08.09.1943
Sameinað þing: 11. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

27. mál, fjárlög 1944

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Fjárlfrv. það, er hér liggur fyrir, er það fyrsta, sem núv. hæstv. ríkisstj. leggur fyrir Alþingi, því að frv. hennar í vor getur ekki talizt fjárlagatillögur hennar.

Frv. þetta ber það með sér, að hæstv. ríkisstj. telur ekki nauðsynlegt að gera neinar verulegar breytingar á fjármálastefnu liðinna ára. Frv. markar enga nýja stefnu og miðar lítið að því að mæta þeim mörgu erfiðu verkefnum, sem nú liggja fyrir þjóðinni í atvinnu- og öryggismálum hennar.

Við umræður um fjárlög fyrir komandi ár verður ekki hjá því komizt að athuga nokkru nánar það ástand, sem nú ríkir í atvinnumálum þjóðarinnar, og jafnframt, hvernig snúast þarf við þeim vandamálum, sem þar blasa við og hljóta fyrr en varir að krefjast úrlausnar.

Við afgreiðslu síðustu fjárlaga kom greinilega í ljós viðhorf flokkanna á Alþingi til þessara vandamála, og þykir mér því rétt að rifja nokkuð upp þá afgreiðslu.

Fjarlagafrumvarp fyrir yfirstandandi ár var lagt fyrir Alþ. af fyrrv. ríkisstjórn, sem fór frá völdum í desembermánuði s.l. Við afgreiðslu þeirra fjárlaga hafði Sósfl. í fyrsta skipti nokkur áhrif á fjárlagaafgreiðslu, þar sem hann þá átti orðið 10 þingmenn, og átti þá í fyrsta skipti fulltrúa í fjárveitinganefnd og gafst með því bætt aðstaða til að fylgjast með ýmsum einstökum atriðum frumvarpsins.

Við afgreiðslu fjárlaga s.l. vetur sýndi það sig, að gömlu þjóðstjórnarflokkarnir voru sammála um, að ekki væri þörf á að skipta um stefnu að neinu verulegu ráði um fjárframlög ríkisins, hvorki með tilliti til þess að undirbúa stórfelldar breytingar í atvinnumálum þjóðarinnar né heldur til þess að auka lífsöryggi fólksins með fullkomnari tryggingum eða með því að tryggja því næga atvinnu.

Horfurnar í atvinnumálum landsins voru þó á þann veg á s.l. vetri, að lítt var sæmandi að afgreiða svo fjárlög, að ekki væru gerðar ráðstafanir til þess að tryggja næga atvinnu.

Þá hafði verið hér um nokkurt skeið næg atvinna af völdum hinna erlendu herliða, sem hér voru, en full ástæða var til að búast við, að slík atvinna hyrfi þegar minnst varði, og engum gat blandazt hugur um, að á þvílíkri atvinnu var ekki hægt að byggja í framtíðinni, og ef atvinnuleysið og vandræðin áttu ekki að ráða hér ríkjum strax og herliðin færu héðan eða hættu hér vinnuframkvæmdum, þá varð ríkisvaldið þá þegar að hefja undirbúning atvinnuframkvæmda í stórum stíl og gera ýmsar óhjákvæmilegar breytingar á atvinnulífi landsins, til þess að allir gætu haft vinnu og borið það úr býtum, sem lífskröfur nútímans heimta.

En gömlu þjóðstjórnarflokkarnir töldu að ekkert lægi á, og þrátt fyrir sífellt skraf þeirra um komandi hrun og atvinnuleysi, þá bólaði ekki á neinum ráðum frá þeim um gagnráðstafanir.

Þeirra stefna virtist vera að halda sem mest að sér höndum og streitast gegn tillögum um fjárframlög til atvinnutryggingar og aukins öryggis alþýðunnar.

Sósfl. bar fram við afgreiðslu síðustu fjárlaga ýmsar tillögur, sem miðuðu að atvinnuaukningu.

Megintillögur flokksins í þeim efnum voru drepnar, en hann fékk því þó til leiðar komið, að nokkur fjárhæð var áætluð til þess að mæta atvinnuleysi, ef það bæri að höndum.

Flokkurinn bar einnig fram till. um mjög veruleg fjárframlög til tryggingamála með sérstöku tilliti til þess, að tryggingamálalöggjöfin yrði endurskoðuð og endurbætt verulega.

