01.10.1943
Neðri deild: 26. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í C-deild Alþingistíðinda. (2054)

7. mál, minkaeldi o.fl.

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason) :

Hv. þm. Borgf. talaði svo skörulega fyrir sínu máli, að það er ekki þörf á að bæta um það, en ég vil þó segja örfá orð til viðbótar.

Eins og hv. þm. Mýr. (BÁ), frsm. meiri hl., sagði, er ágreiningurinn í landbn. um það, hvort hætta eigi á að halda þessum atvinnurekstri áfram þrátt fyrir þá hættu, sem af því stafar fyrir öll önnur dýr í landinu, og í öðru lagi er ágreiningur um það, hve mikil arðsvon er af þessum atvinnuvegi, ef hann verður leyfður áfram. Það má líta svo á, að þótt hagnaður sé af þessu í ár, sé engan veginn víst, að um framtíðaratvinnuveg sé að ræða, sem geti gefið góðar tekjur framvegis. Sú framleiðsla, sem hér er um að ræða, er tízkuvara og getur verið óseljanleg að ári, þótt hún sé seljanleg í ár, og eins og ég tók fram í ræðu minni í gær, álít ég heppilegan tíma til þess að taka þetta mál nú þeim tókum, sem unnt er. Nú er það upplýst, að nú þegar er búið að veiða villiminka, svo að hundruðum skiptir, og það er einnig upplýst, að á því tímabili, sem minkaeldi hefur verið hér á landi, sem mun vera nálægt 13 árum, — þeir eru fyrst fluttir inn árið 1930, og er það þannig til komið, að einn þáv. þm. fékk styrk veittan af þáv. stj. til þess að fara til útlanda og kaupa inn þessi dýr, — að á þessu tímabili hefur þessi atvinnuvegur verið eftirlitslaus að nokkru leyti og að nokkru leyti undir ófullnægjandi eftirliti. Nú er það álit okkar, sem viljum samþykkja þetta frv., að engin trygging og litlar líkur séu fyrir því, að hægt sé að útrýma villiminkum, ef haldið verður áfram að leyfa þennan atvinnuveg í landinu með þeirri hættu, sem er á því, að minkarnir sleppi úr haldi, hvenær sem vera skal, því að eins og hv. þm. Borgf. benti á, er ekki nægilegt að búrin séu sterk, heldur geta veður alltaf valdið skemmdum og minkarnir sloppið út, og að reka svona hættulegan atvinnuveg er meiri hætta en svo, að við teljum hyggilegt að mæla með því, vegna þess mikla háska, sem stafar af þessum dýrum fyrir önnur dýr í þessu landi. Í fyrsta lagi held ég, að allt okkar æðarvarp geti verið í hættu, ef villiminkur á að verða hér viðloðandi, í öðru lagi, eins og bent hefur verið á, er nytjafiskur okkar í vötnum og ám í hættu svo og alifuglar og smálömb. Ég álít tilgangslaust að ræða mikið um þetta, því að einn getur sagt svart það, sem annar segir hvítt, þótt reynslan sé búin að skera úr um það. Ég skal þá víkja að brtt. á þskj. 116, og verð ég að segja það, að mér finnst það litlu skipta fyrir þetta mál, hvort sú brtt. er samþykkt eða hin rökst. dagskrá, sem meiri hl. landbn. hefur flutt. Hvort tveggja er um að vísa málinu frá, án þess að gera nokkrar ráðstafanir umfram það, sem áður hefur verið. Í fyrri hl. þessarar till. er talað um, að fræðimenn rannsaki, hvaða ógagn villiminkar geri. Það er það, sem þeir hafa þegar gert. Tveir fræðimenn hafa gert það, Árni Friðriksson og Guðmundur Bárðarson hafa báðir rannsakað þetta og leggja til, að þessum dýrum verði útrýmt úr landinu. Það eru ekki til aðrir fræðimenn um þetta, svo að þessi ákvörðun væri til þess að skipa þessum mönnum að láta uppi annað álit en þeir eru búnir að.

Varðandi hitt, að endurskoða loðdýral., er um það að segja. að það er það, sem þessir menn, sem flytja hina rökstuddu dagskrá meiri hl. landbn., lofa með sinni dagskrá, að gert verði, en maður á eftir að sjá, ef þetta frv. verður fellt. hverjar þær breyt. verða og að hve miklu haldi þær koma. Sem sagt, ég tel litlu máli skipta, hvort þessi brtt. eða dagskrártill. verður samþykkt, því að það er hvort tveggja í sömu átt, að gera engar ráðstafanir, og það hefur sýnt sig, að það hefur orðið töluverður árangur af útrýmingu villiminka, þótt það hafi ekki borið þann árangur, sem nauðsynlegur er til þess að útrýma þessum dýrum að fullu.

Ég skal svo láta þetta nægja. Ég geri ráð fyrir, að atkvæði séu nokkurn veginn ráðin um það, hvort þetta frv. á fram að ganga eða ekki, og þá kann að vera, að þm. fái síðar á þessu þingi eða næsta að taka afstöðu til þeirra ráðstafana, sem þeir menn vilja gera, sem vilja ekki taka ákvörðun í þessu máli með því að banna þennan atvinnuveg og útrýma minkunum úr þessu landi.