21.04.1943
Sameinað þing: 6. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í D-deild Alþingistíðinda. (2010)

11. mál, samþykki til frestunar á fundum Alþingis

Ólafur Thors:

Sjálfstfl. mun standa einhuga að samþykkt þessarar till., sem forsrh. flutti og gerði grein fyrir áðan, og við sjálfstæðismenn finnum ástæðu til þess að fagna því, að till. hefur verið borin fram og að það mun vera fyrir hendi þingvilji til þess, að hún nái samþykki. Ég geri ráð fyrir, að ef nú væri kannaður vilji þjóðarinnar í þessu efni, mundi sannast, að einnig hennar vilji er sá, að þinginu verði nú frestað. Það er, eins og kunnugt er, nýlokið lengstu þingsetu í sögu okkar, og á s. l. ári átti Alþ. auk þess óvenjulega langa setu. Þetta síðasta þ., sem lokið var þann 14. þ. m., hefur hins vegar ekki verið jafnatkvæðamikið og notadrjúgt þjóðinni og það hefur verið kostnaðarsamt, og það er engum vafa undirorpið, að það er langsamlega bezt fyrir þingið, að ekki verði reynt nú frekar en orðið er á þolinmæði kjósenda í landinu með þrásetu. Ég held, að ég megi líka fullyrða, að fram á síðustu daga fyrra þingsins eða allt fram undir þinglokin var það almennt vilji þm., a. m. k. meiri hl., að þetta þing ætti skamma setu. Svo var það á síðustu dögum þingsins, að vinstri flokkunum lenti saman og sló í sennu milli þeirra. Þeir höfðu, eins og kunnugt er, setið á fundum með það fyrir augum að ná samkomulagi um stj., en það hafði ekki leitt til neinnar niðurstöðu, og menn fengu nokkra innsýn í samstarfsvilja þessara flokka, bæði í Ed. og Nd., á næstsíðasta degi þingsins. Eftir þessar umr., þegar vinstri flokkarnir höfðu borið hver annan brigzlum út af skattamálunum, af því að þeim þótti hinir ekki nógu skeleggir að sækja það, sem eftir kynni að vera í vösum skattborgaranna, og þegar þeir brýndu hver annan til stórræða um að sækja nú það fé, sem þarna hefði orðið eftir, þá hétu þeir því, að hinir skyldu fá tækifæri til þess að sýna nú, hvort hugur fylgdi máli, strax þegar þ. kæmi saman. Það var líka fyrsta verk þessara flokka, þegar þ. kom saman, að þeir báru fram skattafrv., sem áreið anlega er sérstakt í þingsögu okkar. Það er eins og þetta sé sjúkleiki í þessum mönnum. Þeir geta enga grein gert sér fyrir því, hvað eigi að gera við peningana, en þeir vilja bara ekki vita af þeim annars staðar en í ríkissj., úr því að þeir eru ekki í vösum þeirra. Ég hef oft undrazt það, hvernig þessi sjúkdómur hefur heltekið þá, og ég held., að ekki þurfi að fara inn á svona einstaka braut til þess að afla ríkissj. tekna, því að það er vitað, að afkoma ríkissj. á árinu 1942 var betri en áður, og það er vitað, að árið 1943 verður einnig gott. Hins vegar er víst, að það er ógætilegt spor að stíga að ætla að leggja eignaaukaskatt á, ekki sízt í þjóðfélagi eins og hér, þar sem framtíð þjóðarinnar veltur mjög á því, að ekki sé brotin niður viðleitni einstaklinganna til fjáröflunar. Og ég er ákaflega hræddur um, að ef enn á að bæta við skattana, verði skattsvik í enn ríkara mæli en nú er. Enda er það mjög alkunna og sagt hér í hliðarherbergjum þingsins, að það þykir ekki meiri ósómi núna að svíkja undan skatti en það þótti hér áður að smygla áfengi, og það er af því, að það er búið að herða svo hnútana, að það er komið upp úr hjá öllum. Þetta þykir þessum mönnum samt ekki nóg, því að nú á að koma og sækja það, sem kann að hafa orðið eftir í vösum manna með heiðarlegu eða óheiðarlegu móti. Ég var nýlega að lesa í amerísku blaði frásögu um skattal., sem þar gilda. Roosevelt forseti er tvisvar búinn að snúa sér til Congressins og fara fram á, að enginn einstaklingur megi hafa meira en 25 þús. dollara eða 160 þús. kr. á ári skattfrjálst. Í bæði þessi skipti hefur honum verið synjað um þetta. Rök hans eru þau, að þegar Bandaríkin senda sonu sína út á vígvellina, yrði að ganga inn á þessa braut, að banna einstaklingum að hafa meira en 25 þús. dala tekjur, en barnlaus hjón máttu hafa 50 þús. dali eða nokkuð á fjórða hundrað þús. kr. nettó. Það er að segja, að sá maður, sem hefur 430–440 þús. kr., má halda eftir 160–170 þús. kr. tekjum. Mér er sem ég sæi framan í þessa þm. hér, ef menn mættu halda eftir 170 þús. kr. Ég býst við að það yrði þung raun fyrir þá, sem skeleggastir eru.

