21.10.1943
Efri deild: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í C-deild Alþingistíðinda. (2061)

44. mál, verðlag

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Máli þessu var vísað til allshn., og hefur hún haft það til meðferðar um nokkra hríð, og hefur það tekið svo langan tíma vegna þess, að leitað var til viðskiptaráðs og verzlunarráðs um það og síðan til flm. Er n. hafði fengið þessa álitsgerð og athugað gaumgæfilega, komst hún að þeirri niðurstöðu, að í frv. sjálfu, eins og það liggur fyrir, væri ekki falin nein frekari heimild en þegar er í l., vegna þess, að þótt í 1. gr. frv. sé orðað svo sem þar sé um skyldu að ræða fyrir viðskiptaráð að setja skilyrði, eftir því, sem ástæða kann að þykja til á hverjum tíma, er sá, sem á að meta, hvort ástæða er til þess á hverjum tíma, viðskiptaráð sjálft, svo að það, sem hér er orðað sem skylda, er ekki annað en heimild. Hins vegar er í 4. tölul. 2. gr. laga nr. 1 16. jan. 1943, um innflutning og gjaldeyrismeðferð, sagt, að viðskiptaráð úthluti innflutningi á vörum til innflytjenda og setji þau skilyrði um hann, sem nauðsynleg kunna að vera eða verða vegna ófriðarástands eða viðskiptaskilyrða. Þarna er viðskiptaráði heimilað að setja þau skilyrði á innflutningsleyfin, sem nauðsynleg kunna að vera eða verða vegna ófriðarástands eða viðskiptaskilyrða, en að setja þann fyrirvara á innflutningsleyfin, að sá, sem innflutninginn fær, skuli skyldur til að selja vissan hluta með heildsöluverði, fær að n. áliti ekki staðizt, nema því aðeins, að ófriðarástand og viðskiptaástand gefi tilefni til þess. En þegar viðskiptaástandið gefur ástæðu til, að slíkur fyrirvari sé settur, er einnig ótvíræð heimild í gildandi l. til þess að setja fyrirvara, þ. e. a. s., n. telur tvímælalaust, að nægilega glögg heimild sé til þeirra ráðstafana, sem flm. telur nauðsynlegar, og raunverulega eins glögg og í frv. hans. Hitt vill n. taka fram, að hún gerir ráð fyrir, að það sé nauðsynlegt, a. m. k. undir vissum kringumstæðum, að setja slík skilyrði í innflutningsleyfi, en viðskiptaráð verður að sjálfsögðu að meta það eftir þekkingu sinni og eftir þeim óskum, sem það fær frá kaupmönnum úti um land, hvort ástæða sé til að setja slíkan fyrirvara eða ekki. Um það er ekki hægt að gefa neina almenna óbrigðula reglu, heldur verður það að vera á valdi viðskiptaráðs, og yrði þá frv. það, sem hér liggur fyrir, ekki um það, að slík heimild sé fyrir hendi, heldur einungis um það, að heimildin sé nægilega glögg. Flm. hefur fallizt á, að svo kunni að vera, en vitnar í, að viðskiptaráð hafi ekki talið heimildina nægilega glögga. Í álitsgerð viðskiptaráðs kemur í ljós, að viðskiptaráð telur, að heimildin sé fyrir hendi, og telur æskilegt, að hún sé það og sé skýr, en það verður að teljast, að hún sé til, svo að ekki verði um villzt, sem sé, að þegar ófriðarástandið geri það nauðsynlegt, þá hafi viðskiptaráðið heimildina. Þetta varð til þess, að n. leggur til, að frv. sé afgreitt með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá, með leyfi hæstv. forseta:

Þar sem deildin telur, að viðskiptaráð hafi þegar glögga heimild til ráðstafana þeirra, sem í frv. greinir, telur hún ástæðulaust að samþykkja frv. og tekur fyrir næsta mál á dagskrá“.

Ég vil geta þess fyrir n. hönd, að svo fremi sem viðskiptamálaráðherra kynni að vera á þeirri skoðun, að viðskiptaráð hafi ekki nægilega glögga heimild í þessu sambandi, vildi n. áskilja sér rétt til þess að taka málið upp aftur til endurnýaðrar athugunar. Ég fyrir mitt leyti held, að þess þurfi ekki og viðskiptaráð hafi skýra heimild, en n. vill áskilja sér rétt til að taka málið upp að nýju, ef ráðh. liti öðrum augum á lagahlið málsins. N. vonar þó, að svo muni ekki vera, en vonar, að dagskráin verði samþykkt og málið þar með afgreitt.