03.12.1943
Neðri deild: 58. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (2144)

110. mál, jarðræktarlög

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fjölyrða um þetta, en ætla bara að lýsa undrun minni yfir því, að frsm. meiri hl. landbn. skyldi ekki sjá sér fært að láta uppi skoðun sína á þessu máli og að hann skuli ekki ljá því fylgi að nema þetta ákvæði í burtu. Ég hef álitið þennan þm. nokkurs konar landbúnaðarfrömuð, og tekur það mig því sárar, að hann skuli vera því fylgjandi að viðhalda þessu rangláta ákvæði, sem svo illa er liðið meðal bændastéttarinnar. Hann ber hér fram rökst. dagskrá ásamt hv. þm. Hafnf. og hv. 1. landsk. Annars átti ég ekki von á því, að þessi hv. þm. þyrfti að bindast samtökum við þessa menn til þess að votta bændum vináttu og tryggð. Hann afsakar afstöðu sína með því, að það starfi mþn., sem hafi með þetta mál að gera og sé því ekki ástæða til þess að taka þetta eina ákvæði til meðferðar nú, en láta önnur haldast í gildi, sem eru enn verri fyrir bændastétt landsins. Þessi hv. þm. var að minnast á fylgiféð, og vil ég þá beina þeirri spurningu til hans, hvaða ákvæði verði um fylgifé, þegar 17. gr. er afnumin. Þá er ekki um neitt fylgifé að ræða, þá verður ekki veittur styrkur sem lán, heldur verður styrkurinn veittur sem verðlaun fyrir framkvæmdir, sem bændur inna af hendi á jörðum sínum, og þeir, sem eru svo duglegir að framkvæma jarðabætur, fá þetta fé og þurfa ekki að skila því aftur beinlínis. Þar sem þessi þm. var að tala um, að þótt 17. gr. yrði afnumin, væru önnur ákvæði til verri í jarðræktarl., þá leyfi ég mér að biðja hann að koma með skýringar á því, hvaða ákvæði það eru. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta, en vil taka það fram, að mér eru það mikil vonbrigði, ef þeir menn, sem bændur hafa falið umboð fyrir sig hér á Alþ., ætla að viðhalda því ranglæti, sem 17. gr. jarðræktarl. hefur að innihalda, eftir að komið hefur skýrt í ljós, að þessi gr. hefur á engan hátt náð þeim tilgangi, sem henni var ætlað í fyrstu. Ég tók það fram í framsöguræðu minni fyrir þessi máli, að ég ætlaði ekki að fara hörðum orðum um þá menn sem á sínum tíma leyfðu þetta ákvæði af því það gaf að vissu leyti vonir, sem við í sjálfstfl. að vísu lögðum aldrei neitt upp úr, en þar sem það hefur komið í ljós, að þessar vonir manna hafa með öllu brugðizt og bændur heimta að þessu oki verði af þeim létt, ætti öllum að vera ljós nauðsyn þess að afnema þetta ákvæði í burtu. Það má vel vera, að mþn. komi með till. um að afnema 17. gr., en það er hins vegar engin vissa fyrir því, og tel ég því enga ástæðu til að bíða eftir því, að þessi n. komi með álit. Ef við höfum gert okkur það ljóst, að þessi 17. gr. sé ranglát gagnvart bændastétt landsins og hún sé versta ákvæðið í jarðræktarl., þá er alls ekki nein ástæða til þess að bíða eftir áliti frá mþn., heldur á hreint og beint að fella þessa gr. burtu, og hafði ég vænzt þess af hv. þm. Mýr., að hann teldi sér skylt að fá þetta afnumið, eftir að komið var í ljós, að þessi gr. er aðeins til skaða, því að hún dregur úr jarðræktarframkvæmdum landsins.