15.11.1943
Efri deild: 48. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í C-deild Alþingistíðinda. (2086)

22. mál, friðun Patreksfjarðar fyrir skotum

Gísli Jónsson:

Herra forseti: Hv. allshn. hefur eftir rúma tvo mánuði komizt að þessari niðurstöðu um svona einfalt mál, og verður að víta þá málsmeðferð yfirleitt. Slík vinnubrögð í þ. eru óverjandi, og er óskandi, að hæstv. forseti sjái til þess, að það komi ekki fyrir, að n. leyfi sér að setjast á mál í 8 vikur, sem ekki þarf að taka meiri tíma en þetta smámál.

Að því er snertir niðurstöðu n., hefði ég óskað, að dagskrártill. væri fyllri. Þar stendur aðeins, að með því að sýslunefnd Barðastrandarsýslu „virðist“ hafa fullnægjandi heimildir í lögum o. s. frv. Hins vegar hefur hv. frsm. fullyrt, að heimild sé fyrir hendi samkv. l. frá 1890, og reynist það rétt, fellst ég á, að málinu sé borgið með dagskránni, og set mig ekki á móti þeirri afgreiðslu.

Ég mun sjálfur fylgja málinu eftir hjá sýslun. og dómsmrn., og kann málið því að koma fyrir aftur á næsta þ.