26.10.1943
Neðri deild: 38. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í C-deild Alþingistíðinda. (2080)

62. mál, eignarnámsheimild á Nesi í Norðfirði

Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson) :

Ég get ekki um borið, hvers er vænzt af bæjarstjórn Neskaupstaðar, en ég veit, að væri henni mikið áhugamál að fá málið leyst, hefði hún getað gert einhverjar frekari ráðstafanir við þá, sem svöruðu, því að af því, sem farið hefur á milli bæjarstjórnarinnar og þeirra, sem svöruðu, sést, að bæjarstjórnin hefur ekki mikið reynt til að ná samkomulagi. Það tíðkast, þegar um kaup og sölu er að ræða, að menn tali saman um málin, en sendist ekki bara á tilboðum.

Ég hugsa, að það kunni að bera nokkuð á milli okkar meirihlutamanna og hv. 6. landsk. um það, hvernig nota eigi heimildina. Hann getur hugsað sér, að það ætti að heimila eignarnám með allsherjarlöggjöf. Ég er honum alveg ósammála þar. Hverjir ættu að dæma? Bæirnir sjálfir? Stundum er eignarnámsheimild alveg réttmæt, ef bæirnir færu vel með vald sitt, en það er engin trygging fyrir slíku. Hingað til hefur Alþ. metið nauðsynina og veitt heimild í hverju einstöku tilfelli, og það eru áreiðanlega margir á Alþ., sem álíta, að hyggilegra sé, að sú regla gildi enn.

Hv. 6. landsk. þm. efast um, að n. vilji veita slíka heimild yfirleitt, en hann hefur ekkert fyrir sér í því. Það er ómögulegt að halda því fram með nokkrum rétti eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, að bæjarstjórnin hafi gert mikið til samkomulags. Það getur varla minna verið, sem hún hefur gert.