17.11.1943
Neðri deild: 48. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í C-deild Alþingistíðinda. (2115)

69. mál, húsaleiga

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Það hefur tekið hv. félmn. alllangan tíma að athuga þetta tiltölulega litla frv., og get ég ekki látið vera að segja, að mér finnst satt að segja árangurinn af starfi hennar alls ekki í réttu hlutfalli við tímalengdina.

Rökin til þess, að þetta frv. var borið fram á sínum tíma, voru í höfuðdráttunum þessi: Eins og allir hv. þm. vita, þá er húsaleigun. Reykjavíkur skipuð fimm mönnum. Tveir eru kosnir af bæjarstjórn, tveir eru skipaðir af ríkisstj., en formaðurinn er skipaður af hæstarétti. Svo hefur félmrh. vald til þess að ákveða starfsskiptingu innan n. með þeim hætti, að tveir nm. skuli aðeins annast leigumat, m. ö. o. venjuleg skrifstofustörf, en þrír nm. önnur mál, sem l. fjalla um. Tveir nm. eru m. ö. o. settir út fyrir garð í n. Þeir hafa ekkert að gera nema að mæla gólfflöt í herbergjum og margfalda með ákveðinni tölu innan vissra takmarka, sem þeim eru sett af stj. Það liggur í augum uppi, að vel gæti stj. haldið svo á, að hún veldi til þessa starfs einmitt þá fulltrúa, sem bæjarstj. skipar. Hún hefur að vísu ekki gert það í þessu tilfelli, en vel mætti hugsa sér það, því að það er opið samkv. l. Og þá væri svo komið, að bæjarstjórn Reykjavíkurbæjar ætti engan fulltrúa í þeirri þriggja manna n., sem fjallar um öll þau stóru vandamál, sem fyrir n. koma, heldur væri hún skipuð mönnum, tilnefndum af hæstarétti og ríkisstj. Þetta hygg ég, að allir sanngjarnir menn geti verið sammála um, að sé mjög óeðlilegt lagaákvæði. Það er mál út af fyrir sig, að verkaskipting sé innan n., sem hún ákveður sjálf, en hér er opið l. samkv., að fulltrúar Reykjavíkurbæjar, sem hér eiga mestra hagsmuna að gæta, séu útilokaðir frá aðalstarfi n., og er það að mínum dómi hrein og bein fjarstæða. Þess vegna lagði ég til, að bætt yrði úr þessum ágalla l. á þá lund, að allir fimm nm. skuli saman komnir á fundi, þegar úrskurðir eru kveðnir upp, þó að n. sjálf gæti ákveðið með sér verkaskiptingu.

Mér finnst, að þau rök, sem fram hafa komið gegn þessu og sagt, að stafi frá form. húsaleigun., harla léttvæg. Rökin eru fyrst og fremst og því nær eingöngu þau, að ókleift sé fyrir n. að sinna skyldustörfum sínum, ef þar ættu sæti fimm menn í stað þriggja, því að þá yrði svo erfitt að kalla saman fund o. s. frv., að það mundi torvelda og tefja öll nefndarstörf. Ég get ekki annað sagt en að rök eins og þessi séu með öllu óframbærileg. Hvaða ástæða er til að bera þeim fimm mönnum, sem í n. hafa verið skipaðir, þá vanrækslu á brýn, að þeir mundu ekki hirða um að mæta á lögboðnum fundi til þess að gegna skyldustörfum um uppkvaðningu úrskurða og önnur störf? Sem sé, röksemdin hvílir á þessu, að fimm mönnum, sem hafa verið skipaðir í n. af bæjarstj. Reykjavíkur, ríkisstj. og hæstarétti, er ekki til þess trúað að rækja störfin af þeirri samvizkusemi, að þeir mæti á fundum og geri þar skyldu sína. Ég sé ekki ástæðu til að taka tillit til slíkra raka. Það er engin ástæða til að ætla, að þeir tveir menn, sem nú hafa verið settir út fyrir garð í n., muni ekki hirða um að koma á fundi og gegna þar skyldustörfum sínum. Ég þekki þá báða svo vel að samvizkusemi og skyldurækni, að ég veit, að þeir mundu ekki láta undir höfuð leggjast að koma þar á fundi, svo að það tefði í engu störf n.

Meiri hl. hefur viljað taka nokkurt tillit til þessara röksemda. Hann leggur til, að skylt sé, að allir nm. séu á fundi, þegar framkvæma skal 5. gr. l., sem er um leigunám. Ég sé enga ástæðu til slíks undanhalds fyrir tyllirök húsaleigun., en þó get ég lýst yfir, að ég tel bót að fá þessa till. samþ. en að engin breyt. sé gerð, því að vissulega er það svo, að það eru viðkvæmustu úrskurðirnir, sem kveðnir eru upp samkvæmt 5. gr., og kannske þeir, sem mest ábyrgð fylgir, og því sérstök ástæða til, að allir nm. séu þá viðstaddir.

Þá hefur meiri hl. komið hér með nýja brtt. við l., á þá leið, að kostnað, sem leiðir af starfi n., skuli greiða að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu úr bæjar- og sveitarsjóðum. Ég er fyllilega samþ. þessari brtt. meiri hl. Ég get ekki fallizt á þau rök, sem fram komu gegn henni frá hv. 1. þm. Rang. Hann lítur svo á, að þessi störf séu eingöngu unnin í þágu þeirra bæjarfélaga, sem hlut eiga að máli, og engra annarra. Þessi staðhæfing er ekki rétt. Við, sem þekkjum til í Reykjavík, vitum það, að í Reykjavíkurbæ eru nú tugir og hundruð fjölskyldna, sem hingað hafa komið á allra síðustu árum og eru hér þrátt fyrir húsaleigul. og hafa óleyfilega búsetu, og það er ekkert við þeirri staðreynd að gera, sem er. Þetta fólk er hér, og hefur ekki tekizt að stemma stigu fyrir, að það tæki hér upp húsnæði fyrir bæjarmönnum, enda ætla ég, að einhverjum mundi þykja þröngt fyrir dyrum, ef að því yrði horfið að senda þetta fólk, sennilega þá með sveitarflutningi, heim á sína sveit, sem það kom frá.

Þá er annað, sem er þó veigameira. Það er alkunnugt, að húsnæðisvandræðin stafa fyrst og fremst af því, að talsverðir erfiðleikar hafa verið á að reisa nýbyggingar, m. a. vegna efnisskorts. Nú get ég ekki séð, að það sé réttlátt, að bæjarfélögin ein gjaldi þessara erfiðleika. Mér skilst, að það sé eðlilegt, að sameiginlegur sjóður landsmanna taki þátt í þeim erfiðleikum, sem af þessu leiðir.

Ég skal svo ekki eyða meiri tíma í að tala um þetta mál. Ég endurtek þá yfirlýsingu mína, að ég tel, að brtt. meiri hl. sé til hins verra, en þó framför frá l., og get ég af þeim ástæðum fylgt henni. Enn fremur finnst mér, að brtt. hans um, að kostnaður við framkvæmd l. skuli skiptast jafnt milli ríkissjóðs og bæjarsjóðs, sé til bóta, og mæli því eindregið með henni.