Þjóðstjórnarflokkarnir gömlu voru ekki síður sljóir á nauðsyn þess að leggja fram fé til tryggingamálanna en til aukinnar atvinnu, og voru því allar tillögur okkar þar um drepnar við afgreiðslu fjárlaganna. En við afgreiðslu dýrtíðarlaganna tókst þó að fá nokkra upphæð lagða fyrir til tryggingarmálanna, svo nú er allmikið hægara um vik að framkvæma nauðsynlegar breytingar í þeim málum en annars hefði verið.

Þá er einnig að minnast í þessu sambandi á umleitanir okkar sósíalista um að fá lagt fram fé til þess að koma upp samvinnubyggðum eða sveitaþorpum með tilliti til þess að fullkomna framleiðslutækni landbúnaðarins.

Fjárveitingar í þessu skyni mættu einnig harðri mótspyrnu og urðu óverulegar.

En í stað raunhæfra aðgerða í þeim málum hefur meir borið á heimskulegum hártogunum og útúrsnúningum um þessar nauðsynlegu breytingar á landbúnaði okkar, og þeir menn, sem bezt hafa viljað íslenzku sveitafólki með tillögum þessum, hafa verið hundeltir fyrir skoðanir sínar og sérstaklega af launuðum fulltrúum bænda.

Þrátt fyrir það, að ekki tókst á s.l. vetri við afgreiðslu fjárl. að fá fram nýja stefnu, sem miðaði ákveðið að því að leysa aðsteðjandi erfiðleika og undirbúa atvinnuvegi þjóðarinnar undir að nýta til fulls vinnuorku landsmanna og bjóða þannig öllum sómasamleg lífsskilyrði við innlenda vinnu, sem byggja mætti á í framtíðinni, — þá vannst eigi að síður allmikið á, og óhætt er að fullyrða, að í mörg ár hafa þó ekki verið afgr. fjárlög, sem veittu jafnmiklu fjármagni til nauðsynlegra framkvæmda og viðurkenndu þó eins mikið og þessi fjárlög skyldur ríkisins til þess að hafa til atvinnu, ef atvinna brygðist. Og ýmsar smærri leiðréttingar fengust á fjárl. að þessu sinni, sem fram að því hafði ekki þýtt að nefna.

Engum dylst, sem með afgreiðslu fjárl. fylgdist, að aukinn styrkur sósíalista til áhrifa á afgreiðslu mála á Alþingi réð í þessum efnum úrslitum, þó að fjarri færi því, eins og við var að búast, að við gætum talið afgreiðslu fjárlaganna á þá lund, sem við hefðum ætlazt til.

Nú, þegar hér liggur fyrir nýtt fjárlfrv. með sama aðgerðaleysissvipnum og öll hin fyrri, og ákveða á um fjármála- og atvinnumálastefnu komandi árs, teljum við sósíalistar alveg sérstaka nauðsyn þess, að tekin verði upp ný stefna, er miði að eflingu atvinnulífsins og yfirleitt raunhæfum aðgerðum gagnvart þeim vandamálum, sem síðasta Alþingi hljópst frá og ég hef nú nokkuð greint frá.

Við höfum veitt því athygli, að með öðrum þjóðum er það nú mikið rætt og að því unnið að undirbúa gífurlegar atvinnuframkvæmdir að stríðinu loknu. Sömuleiðis fer nú fram skipulagning almennra trygginga hjá ýmsum þjóðum, og fullvíst má telja, að almennt verði lífsöryggi alþýðunnar stórkostlega aukið í flestum löndum að stríðinu loknu.

Við Íslendingar komumst ábyggilega ekki hjá því, fremur en aðrar þjóðir, að lífskröfur þjóðarinnar vaxa mjög frá því, sem þær voru fyrir stríð, og það er víst, að íslenzk alþýða líður það ekki, fremur en alþýða annarra landa, að atvinnuleysið eigi að taka við á ný, strax þegar ófriðnum er lokið.

Við verðum því strax að hefja undirbúning að því að mæta þessum nýju víðfangsefnum, er koma áður en varir.

Atvinnuvegir okkar eru nú flestir illa komnir og mjög ófærir um að tryggja öllum landsmönnum næga atvinnu og þau lífskjör, er menn nú almennt krefjast.

Okkur er það öllum ljóst, að landbúnaður okkar er rekinn með gersamlega úreltu fyrirkomulagi, og nýsköpun hans verður að eiga sér stað, ef fólkið, sem í sveitunum býr og að landbúnaði vinnur, á að lifa við sæmileg lífsskilyrði eða í samræmi við kröfur tímans.

