21.04.1943
Sameinað þing: 6. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (2109)

11. mál, samþykki til frestunar á fundum Alþingis

Brynjólfur Bjarnason:

Út af því, sem hv. þm. Str. sagði, að þessi till. bryti í bága við stjórnarskrána, þá fer það að verða margt, sem á að brjóta í bága við hana. Ég vil benda á, að það eru engin fyrirmæli til um, að brbl. séu gefin út, meðan þingfundum er frestað. Það orkar því ekki tvímælis, að Alþ. getur takmarkað rétt stj. til að gefa út brbl. Ég vil líka mótmæla því, að till. sé ekki framkvæmanleg, þar sem slík ummæli frá hæstv. forseta gætu ef til vill haft áhrif á atkvgr. Það er fjarstæða, sem hver maður hlýtur að sjá. Þegar um það er rætt, að stj. beri sig saman við flokkana, þá er ekki líklegt, að hægt sé að ráðgast við þingflokkana í heild, en hins vegar er hægt að ná til þingflokkanna gegnum fulltrúa þeirra. Þetta er því vel framkvæmanlegt, það hlýtur hverjum hv. þm. að vera auðskilið.