21.04.1943
Sameinað þing: 6. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í D-deild Alþingistíðinda. (2041)

11. mál, samþykki til frestunar á fundum Alþingis

Jónas Jónsson:

Ég vil út af þessari brtt. aðeins benda á það, að það er náttúrlega alveg rétt, sem hæstv. forsrh. tók fram, að það, sem þessari ríkisstj. ber að gera að réttum l., er að koma fram eins og þingræðisstjórn. Þar af leiðir, að henni ber ekki skylda til þess að fá hvern einasta þm. til þess að vera með brbl., sem hún kynni að gefa út, fremur en venjulegri þingræðisstjórn. Þessi brtt. er frá kommúnistum til þess að reyna að koma á hér ástandi eins og var í Póllandi, þegar einn þm. gat eyðilagt allt, sem aðrir vildu. Þess vegna álít ég orð hæstv. forsrh. nægilega tryggingu fyrir starfi ríkisstj. í þessu efni, ef til kemur. Í þeim liggur það, að ef gefin verða út brbl., þá sé tryggður fyrir þeim meiri hl. á Alþ. En hitt væri ekki ástæða til að tryggja, að þeir menn, sem vilja þingræðið feigt og byggja allt starf sitt á því, geti komið í veg fyrir setningu l., sem hafa meiri hl. fylgi á Alþ. Þess vegna á ekki að samþ. þessa till.