Það verður þegar í stað að leggja fram verulegar fjárhæðir til þess að koma landbúnaðinum á framleiðsluhæft stig.

Ríkið þarf strax að eignast þær jarðir, þar sem sveitaþorpum er ætlað að koma. Slíka staði þarf að skipuleggja, og ríkið verður að ganga á undan og reisa þar ýmsar opinberar byggingar, svo sem læknisbústaði, skóla, fyrirmyndarbú o. þ. h. Jafnhliða slíkum framkvæmdum á þessum fyrirhuguðu þorpssvæðum munu án efa rísa upp verzlunarstöðvar og byggðin smám saman þéttast, og um leið mundu skapast aukin skilyrði til verkaskiptingar og stórvirkari vinnuaðferða á þessum stöðum. Með auknu þéttbýli til sveita mundi og sveitafólkinu skapast aðstaða til að njóta margra þeirra þæginda nútímans, sem strjálbýlið getur ekki veitt því, og ekki er ósennilegt, að þróun búnaðarins í þessa átt mundi reynast áhrifameiri vörn gegn flótta fólksins úr sveitunum en það kák, sem nú hefur einkum verið haft í frammi því til varnar.

Það hefur orðið hlutverk okkar sósíalista að benda á þá brýnu nauðsyn að þétta byggðina og notfæra sér með sambýlinu hin samvirku framleiðslutæki. Flestir hugsandi menn hafa játað, að þessi þróun landbúnaðarmálanna er óhjákvæmileg og sjálfsögð, en þrátt fyrir réttmæti þessara tillagna hafa ýmsir þeir menn, sem hingað til hafa talið sig réttkjörna forvígismenn bænda, reynt með flestum hugsanlegum ráðum að rangfæra þessar hugmyndir um þéttbýli sveitanna. Menn þessir, sem fengið hafa nær einráðir að stjórna landbúnaðarmálum þjóðarinnar í um 15 ár og skilið við atvinnumál sveitanna jafnlangt á eftir tímanum og raun ber vitni um, reyna í sífellu að æsa bændur gegn þessum tillögum. Þeir hafa reynt að túlka samfærslu byggðarinnar á þann hátt, að meining okkar væri að láta þegar í stað flytja allt sveitafólk, jafnvel með valdi, á nokkra tiltekna staði, og svo sé meiningin að leggja í eyði mikinn hluta af landinu. Okkur er einmitt ljóst, að breytt búskaparlag í landbúnaðarmálum okkar verður ekki tekið upp svo nokkru nemi, nema með þróun, en einmitt af þeim ástæðum þarf líka strax að hefjast handa og beina þróuninni inn á rétta braut.

Þá hafa andstæðingar okkar sósíalista haldið því að bændum, að með þessum tillögum okkar um breytt búskaparlag í sveitum værum við í rauninni að svívirða sveitastörfin og níða niður þá menn, sem í sveitunum starfa. Og í því sambandi hefur okkur verið borið á brýn, að við sæjum ekki skussaskapinn í vinnubrögðunum í bæjunum.

Bændum er hreint enginn greiði gerður með slíkum málaflutningi sem þessum. Það er vitanlega fásinna að fara í heimskulegan samanburð á því, á hvorum staðnum, í sveit eða við sjó, sé meir til af úreltum atvinnutækjum eða hvorum megin framleiðslutækni sé lengra á veg komið. Aðalatriðið er að viðurkenna í þessu hið sanna og reyna að koma fram nauðsynlegum úrbótum.

Okkur sósíalistum er fullkunnugt um, hvernig ástandið í þessum efnum er í kaupstöðunum og hvernig t. d. mætti með auknu skipulagi og bættum framleiðslutækjum auka stórkostlega afrakstur þeirra, sem að fiskframleiðslu vinna. En það er alveg sérstaklega nauðsynlegt, að bændum almennt skiljist, að stórfelldra breytinga er þörf í atvinnumálum þeirra, ef þeir í framtíðinni eiga að fá notið þeirra lífsþæginda, sem þeir réttilega eiga kröfu til og þeir nú heimta. Vitanlega skiptir það enga eins miklu og sveitafólkið sjálft, að framleiðsluafköst í landbúnaðinum verði aukin, því að þótt nú á þessum tíma og með þeim ráðum, sem til hefur verið gripið, hafi tekizt að tryggja bændum sæmileg lífskjör, þá er alveg víst, að þau framleiðsluafköst, er nú eru í okkar sveitabúskap, geta ekki í framtíðinni haldið uppi slíkum lífskjörum.