Það er ástæða til að minnast á það, að það kom til orða að halda áfram þinginu einungis vegna þess, að vinstri flokkarnir töldu sig þurfa að sýna manndóm sinn og innræti í skattamálunum. Og þeir hafa sannarlega gert það með því að koma fram með þetta frv. Um það liggur málsmeðferðin fyrir. Sú staðreynd, að þetta mál er fram borið, hefur orðið til þess, að nokkur hl. þ. hefur talið, að ekki ætti að fresta þ., en það er þó svo, að nokkrir þm., sem voru móti frestun, hafa nú fallizt á frestun, vegna þess að það er vitað, að það er sá almenni vilji í landinu, að ekki verði farið að sitja vikum eða mánuðum saman á þingi, og þó sérstaklega, ef ekki er annað betra eða þarflegra verk fyrir hendi en þessi skattalög.

Það gætu verið ein frambærileg rök fyrir, að fresta ekki þingi núna. Það væri, ef þm. féllust á að ganga endanlega frá sjálfstæðismálinu. Eins og kunnugt er, hefur stjórnarskrárn. gengið frá áliti, og gæti nú vel komið til athugunar að stíga lokasporið. En ég verð að segja, að ég sé ekki, að af því þyrfti að hljótast tjón, þótt málinu verði ekki lokið fyrir þingfrestunina. Eins og till. ber með sér, er ætlazt til, að þ. komi saman 1. sept. Ef við viljum ljúka málinu, er okkur það í lófa lagið, láta þjóðaratkvæðagreiðsluna fara fram um miðjan september og taka svo síðasta sporið á þessari langþráðu göngu. En það er líka sjónarmið, að því nær sem dregur árslokum 1943, því fleiri verða það, sem kunna að ala á því að ljúka ekki málinu fyrr en 1944. Ég er ekki að segja skoðun mína eða flokks míns, en ég segi, að ég hef orðið var við þetta eðlilega sjónarmið, þó að ég viti, að allmikil rök geti fært okkur heim sanninn um það, að sérhver dráttur í þessu máli geti verið hættulegur. En sem sagt, ég held ekki, að málið sé í neinni hættu, þar sem þ. kemur saman 1. sept., og þá ætti að vera búið að gera út um, hvort við viljum ljúka málinu á haustþinginu eða láta það bíða þangað til eftir áramót. En engin önnur rök frambærileg verða færð fyrir því, að Alþ. eigi nú enn að hafa langa setu að sinni.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, geri ráð fyrir, að þeir flokkar, sem um þetta deila, færi fyrir frestuninni rök og gagnrök, en það kemur ekki mál við mig, sama er mér, hvað þeim fer á milli í þessum efnum. Þó munu einhverjir flokksbræður mínir taka til máls síðar, ef umr. gefa tilefni til.