02.12.1943
Efri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (1979)

172. mál, verðlækkunarskattur

Haraldur Guðmundsson:

Eins og segir í nál. á þskj. 528, þá get ég ekki fallizt á að mæla með því, að frv. þetta verði samþ., fyrst og fremst vegna þess, að ég er alveg ósamþykkur því, sem sagt er í nál. hv. minni hl. fjhn., að beina lagaskyldu beri til þess að tryggja bændum það verð fyrir afurðir, einnig fyrir þær útfluttu afurðir, sem landbúnaðarvísitölun. ákvað. Ég er andvígur því, að ákvörðun sé um það tekin á þessu þingi, að fé verði lagt til þeirra uppbótagreiðslna, og mun ekki geta greitt því atkv. að afla fjár í því skyni. Ég benti á við 1. umr., að auk þessara ástæðna teldi ég verulegan galla á þessu frv. út af fyrir sig þá tekjuöflun, sem hér er farið fram á, og sérstaklega þann galla, að þó að þessi skattur komi, ef samþ. yrði, á sæmilega háar tekjur, þá hlyti hann óhjákvæmilega — að annarri löggjöf óbreyttri — að verða til þess, að útsvör á lægri tekjur mundu hækka. Hins vegar skal ég ekki neita því, að ég gæti hugsað mér að vera með þessum skatti, að vísu breyttum, og ég hafði orð á því í fjhn., ef tekjum af honum væri varið til eflingar sjávarútveginum, til þess að styðja hann til þess að smíða ný skip og þess háttar. En þetta fékk ekki undirtektir hv. annarra nm. Ég vil því hér með leggja fram skrifl. brtt., svo hljóðandi: „Við 2. gr. Greinin orðist svo: Tekjur samkv. 1. gr. skulu renna í sérstakan sjóð, sem verja skal til aukningar skipastólnum og eflingar sjávarútvegi eða á annan hátt samkvæmt ákvörðun Alþingis.“

Ég skal geta þess, að verði þessi brtt. samþ., áskil ég mér rétt til þess að bera fram brtt. við 1. gr. frv., um skattálagninguna, en sé ekki ástæðu til þess, fyrr en ég sé, hvernig fer um þessa brtt. Verði þessi brtt. hins vegar felld, mun ég greiða atkv. á móti frv.