Með aukinni atvinnu í þorpum og kauptúnum úti um land mundi verkamönnum þar tryggð hliðstæð aðstaða og hér hefur verið í Reykjavík og bændum nú hefur verið tryggð. Og með aukinni skipulagningu útgerðarinnar, svo sem með því að fiskimenn fái að njóta hins raunverulega söluverðs fiskjarins og með því að fiskverðið fái haldizt í því raunverulega verði, sem um var samið fyrir rúmu ári síðan, miðað við útgerðarvöruverð, mundi mega tryggja fiskimönnum hliðstætt kaup og bændum og fastlaunamönnum.

Það má öllum vera ljóst, að þessi launakjör geta ekki staðizt nema stuttan tíma, ef framleiðsluafköst í atvinnuvegum okkar breytast ekki verulega frá því, sem þau hafa verið, enda er það auðvitað óeðlilegt í sjálfu sér að tryggja hátt kaup fyrir nauðalítil framleiðsluafköst.

Við verðum að gera okkur ljóst, að ef við viljum njóta lífsþæginda nútímans, þá verðum við jafnframt að tileinka okkur vinnutækni hans.

Eins og ég gat um í upphafi, sýnir fyrirliggjandi fjárlfrv. hæstv. ríkisstj. fullkomið skilningsleysi gagnvart þeim stóru vandamálum, sem ég hef hér einkum gert að umtalsefni. Fjárlfrv. vanrækir ekki aðeins að leggja fram fé til þessara mála, heldur dregur það beinlínis úr framlögum til verklegra framkvæmda.

Til vegagerða er áætlað að verja á aðra milljón kr. lægri upphæð en er í fjárlögum þessa árs. Það vekur einnig sérstaka undrun, að einkum virðist vera dregið úr framlögum til ýmissa þeirra vega, er síðasta þing lagði áherzlu á að verja fé til, svo sem að koma einum mesta útgerðarbæ landsins, Siglufirði, í vegasambandið. Sama er að segja um framlag til þess að koma Vestfjörðum í samband, lagningu Krísuvíkurvegar, Oddsskarðsvegar o. fl., o. fl.

Til hafnarmála og vitamála er varið aðeins þriðjungi þess, er áætlað var í síðustu fjárlögum. Framlag til byggingar nýrra vita er einnig lækkað og var þó til skammar lágt. Til íþróttasjóðs, sem hefur með höndum stórfelldar framkvæmdir um byggingar íþróttamannvirkja, er framlagið ekkert hækkað og aðeins veitt tæplega helmingur þess, sem íþróttanefnd ríkisins taldi nauðsynlegt.

Fleiri dæmi mætti nefna um minnkandi framlög til verklegra framfaramála samkv. þessu frv., sem hér er ekki tími til að rekja nánar.

Ég hef lýst því, að við sósíalistar teljum, að stefna beri í aðra átt en frv. þetta gerir. Við munum leggja til, að tillag til verklegra framkvæmda og menningarmála verði stórum hækkað, en alveg sérstaklega munum við þó leggja áherzlu á, að með ríflegum fjárveitingum verði reynt að efla atvinnuvegina og fullkomna framleiðslutækni þeirra.

Engu skal um það spáð, hvaða afdrif þetta frv. fær, en ekki þætti mér ólíklegt, ef dæma má af reynslunni, að meir muni bera á togstreitu hinna valdameiri flokka um beina styrki úr ríkissjóði til einstakra atvinnuhópa en viðleitni til þess að breyta framleiðslutækni atvinnuveganna, svo að þeir, sem við þá vinna, fái notið sæmilegs kaups.

Mér kæmi ekki ókunnuglega fyrir sjónir, þótt kröfur um lækkun kaups verkamanna og þá einnig kaups bænda yrðu háværari og af meira kappi sóttar en tilraun til þess að leyfa bæði verkafólki og bændum að njóta núverandi kaups með því að gera framleiðsluna færari en hún nú er að bera slíkt kaup.

Leiðin á ekki að vera sú að lækka kaup fólksins niður í það, sem illa rekin atvinna og úr sér gengin vinnutækni þolir, heldur hin, að fullkomna svo vinnutæknina, að framleiðslan geti boðið þeim, sem að henni vinna, sómasamleg lífskjör, annars hlýtur líka sú framleiðsla fyrr eða síðar að deyja.