02.12.1943
Efri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (1982)

172. mál, verðlækkunarskattur

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég hef ekki margt að segja í þessu máli frekar en tekið var fram við 1. umr. þess. Ég get að mestu leyti vísað til álits minni hl. fjhn. (BSt) og þess, sem þar er sagt. En það, sem ég vil minnast á hér, eru þau vonbrigði, sem ég hef orðið fyrir í þessu máli. Ég gerði að vísu ráð fyrir því við 1. umr., að þetta frv. mundi falla, en mér urðu það nokkur vonbrigði, að hv. fjhn. skyldi ekki, um leið og hún — eða meiri hl. hennar — snerist á móti frv. þessu, koma með einhverjar till. um breyt. á þessu frv., þannig að fundin væri þá tekjuöflunarleið í staðinn fyrir þetta. En það hefur algerlega brugðizt. Málið, sem þetta frv. átti að leysa, er því í þeim sama hnút og það áður var. Þetta frv. var borið fram til þess að þreifa fyrir sér um það, hvað hv. þm. vildu gera til þess að hefjast handa um þetta mál, áður en komið væri alveg að þinglokum.

Hv. meiri hl. fjhn. virðist ekki hafa verið á sama máli að öllu leyti, því að mér virðist n. vera að vissu leyti í fjórum pörtum í áliti á þessu máli. Tveir nm. eru á móti frv. í sjálfu sér. En þrír nm. virðast vera með því, einn ákveðið, sem er í minni hl. n., til þess að nota þetta fé til þess að vinna á móti dýrtíðinni. Annar kveðst vilja taka þetta fé og nota það til þess að færa niður dýrtíðina, en með öðrum hætti. En einn vill stefna þessu fé til sjávar. En sem sagt, það hefur ekki verið ráðið neitt fram úr því enn sem komið er, hvernig leysa á þá erfiðleika, sem dýrtíðin veldur, og stemma stigu fyrir hana, þ. e., hvernig eigi að afla fjár til þess. Og ég vildi gjarnan fá að heyra það frá hv. fjhn. þessarar d., hvort hún hefur ekki hafið neinn undirbúning undir það að standa á móti þeim erfiðleikum, sem dýrtíðin hefur í för með sér.

Ég tek það fram nú, eins og ég gerði við 1. umr., að okkur flm. frv. þótti þetta eðlilegasta leiðin til þeirra ráðstafana, sem bent er til með þessu frv., að samþ. þá sömu tekjuöflun, sem hv. þingheimur samþ. á síðasta þingi, þannig að sú tekjuöflun héldi áfram næsta ár til þess að standa á móti dýrtíðinni með því fé, sem af þessu fengist. Það hefur orðið meiningamunur um þessa leið eins og allt annað, sem gert er í þessum efnum, en yfirleitt held ég, að sagt sé, að þessi skattur hafi ekki reynzt þannig, að ástæða væri til þess að hætta við hann, fyrr en búið væri þá að koma sér niður á annað betra. En að fella þetta frv. án þess að hafa fundið aðrar leiðir til tekjuöflunar í þessu skyni, það finnst mér vera mjög fljótráðið, vægast sagt.