21.10.1943
Efri deild: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (2062)

44. mál, verðlag

Gísli Jónsson:

Ég vil í fyrsta lagi þakka n. fyrir þá vinnu, sem hún hefur lagt í þetta mál, og þann skilning, sem hún hefur á nauðsyn þess. Hitt er vitanlegt, að það hefði fyrir löngu átt að vera búið að afgreiða þetta frv., eins og ráðh. lofaði, og vil ég því, áður en lengra er haldið, minnast á þær tafir, sem orðið hafa á þessu máli. Því var vísað til 2. umr. 16. f. m., og hefur verið upplýst, að viðskiptaráð og verzlunarráð hafa dregið svo lengi að senda umsagnir sínar, og verður að telja mjög vítavert, þegar slíkum stofnunum eru send erindi, að þær taki sér það vald að halda þeim til þess að tefja málið, eða svara hlutdrægt, eins og kemur fram í svari Verzlunarráðs Íslands, og vænti ég, að þingið standi vel á verði til þess að fá svör við erindum sínum innan sanngjarns tíma. Að svo mæltu ætla ég að snúa mér beint að málinu.

Niðurstaða n. er sú, að það sé nauðsynlegt, að þessi skilyrði séu skráð á innflutningsleyfin. Ég veit, að þetta er að verða hreint og beint kvalræði fyrir um 40% af landsmönnum. Það er ekki lítið atriði fyrir þessa menn að geta fengið þessar vörur beint til sín, t. d. hér í heildsölu, í stað þess að tína þær saman á venjulegu smásöluverði eða með enn lakari kjörum. Ég vil taka til dæmis eina teg. eins og alls konar saum, sem undanfarin ár hefur ekki verið hægt að flytja inn nema í 100 tonnum. Segjum, að innflytjendur hefðu getað notað sér þessa aðstöðu. Eftirspurnin er svo mikil, að hægt hefði verið að selja hann í smásölu, eins og hitalagnir, dúka, rafmagnsvörur. Ég er alveg undrandi á því, að viðskiptaráð skuli hafa skotið sér undan þessari skyldu. Álit fjmrh. var á síðasta þ. það sama og nú kemur fram hjá allshn., að viðskiptaráð hafi þegar í l. um innflutning og gjaldeyrismeðferð heimild til að setja þau skilyrði, sem í frv. mínu greinir, og við umr. um till., sem ég hafði borið fram, lofaði hann að sjá svo um, að viðskiptaráð framkvæmdi þessi atriði eins og l. stæðu til. Þess vegna dró ég till. mína til baka og þó ekki fyrr en hæstv. ráðh. hafði endurtekið ummæli sín, en svo fæ ég það svar hjá viðskiptaráði, að það bresti heimild til þessa. Ég veit ekki, hvort viðskiptaráð hefur viljað draga málið eða hvort það er ekki betur að sér um lagahlið málsins en þetta. Hæstv. fjmrh. virðist hafa breytt um skoðun frá í fyrra, svo að ég get ekki fellt mig við, að málið verði afgreitt hér, nema fram komi ótvíræð yfirlýsing frá fjmrh. um, að hann láti nú þegar fyrirskipa viðskiptaráði að skrá slíkar aths. á innflutnings- og gjaldeyrisleyfin og að heimild verði til að ráðstafa hluta af innflutningnum til annarra aðilja með heildsöluverði. Komi skýr yfirlýsing frá ráðh. í þessa átt, get ég sætt mig við rökst. dagskrána.

Ég vil aðeins fara nokkrum orðum um álit,. sem kom frá viðskiptaráði í sambandi við þetta mál. Ég benti á í mínu frv., að það væri mjög auðvelt, ef þetta væri sett á leyfin, að viðkomandi innflytjandi fengi skráð á þau, að hve miklu leyti ráðið teldi sig þurfa að nota þá vöru, sem um væri að ræða. Mér finnst þetta afar einfalt og ástæður viðskiptaráðs fjarri sanni. Ef lægi hjá ráðinu beiðni um útvegun til afskekkts staðar á timbri og ráðið gæti ekki uppfyllt óskina, en afgreiddi á sama tíma leyfi til timburinnflutnings, sem selt væri í smásölu, væri ekki erfitt að ákveða um leið, að t. d. 10% skyldi ráðstafað af viðskiptaráði, þegar varan væri komin til landsins. Þetta væri vel hægt.

Öll grg. viðskiptaráðs ber með sér, að það er á móti þessum ráðstöfunum, og því er enn meiri ástæða til að búa svo um hnútana, að þetta verði lagfært.

Fskj. er stílað af þeim barnaskap og eiginhagsmunasjónarmiði, að það er undarlegt, að stofnun, sem vill láta taka sig alvarlega, skuli leyfa sér að skrifa slíkt til Alþ. Þar kemur aðeins fram útúrsnúningur og takmarkalaus eigingirni.