23.11.1943
Neðri deild: 52. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (2030)

34. mál, erfðalög

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Ég þarf litlu að bæta við það, sem ég sagði í minni fyrri ræðu. Ég skal þó aðeins, út af því, sem hæstv. forsrh. sagði, að umsögn lagadeildar hefði átt að vera meira leiðbeinandi fyrir þingið, taka það fram, að lagadeildin taldi ekki, að henni hefði verið falið að semja erfðalöggjöf, en hún leit svo á, að það þyrfti talsvert víðtæka breyt. á frv., til þess að hún gæti fellt sig við afgr. þess. Hún var spurð um það, hvort hún teldi rétt að afgr. málið nú, en hún leit svo á, að málið þyrfti frekari undirbúnings og ekki væri rétt að afgr. það á þessu þingi. Hins vegar lætur hún í ljós í umsögn sinni, hvaða atriði það eru, sem helzt þurfi að taka til athugunar. Hæstv. forsrh. sagði, að það væri eitt, sem lagadeildin væri ákveðin í, og það væri, að nefnd lögfræðinga væri falið að endurskoða erfðalöggjöfina. Þetta er aðeins orðað þannig: „Að því athuguðu, sem hér að framan er sagt, telur deildin æskilegt, að nefnd lögfræðinga verði falið að endurskoða erfðalöggjöfina ýtarlega og gera síðan tillögur um breyt. á henni eins fljótt og unnt er“. Hins vegar er allshn. þeirrar skoðunar eftir viðtal við hæstv. forsrh., að það geti verið full ástæða til þess, að aðrir menn en lögfræðingar ættu sæti í n. Þess vegna er hin rökst. dagskrá allshn. orðuð eins og hún er. Þar er hvorki. talað um nefnd lögfræðinga né nokkra n., heldur er ríkisstj. aðeins falið að láta fram fara gagngera endurskoðun, eftir því, sem hún telur bezt henta. Hæstv. forsrh. virtist skilja þessa afgr. þannig, að við í allshn. teldum undirbúning þessa frv. svo áfátt, að ekki væri við hlítandi, en það er kannske fullsterkt að orði kveðið. Hæstv. forsrh. vildi taka það fram, að hann eða þeir, sem undirbjuggu þetta mál, hefðu litið svo á, að mörg ákvæði í hinni gömlu erfðatilskipun mættu standa óbreytt, ekki af neinu undirbúningsleysi, heldur af því, að þeir væru þeirrar skoðunar eins og lagadeild —, að frekar þyrfti að breyta orðum en efni. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um málið.