo á hlut annarra, þ. á m. hins opinbera, að seinni villan verði verri hinni fyrri?

Í vor fékkst sá skattur samþ., sem hér er nú til umr. að framlengja. Þá var mér og félögum mínum sagt, að hann ætti ekki að gilda nema þetta eina ár, og við féllumst á hann sem neyðarráðstöfun til bráðabirgða. Þá voru aðstæður allar þannig, að menn töldu, að hægt yrði að borga dýrtíðina niður í bili, en gerðu ráð fyrir, að þetta ástand yrði ekki til frambúðar eða nein framtíðarleið í þessu. Þá var miðað við að koma vísitölunni niður í 220 stig, jafnvel 210 stig, með þessum aðgerðum. En raunin hefur orðið sú, að vísitalan hefur síðan verið um 250–260 stig, og talað er um, að hún geti rokið upp í 280 stig í einu stökki. Þetta sýnir, út á hve hálar brautir hefur verið lagt, því að upphaflega var tilgangurinn með þessum ráðstöfunum sá að koma því til leiðar, að dýrtíðin kæmist niður í 220 stig. En nú er vísitalan í stað þess 260 stig, svo að það virðist óneitanlega benda í þá átt, að verið geti, að þessi milligjöf sé beinlínis til að rugla um of hið raunverulega ástand og ginna menn út af hinni einu réttu braut.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð mín fleiri, vildi aðeins láta þessi sjónarmið koma fram. Ég tel, að þetta frv. geti ekki verið umræðugrundvöllur undir lausn þessara mála, eins og nú er komið. Hins vegar mundu það þykja hastarlegar aðfarir að láta það ekki fara lengra, svo að ég læt það hlutlaust.