17.11.1943
Neðri deild: 48. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (2122)

69. mál, húsaleiga

Frsm. meiri hl. (Sigurður Thoroddsen):

Herra forseti: Mér þótti ekki gæta samræmis í ræðu hv. frsm. minni hl. heilbr.- og félmn., þegar hann annars vegar var að brigzla hv. flm. frv. um það, að lítið hefði fengizt í hans máli, sem væri nú gerbreytt og orðið að engu, og þar, sem hann sagði, að það væri mjög sjaldgæft að fá úrskurð samkvæmt 5. gr. húsaleigul. En þegar hann hins vegar talar um kostnað, sem af þessum úrskurðum leiðir, sem teljast verður eðlilegt, að skiptist milli ríkis og bæjarfélags, þá er þetta eitthvert voðalegt atriði í hans augum. Eins og hv. formaður n., þm. Ak., vissi ekki um, hver þessi kostnaður gæti orðið, þá er það ekki á okkar valdi að segja um það, því að við vitum ekki, hvaða ráðstafanir verða gerðar. En hins vegar, þegar þessi l. voru samþ. um húsaleigu, þá var heldur ekki spurt um kostnaðinn, sem af 5. gr. l. gæti leitt fyrir Reykjavíkurbæ. Þar er gert ráð fyrir, að húsaleigun. hafi vald til þess að taka leigunámi hús og hún geti breytt þeim, en um kostnað við það var ekki spurt né neitt tekið fram, þegar hæstv. Alþ. setti þau l. En nú er, eins og hv. flm. benti á, alveg sjálfsagt, að ríkið beri helming af þessum kostnaði, því að það er ekki réttlæti í því, að bæjarfélög súpi seyðið af því, sem í fyrsta lagi gert var í þessum efnum fyrir ráðstafanir ríkisstjórnarinnar fyrir stríð, með því að koma í veg fyrir, að nægilegt byggingarefni fengist til landsins flutt, til þess að hægt væri að byggja, og svo í öðru lagi af því ástandi, sem hefur skapazt við það, að fólk úr öðrum landshlutum hefur flykkzt hingað til bæjarins í atvinnuleit. Það er því ekki nema eðlilegt, að ríkið beri helming kostnaðarins af þessu.