17.11.1943
Neðri deild: 48. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (2123)

69. mál, húsaleiga

Sigfús Sigurbjartarson:

Herra forseti. Hv. 11. landsk. þm. hefur nú að nokkru leyti tekið af mér ómakið með því að benda á samræmið í ræðu hv. 1. þm. Rang. (BFB), þar sem hann annars vegar telur þetta ákaflega lítilfjörlegt mál og einskisverða breyt., sem meiri hl. n. gerir till. um viðvíkjandi 5. gr. húsaleigul., en hitt stórmál, hvort ríkið eigi að bera kostnaðinn af þessu eða ekki. En sá kostnaður hlýzt af ákvæðum 5. gr.

Hins vegar finnst mér það lítil röksemd í þessu máli, þó að húsaleigun. segi: Fyrirkomulagið hefur gefizt ágætlega, — því að þar er n. að gefa sjálfri sér vitnisburð. Ég er ekki viss um, að allir Reykvíkingar, sem við n. hafa skipt, mundu skrifa undir hennar eigin úrskurð um sjálfa sig. Og mér finnst á tæpasta vað farið í röksemdaleiðslu á hæstv. Alþ., ef fara á til einhvers aðila og spyrja: Hvernig hefur þetta nú gengið hjá þér, sem þú hefur átt að framkvæma? — og bera það svo fram sem rök hér á þingi, ef svarið verður: Jú, það hefur gengið ágætlega hjá mér. — En þetta hefur hv. 1. þm. Rang. látið sér sæma. Og svo segir þessi hv. þm.: Þetta er allt í lagi, við skulum í engu breyta til með húsaleigul., þar sem húsaleigun. segir, að þetta sé í svona góðu lagi hjá sér. — Og hv. þm. segir þetta, enda þótt hægt sé að benda á mörg rök fyrir því, að það þurfi að breyta l. þessum. Hv. 1. þm. Rang. segir, að engar kvartanir hafi komið fram í þessu efni. Ég er nú þessum málum hér í Reykjavík kunnugri en hann, og ég segi, að það hefur komið fram fjöldi kvartana yfir störfum húsaleigun.