24.09.1943
Neðri deild: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í C-deild Alþingistíðinda. (2104)

69. mál, húsaleiga

Flm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Herra forseti. Í 8. gr. l. um húsaleigu, nr. 39 frá 6. apríl 1943, segir svo, hvernig húsaleigunefnd Reykjavíkur skuli skipuð, að bæjarstjórn á að kjósa tvo menn, ríkisstjórn á að skipa tvo, og hæstiréttur skal skipa þann fimmta, og sé hann formaður nefndarinnar.

Í sömu grein eru ákvæði um það, að ráðuneytið geti skipt störfum með nefndarmönnum, og hafa þau verið þannig framkvæmd, að þrír nm. hafa annazt öll þau störf n. að undanteknu mati á húsaleigu og staðfestingu leigumála, en hinir tveir hafa annazt um það hvort tveggja og ekkert annað.

Þetta virðist eðlilegt, þegar litið er á það, hvernig n. er skipuð, að þar eru tveir frá ríkinu og tveir frá bæjarstjórn og svo hlutlaus oddamaður skipaður af hæstarétti. Svo getur annar aðilinn, þ. e. ríkisstj. skipað svo fyrir, að hver af nm. skuli ekki taka þátt í aðalstörfum n. Þetta gæti farið vel á þá leið, að fulltrúar ríkisstj. yrðu þannig teknir út úr, en það hefur ekki verið gert, heldur hefur verið tekinn annar fulltrúi ríkisstj. og annar fulltrúi bæjarstj. Ég hef líka ástæðu til þess að ætla, að öllum hv. þm. hafi ekki verið það ljóst, er l. voru sett, hvernig þetta atriði mundi verða framkvæmt, og þetta frv., sem ég ber hér fram, fjallar um leiðréttingu á þessu atriði, því almennt mun hafa verið álitið, að n. ætti öll að fjalla um þau mál, sem fyrir hana eru lögð.

Ég hef því lagt til, að n. skipi sjálf með sér verkum og að hún mæti öll á fundum, þegar úrskurðir eru upp kveðnir.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta að sinni, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.