21.04.1943
Sameinað þing: 6. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (2008)

11. mál, samþykki til frestunar á fundum Alþingis

Forsrh. (Björn Þórðarson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram till. þá til þál., sem nú er til umr., þess efnis, að fundum yfirstandandi Alþ. verði frestað samkv. 19. gr. stjskr. frá deginum í dag þar til síðar á árinu, þó ekki lengur en til 1. september n. k.

Er leið að lokum aukaþ., sem slitið var 14. þ. m., kom það berlega fram í ummælum margra þm. bæði utan þings og innan, að Alþ. það, er nú situr, mundi eigi kjósa að eiga langa setu á þessu vori, enda var það auðsætt, að þingið hlyti að koma saman aftur í haust fyrst og fremst til afgreiðslu fjárlaga, þar sem þess er enginn kostur á þessum tímum hinnar miklu óvissu að afgreiða fjárlög ársins 1944 fyrr en seint á yfirstandandi ári.

Þar sem svo vill til, að bænadagar og páskar fara í hönd og margir þeirra hv. þm., sem heima eiga utan Reykjavíkur, mundu fara heim í páskaleyfinu, þá virtist liggja beinast við að athuga, hvort fresta ætti fundum þingsins einmitt nú eða hvort fundir skyldu hefjast aftur á ný þegar upp úr páskum.

Daginn eftir þingsetning, þ. e. á föstudaginn var, átti ég tal við formenn allra þingflokkanna um málið. Formaður Sjálfstfl., hv. þm. G.-K., tjáði mér þá, að þessi flokkur teldi réttast, að frestunin færi fram fyrir bænadagana. Formenn annarra flokka höfðu þá ekki kynnt sér svo hug flokksmanna sinna, að þeir gætu gefið ákveðin svör.

Laugardaginn 17. þ. m. voru lögð fram í þ. í báðum d. nokkur frv. til l., sem borin voru fram af hálfu nokkurra hv. þm. Þar sem hér er um merkileg og mikilvæg mál að ræða, sem ljóst er, að þurfa rannsóknar við, og mál, sem geta valdið ágreiningi, hélt ég áfram eftirgrennslan um það meðal þingflokkanna, hver mundi vera vilji þingsins um frestun funda þess. En þetta var mikið atriði fyrir stj. að vita, því að ef fundum er strax haldið áfram að liðnum páskum, mundi hún nota hléið um páskana til þess að hraða undirbúningi frv. til þess að leggja fyrir þ., er það kæmi saman, en láta þann undirbúning ella dragast.

Af því að ég tel mig hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að það sé vilji meiri hl. þ., að fundum þess sé frestað frá þessum degi, hef ég leyft mér að bera till. fram.

Í till. segir, að fundum skuli ekki frestað lengur en í síðasta lagi til 1. sept. n. k. Er þetta tímamark tiltekið aðallega vegna þess, að samkv. l. frá 14. þ. m., um dýrtíðarráðstafanir, skal sex manna n. sú, sem í þeim l. greinir, hafa lokið störfum og skilað áliti til stj. fyrir 15. ágúst, og framlög til verðuppbóta, sem sömu l. heimila, falla niður 15. september.

Hver sem málalok verða í n., þykir það einsýnt, að þ. megi ekki koma síðar saman en í till. segir, og þau atvik kann og að henda, að stj. þyki ástæða til, að þ. verði fyrr kvatt til funda, ef frestun fer fram nú.