28.10.1943
Neðri deild: 39. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í C-deild Alþingistíðinda. (2134)

110. mál, jarðræktarlög

Flm. (Ingólfur Jónsson) :

Ég hef leyft mér ásamt tveim öðrum þm. að flytja þetta frv. á þskj. 197. Það má segja, að óþarft sé að halda langa framsöguræðu um mál, sem svo lengi er búið að ræða innan þings og utan sem þetta. Frv. hefur verið flutt áður, en ekki gengið fram. Nú teljum við meiri vonir til þess en áður. Því lengur sem líður, verður það ljósara öllum mönnum, að ákvæði það, sem við viljum fella úr l., hefur ekki náð tilgangi sínum og á ekki tilverurétt.

Það var, sem kunnugt er, tilgangur jarðræktarl. að veita mönnum verðlaun fyrir unnar jarðabætur. Það var réttlætt með því, að þeir menn ynnu að því að gera landið betra fyrir komandi kynslóðir og byggilegra. En með breyt. á jarðræktarl. 1936 var seinasta greinin sett inn með þeim ákvæðum, sem nú eru. Eftir því sem búið er að vinna meira á tiltekinni jörð, minnkar styrkur, sem ábúanda hennar er veittur og getur að síðustu fallið niður, er ákveðinni upphæð er náð. Þetta ákvæði tel ég vera mjög óheppilegt, að svipta megi mann styrk sakir dugnaðar hans við jarðabætur og það getur tafið mjög og torveldað ræktun og skiptingu jarða, þar sem hún er oft æskilegust. Samkvæmt þessari gr. er styrkurinn ekki veittur sem verðlaun, heldur sem vaxtalaust lán út á jörðina. Það ákvæði hefur dregið mjög úr áhuga margra bænda við umbætur, og vissulega er hér ekki lengur um verðlaun né styrk að ræða, heldur lánsfé, sem menn vilja komast af án, vilja ekki binda jörðum sínum þann bagga að ástæðulausu, því að sjálfir þykjast þeir vel geta rekið búskapinn eins og áður án jarðabóta. Ég efast ekki um, að þeir, sem greinina settu, gerðu það í þeim góða tilgangi að hindra jarðabrask og óeðlilega verðhækkun. En það hefur alls ekki tekizt, og þarf önnur ráð til þess, en ekki þetta. Þegar hitt er viðurkennt, að greinin hefur orðið til þess að draga úr jarðabótum, en nú er meiri þörf en nokkru sinni hefur verið að hefja landnámsöld í jarðrækt og umbótum í landbúnaði, hlýtur að vera kominn tími til að nema hana úr l.

Ég óska þess, að Alþingi taki málinu vel, og verði því vísað til 2. umr. og landbn.